Laugardagur 2. júlí 2011 08:47

Stór dagur í Aþenu: Úrslitastund í fótboltanum

Ísland og Svartfjallaland mætast í dag kl. 13:00 (10:00 Ísl. tími) í úrslitaleik B-riðils í knattspyrnu á Alþjóðaleikum Special Olympics. B-riðill er næststerkasti riðill mótsins en leikið er í 7 manna bolta.

Ísland og Svartfjallaland mættust í riðilinum þar sem Svartfellingar höfðu 6-4 sigur í leik þar sem niðurstaðan skipti ekki máli, fyrir þann leik var ljóst að Ísland og Svartfjallaland myndu mætast í úrslitum. Okkar menn eru í góðum gír og ætla sér sigur í dag enda hafa þeir leikið vel á mótinu og gefið sig alla í verkefnið.

Í dag verður einnig verðlaunaafhending í golfi, Guðmundur og Emelía keppa í tvíliðaleik í bocce, Ísland stingur m.a. til sunds í boðsundi og þær María og Sigríður taka þátt í úrslitum í langstökki og keiluhópurinn heldur inn í liðakeppni.

Íslenski hópurinn hefur því nóg fyrir stafni í Aþenu í dag á degi sem virðist ætla að vera einn af þeim heitari en þegar þetta er ritað laust fyrir hádegi er 35 stiga hiti í Aþenu.

Mynd/ Sigurður Guðmundsson verður í eldlínunni í dag með knattspyrnuliði Íslands sem leikur til úrslita gegn Svartfellingum.

Til baka