Föstudagur 10. júní 2011 12:40

Alþjóðaleikar Special Olympics í Grikklandi 25. júní – 4. júlí 2011

Alþjóðaleikar fyrir fólk með þroskahömlun  - þar sem allir eru sigurvegarar

www.specialolympics.org
www.athens2011.org

Alþjóðaleikar Special Olympics eru haldnir fjórða hvert ár. Árið 2003 fóru leikarnir í fyrsta skipti fram utan Bandaríkjanna en þá fóru þeir fram í Írlandi og árið 2007 í Kína. Næstu alþjóðaleikar verða í Aþenu í Grikklandi 25. júní til 4. júlí 2011. Alþjóðasamtök Special Olympics hafa náð gífurlegri útbreiðslu og nú eru um 3.5 milljón iðkenda um heim allan. Á leikunum í Aþenu verða 7000 keppendur frá 180 þjóðum, 3.500 starfsmenn íþróttagreina auk 25.000 sjálfboðaliða, aðstandenda, gesta, fjölmiðlafulltrúa og áhorfenda. Keppnisgreinar eru Badminton, boccia, blak, borðtennis, fimleikar, frjálsar, körfubolti, handbolti, hestaíþróttir, golf, judo, keila, kajakróður, knattspyrna, lyftingar, siglingar, sund, skautahlaup, softball, tennis, hjólreiðar, MATP. 

Kjörorð leikanna er; I´m in eða ég er með og  tákn leikanna er sólarguðinn Appollo
Lógó leikanna á að endurspegla gríska landslagið og litirnir tákna lífsgleði, bjartsýni, staðfestu, frelsi og von

Íþróttasamband fatlaðra sendir 36 keppendur til Grikklands sem keppa í boccia, fimleikum, frjálsum íþróttum, golfi, keilu,  knattspyrnu, lyftingum og sundi.  Keppendur eru frá Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Garði, Selfossi, Akranesi, Siglufirði, Akureyri, Ísafirði og Bolungarvík.  Frá 20. – 24. júní verður hópurinn í vinabæ á svæðinu Halkidiki sem er skagi suðaustur af Thessaloniki.  Vinabæjardagskrá er sett upp í þeim tilgangi að þátttakendur kynnist lífi heimafólks og myndi tengsl við íbúa.  Þrír  tangar einkenna landslagið en þetta svæði er eitt það fallegasta í Grikklandi.  Þegar keppni hefst verður íslenski hópurinn á þremur gististöðum  í Aþenu en gististaðir taka mið af  fjarlægð til keppnisstaða.  Stór hópur aðstandenda fer frá Íslandi og 2 íslenskir handboltadómarar  taka þátt í dómgæslu  á leikunum.

Opnunarhátíð verður  25. júní og lokahátíð 4. júlí. Umfang og glæsileiki  alþjóðaleika Special Olympics líkist helst ólympíumótum en keppnisform er gjörólíkt. Engin lágmörk þarf á leikana en fyrstu dagana fer fram skipting í jafna getuflokka.  Þá hefst úrslitakeppni þar sem hámark 8 lið eða einstaklingar keppa sín á milli.   Gull, silfur og brons eru veitt fyrir fyrstu þrjú sætin og verðlaunaborðar fyrir fjórða til áttunda sæti. Þátttakendur á leikum Special Olympics eru einstaklingar með þroskahömlun en einnig er  keppt í samsettum liðum fatlaðra og ófatlaðra.  Heimsfrægt íþróttafólk verður viðstatt leikana s.s. Nadia Comaneci,fimleikastjarna, Vanessa Williams tenniskona og Yao Ming, leikmaður NBA auk fjölda annarra. 

Special Olympics samtökin gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til að sýna hvað í þeim býr á jafnræðisgrundvelli.  Í  gegnum íþróttastarfið hafa þjóðir heims sameinast á glæsilegum leikum þar sem byggt er á samvinnu, samkennd, umburðarlyndi og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins Þátttakan er aðalatriðið, allir keppa við sína jafningja og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum. 

Hugmyndafræði Special Olympics byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis. Lögð er megináhersla á þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og vináttu.

Nánar um Special Olympics samtökin
Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili starfsemi samtakanna á Íslandi og Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðaverkefnum.  Forseti Íslands,  Ólafur Ragnar Grímsson, hefur verið í alþjóðastjórn samtakanna og stutt dyggilega við starfið á Íslandi.  Special Olympics samtökin voru stofnuð árið 1968. Eunice Kennedy Shriver var forsvarsmaður frá upphafi en sonur hennar Timothy P. Shriver hefur nú tekið við keflinu.  Systkini hans, Maria Owings Shriver, Robert Shargent Shriver lll, Mark Kennedy Shriver og Anthony Paul Kennedy Shriver verða einnig viðstödd leikana en þeirra bíður erfitt hlutverk, að fylgja eftir árangursríku ævistarfi foreldranna í þágu Special Olympics samtakanna.  

Mynd;   Jóhann Fannar Kristjánsson, keppandi í fimleikum en hann æfir með fimleikadeild Gerplu

Nánari upplýsingar um ferðina má fá á skrifstofu ÍF
Sími: 514 4083  /   Anna K Vilhjálmsdóttir 897 5523

Til baka