Góður félagi okkar og vinur og einn frumherja íþrótta fatlaðra á Íslandi, Erlingur Þ. Jóhannsson lést laugardaginn 27. nóvember sl. langt um aldur fram.
Erlingur, sem var kennari að mennt, starfaði lengst af sem Íþróttafulltrúi Reykjavíkurborgar. Sem íþróttamaður stundaði Erlingur sund og sundknattleik hjá KR en eftir að hann hætti keppni tók hann til við þjálfun sundfólks auk þess sem hann var formaður Sundsambands Íslands um hríð.
Erlingur hóf afskipti af þjálfun fatlaðra sundmanna 1978 og var upp frá því vakinn og sofinn yfir velferð og velgengni fatlaðra íþróttamanna. Sem aðalsundþjáfari Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) og sem landsliðsþjálfari ÍF í sundi átti hann stóran þátt í að byggja upp sundkunnáttu fatlaðra íþróttamanna. Þannig er óhætt að fullyrða að hann hafi átt þátt í að móta allt besta sundfólk Íslands úr röðum fatlaðra, íþróttafólk sem borið hefur hróður landsins víða um heim.
Eftir að Erlingur hætti sem landsliðsþjálfari ÍF í sundi 1996 tók hann sæti í stjórn ÍF og sat í stjórn sambandsins til ársins 2009 er hann steig til hliðar.
Erlings Þ. Jóhannssonar verður þó fyrst og síðast minnst fyrir að vera drengur góður og vera maður með stórt hjarta sem ávallt var hægt að leita til. Skrápurinn virtist sundum hrjúfur en fyrir innan var einstakt ljúfmenni sem vildi veg allra sem mestan. Heimsóknum Erlings á skrifstofu ÍF, ráðleggingum hans, liðveislu og gamansemi verður sárt saknað.
Þakkir og söknuður eru efst í huga þegar þessi góði félagi og vinur er fallinn frá. Blessuð sé minning Erlings Þ. Jóhannssonar.
Íþróttasamband fatlaðra sendir eftirlifandi eiginkonu hans Hrafnhildi Hámundardóttur og fjölskyldu samúðarkveðjur.