Sunnudagur 26. júní 2011 20:12

Heimsbyggðin viðstödd þegar Guðmundur og Áslaug settu upp hringa

Opnunarhátíð Alþjóðaleika Special Olympics fór fram í Aþenu í gærkvöldi með pompi og prakt en mesta lukku í íslenska hópnum vakti þó uppátæki þeirra Guðmundar Arnar Björnssonar og Áslaugar Þorsteinsdóttur en þau eru keppendur á vegum Íslands á leikunum. Guðmundur og Áslaug trúlofuðu sig í gær á meðan þúsundir íþróttamanna streymdu inn á Kallimarmaro Panathinaiko Stadium. Óhætt er að fullyrða að þessi trúlofun sé með eitthvert mesta áhorf sem um getur í Íslandssögunni og parið átti með íslenska hópnum eftirminnilega kvöldstund.

Bæði koma þau Guðmundur og Áslaug frá Þjóti á Akranesi, Guðmundur keppir í boccia og Áslaug í keilu. Venju samkvæmt marsera íþróttamenn leikanna inn á leikvanginn við opnunarhátíðina og þegar Ísland, sem var nr. 52 í röðinni, hafði lokið sinni marseringu stigu þau Áslaug og Guðmundur fram og skiptust á hringum við mikið lófatak viðstaddra.

Þó mikið hafi verið um dýrðir á opnunarhátíðinni þá voru það Áslaug og Guðmundur sem áttu sviðið í gær, í það minnsta í hugum þeirra Íslendinga sem viðstaddir voru þetta skemmtilega uppátæki turtildúfnanna.

Til hamingju Áslaug og Guðmundur!

Af opnunarhátíðinni er það að segja að um tæplega fjögurra tíma veislu var að ræða þar sem enginn annar en Stevie Wonder tók lagið við miklar og góðar undirtektir viðstaddra og leikkonan Vanessa Williams hóf upp raust sína og splæsti í dúett með hr. Wonder í laginu ,,That´s what friends ar for.“ Wonder er jafn harður af sér og hinn aldni marmari þessa elsta íþróttaleikvangs í heiminum þar sem hátíðin fór fram. Wonder hefur engu gleymt og ekki fallið skuggi á nokkurn einasta tón hjá tónlistarmanninum síðustu áratugi.

Þá var sundgarpurinn Andri Hilmarsson úr Ösp í Reykjavík valinn til þess að vera merkisberi Íslands og hélt hann á merki hópsins á meðan marserað var inn á leikvanginn.

Í dag og á morgun eru íþróttamenn svo við skoðanir og prufur en þær eru ávallt gerðar áður en keppni hefst á Special Olympics til að meta í hvaða styrkleikaflokki hver íþróttamaður á heima. Þannig er tryggt að hver og einn keppandi geti gert sitt besta á jafnréttisgrundvelli.

Við munum svo birta keppnisdagskrá íslenska hópsins eins fljótt og auðið er en endanleg dagskrá fæst ekki fyrr en skoðunum og prufum er lokið.

Myndir/ Á efri myndinni er fólk Opnunarhátíðarinnar, þau Áslaug og Guðmundur, hið nýtrúlofaða par að sýna okkur hringana sína. Á neðri myndinni er allur íslenski hópurinn í Henson-göllunum góðu á meðan beðið var eftir því að marsera inn á leikvanginn.

Til baka