Íþróttasamband fatlaðra og 66° Norður endurnýjuðu á dögunum samstarfs- og styrktarsamning sín á milli sem gildir til ársins 2012. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF sagði við tækifærið að ánægja væri á meðal íþróttahreyfingar fatlaðra að hafa 66° Norður sem einn af styrktar- og samstarfsaðilum félagsins enda starfaði fyrirtækið faglega og markaðsetti vandaðan varning.
Samningurinn kveður á um styrki vegna ýmissa verkefna ÍF á samningstímabilinu en 66° Norður voru t.d. áberandi á Vetrarólympíuleikum fatlaðra í Kanada árið 2010 þar sem skíðakonan Erna Friðriksdóttir varð fyrsti íslenski keppandinn í alpagreinum.
Halldór G. Eyjólfsson forstjóri 66°Norður sagði við undirskrift samningsins að spennandi væri að taka þátt í starfinu með Íþróttasambandi fatlaðra. Ærin og fjölbreytt verkefni væru á dagskránni næstu tvö árin og 66° Norður ætluðu sér að standa þétt við bakið á ÍF næstu tvö árin.
Mynd: Á myndinni eru f.v. Halldór Gunnar Eyjólfsson forstjóri 66 ° Norður og Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF við undirritun samningsins.