Grikkir mótmæla nú hástöfum í höfuðborginni Aþenu. Í gær og í dag hafa almenningssamgöngur legið niðri í höfuðborginni en mótmælin og pústrarnir millum lögreglu og mótmælenda eru víðsfjarri bæði keppendum og keppnisstöðum á Alþjóðaleikum Special Olympics sem standa nú yfir í Aþenu. Mótmælin beinast að yfirvöldum í Grikklandi en staðan í landinu er afar slæm og almenningur gríðarlega ósáttur við þær skattahækkanir sem boðaðar hafa verið.
Mótmælin eiga sér stað í miðborg Aþenu en gististaðir keppenda sem og sjálfir leikvangarnir eru í töluverðri fjarlægð. Boðuðu verkfalli í almenningssamgöngum hér í borginni lýkur í kvöld og þá ætti að liðkast aðeins til í umferðinni sem hefur verið fremur þung í vöfstrum síðustu tvo sólarhringa.
Í tilkynningu frá Special Olympics segir að venju samkvæmt hafi alþjóðapressan ákveðið að blása vel upp þau átök sem átt hafa sér stað í Aþenu. SO segja ennfremur að unnið sé náið með undirbúningsnefnd leikanna sem og lögregluyfirvöldum við að tryggja öryggi keppenda og gesta á leikunum.
Mynd/ María Dröfn Einarsdóttir frá Eik á Akureyri stekkur hér í langstökki, hún og aðrir keppendur Íslands og annarra eru töluvert frá miðbæ Aþenu og verða því ekki vör við mótmælin.