Föstudaginn 15. apríl stóðu Hjálmar fyrir fyrir styrktartónleikum vegna ferðar íslenskra keppenda á aþjóðaleika Special Olympics í Aþenu í júní. Sérstakur gestur var hljómsveitin Valdimar. Helgi Magnússon, keppandi í fimleikum var hvatamaður að tónleikunum en hann hringdi í frænda sinn, Helga í Hjálmum og óskaði eftir því að Hjálmar myndu halda tónleika vegna Aþenuferðarinnar. Helgi frændi brást snarlega við og hóaði saman hljómsveitarmeðlimum sem ákváðu að halda glæsilega tónleika á NASA föstudagskvöldið 15. apríl.
Félagar þeirra í hljómsveitinni Valdimar slógust í hópinn og þessar tvær frábæru hljómsveitir náðu að troðfylla húsið og skapa rífandi stemmingu á NASA. Kynnar á tónleikunum voru Helgi Magnússon og Elfa Björg Gunnarsdóttir og þau slógu í gegn með góðum töktum á sviðinu. Í lok tónleikanna sögðu Helgi og Elfa að safnast hefði rúmlega 900.000 kr og allt ætlaði vitlaust að verða í húsinu.
Markmið Hjálma var að styrkja bæði fimleikahópinn sem átti hugmyndina að tónleikunum og ferðina í heild og það markmið hefur náðst.
Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til hljómsveitarinnar Hjálma fyrir þeirra ómetanlega framlag til starfsemi Special Olympics á Íslandi.
Um þátttöku Íslands í Special Olympics:
Stærsta verkefni Íþróttasambands fatlaðra árið 2011 er þátttaka Íslands á alþjóðaleikum Special Olympics í Grikklandi 25. júní – 4. júlí. Fjármögnun verkefna hefur verið erfið undanfarið en ÍF hefur ávallt notið mikils stuðning og velvilja, fyrirtækja sem almennings. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika var ákveðið að nýta kvóta Íslands og senda 38 íslenska keppendur á alþjóðaleikana til keppni í 8 íþróttagreinum. Umfang og glæsileiki alþjóðaleika Special Olympics líkist helst ólympíumótum en keppnisform er gjörólíkt. Einstaklingar með þroskahömlun keppa á þessum leikum þar sem þátttakan er aðalatriðið, allir keppa við sína jafningja og eiga sömu möguleika á verðlaunum. Hugmyndafræði Special Olympics byggir á gildi jafnræðis og umburðarlyndis, virkri þátttöku, einstaklingsmiðaðri færni og ekki síst gildi vináttunnar.
Mynd/ Sigurður Guðmundsson liðsmaður Hjálma var reffilegur á tónleikunum.