Sigurður Magnússon, fyrsti formaður Íþróttasambands fatlaðra, er látinn 82 ára að aldri.
Sigurður var einn af frumkvöðlum íþrótta fatlaðra hér á landi og á engan hallað að kalla hann guðföður íþrótta fatlaðra á Íslandi. Í sögu hreyfingarinnar á Íslandi leikur Sigurður svipað hlutverk og Sir Ludvig Guttmann á heimsvísu en hið eiginleg upphaf íþrótta fatlaðra má rekja til Sir Guttmanns.
Næsta víst má telja að staða íþrótta fatlaðra væri önnur ef áhuga og elju Sigurðar hefði ekki notið við að ýta starfinu úr vör og stýra því fyrstu tólf árin. Þannig átti hann 1974 þátt í stofnun fyrsta íþróttafélags fatlaðra á Íslandi, Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og 1979 að stofnun Íþróttasambands fatlaðra þar sem hann gengdi formennsku fyrstu sex árin og beitti sér mjög í starfi samtakanna. Þá átti hann hvað stærstan þátt í stofnun Nord-HIF (Íþróttasamband fatlaðra á Norðurlöndum) en samtökin voru stofnuð hér á landi árið 1976.
Sigurðar verður þó ekki eingöngu minnst fyrir þátt sinn og stuðning við íþróttir fatlaðra því spor hans innan íþróttahreyfingarinnar liggja víða. Hann var formaður handknattleiksráðs Reykjavíkur og framkvæmdastjóri ÍR, fyrsti framkvæmdastjóri ÍBR, skrifstofu- og útbreiðslustjóri ÍSÍ og síðar framkvæmdastjóri sambandsins en því starfi gengdi hann til starfsloka.
Sigurður hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín innan íþróttahreyfingarinnar. Hjá Íþróttasambandi fatlaðra var hann, auk þess að vera sæmdur gullmerki ÍF, kjörin fyrsti heiðursfélagi sambandsins, verðskulduð viðurkenning til þessa mikla eldhuga og ötula baráttumanns um íþróttir fatlaðra.
Á kveðjustund er íþróttahreyfingu fatlaðra þakklæti efst í huga, þakklæti fyrir hið mikla og fórnfúsa starf er hann innti af hendi í þágu íþrótta fatlaðra og er grunninn að því góða starfi sem við nú byggjum á.
Eiginkonu hans Sigrúnu Sigurðardóttur, sonum þeirra sem og öðrum ástvinum sendum við hugheilar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Sigurðar Magnússonar.