Þriðjudagur 21. júní 2011 10:27

Langt og strangt ferðalag að baki

Íslenski Special Olympics hópurinn er kominn til Grikklands og þegar farinn að sleikja upp sólina eftir langt og strangt ferðalag. Hópurinn lagði árla morguns 20. júní af stað frá Leifsstöð til London og þaðan lá leið til Grikklands. Þegar komið var til Grikklands tók við tíu klukkustunda rútuferð í vinabæinn þar sem dvalið verður næstu þrjá daga áður en opnunarhátíð Alþjóðaleika SO hefst í Aþenu þann 25. júní næstkomandi.

Hópurinn er smátt og smátt að ná áttum en ferðalagið tók vel á hópinn sem þó sýndi aldrei neitt annað en hörku og dugnað. Þegar komið var á Hotel Port Marina voru ferðalangarnir ekki lengi í baðfötin og beint út í laug en þegar þetta er ritað er 30 stiga hiti og léttskýjað hér í Grikklandi og von á áframhaldandi veðurblíðu.

Hópurinn mun í dag taka því rólega við hótelið en strax á morgun hefst dagskrá vinarbæjarheimsóknarinnar og margt að sjá og því spennandi að vita hvað heimamenn hafa undirbúið fyrir hópinn.

Myndir/ Efri mynd: Lyftingakappar Íslands voru fljótir að snara sér í baðfötin og sleikja upp sólina. Á neðri myndinni eru vaskir fótboltakappar við upphaf ferðarinnar í Leifsstöð.

Til baka