Alþjóðasamtök íþróttafréttamanna, AIPS, heiðruðu í gær á hátíðarsamkomu í Lausanne í Sviss Erling Jóhannsson, sundþjálfara fatlaðra, sem lést í nóvember síðastliðnum. Hann var einn þriggja sem hlutu Power of Sport Award sem veitt voru í fyrsta sinn um leið og hin árlegu World Fair Play Awards voru veitt. Hugmyndin að Power of Sport Award verðlaununum eru komin frá orðum Nelsons Mandela þegar hann afhenti fyrstu Laureusverðlaunin árið 2000 þegar hann sagði íþróttir geta breytt heiminum, að þær hefðu kraft og vald til þess að sameina heiminn betur en nokkurt annað afl. Að þær tali tungumáli sem ungt fólk skilur og þær geti skapað von þar sem áður var aðeins örvænting. Með þessi orð í huga var ákveðið að heiðra fólk sem hefur lagt sitt að mörkum til að bæta umhverfi sitt og þjóðfélag í gegnum íþróttir.
Ásamt Erlingi voru May El Khalil frá Líbanon og Nawal El Moutawakel frá Marokkó heiðraðar. El Khalil er upphafskona Beirút maraþonhlaupsins sem hefur orðið einstakt saminingarafl í stríðshrjáðu Líbanon þar sem svarnir óvinir koma saman einu sinni á ári, gleyma erjum sínum og hlaupa hlið við hlið. Í fyrra tóku ríflega 28 þúsund hlauparar þátt í maraþonhlaupinu sem er orðinn einn stærsti árlegi viðburðurinn í landinu.
Nawal El Moutawakel varð fyrst afrískra og arabískra kvenna til að vinn gullverðlaun á Ólympíuleikum, í 400 metra grindahlaupi í Los Angeles 1984. Eftir að keppnisferli hennar lauk hefur hún barist ötullega fyrir þátttöku kvenna í íþróttum og heilsu kvenna í Afríku og arabalöndum. Árið 1997 varð hún fyrst múslímskra kvenna kosin í alþjóða ólympíunefndina, IOC.
Erlingur þjálfaði fatlað sundfólk í rúm 30 ár og á stóran þátt í þeim frábæra árangri sem það hefur náð á liðnum árum. Jafnframt sundþjálfuninni lagði hann mikla áherslu á að íþróttamenn hans yrðu eins sjálfbjarga í daglegu lífi og mögulegt var. Erlingur greindist með banvænt krabbamein fyrir rúmum tveimur árum, en hélt áfram að þjálfa fram á síðasta dag. Hann stjórnaði síðustu æfingu sinni tveimur dögum áður en hann var lagður inn á líknardeild og lést tíu dögum síðar. Halldór Guðbergsson, keppandi á Ólympíumótum fatlaðra 1988 og 1992, og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Erlings.
Á meðal þeirra sem voru heiðraðir með World Fair Play viðurkenningunni var Edwin Moses, tvöfaldur Ólympíumeistari í 400 metra grindahlaupi karla og forseti Laureussamtakanna sem vinna ómetanlegt starf fyrir ungmenni út um allan heim í gegnum íþróttir.
Meðfylgjandi mynd:
Halldór Guðbergsson ásamt Nawal El Moutawakel (tv.) og May El Khalil.