Laugardagur 27. ágúst 2011 08:03

Trail-O rathlaup á sunnudag

Rathlaupsfélagið Hekla fær hingað til lands einn fremsta sérfræðing heims í rathlaupi fatlaðra (Trail-O) um helgina. Owe Fredholm og kona hans Eva hafa unnið að þróun og framgöngu Trail-O undanfarin 20 ár. Owe hefur setið í Trail-O nefnd alþjóða rathlaupssambandsins (IOF) og haldið, stýrt og dæmt á ótal keppnum undanfarna áratugi. Hann vinnur einnig að þróun rafræns búnaðar fyrir rathlaup fatlaðra í samstarfi við SportIdent.

Owe kemur hingað til lands til að kenna íslenskum rathlaupurum að halda Trail-O viðburði en framkvæmdin er að nokkru leiti önnur en í hefðbundnu hlaupi.

Trail-O er ekki aðeins fyrir fatlaða. Greinin hefur notið mikilla vinsælda meðal ófatlaðra sem að geta ef einhverjum ástæðum ekki komist hratt yfir auk þess sem keppendur í hefðbundnum keppnum nota hana til að þjálfa nákvæman kortalestur. Heimsmeistarar og keppendur í heimsmótaröðinni eru því orðnir reglulegir þátttakendur í Trail-O viðburðum.

Trail-O notar sömu kort og hefðbundið rathlaup en í stað þess að hlaupa á milli stöðva og reyna að finna þær ganga keppendur á milli stöðva. Þar eru fimm flögg en aðeins eitt þeirra er það sem merkt er inn á kortið. Nákvæmur kortalestur verður þannig aðalatriðið en ekki hraði. Greinin reynir á nákvæmi keppenda og hentar því bæði þeim sem komast hratt yfir og þeim sem fara hægar. Rathlaup er frábær íþrótt sem að sameinar hreyfingu og hugarleikfimi í sátt við náttúruna.

Rathlaupsfélagið býður upp á æfingarhlaup og kynningu á íþróttinni sunnudaginn 28. ágúst. Hægt verður að taka þátt frá klukkan 11:00 til 12:30. Á sama tíma verður boðið upp á hefðbundið rathlaup.

Við hvetjum alla til að mæta og kynna sér spennandi íþrótt.

Frekari upplýsingar er hægt að fá á www.rathlaup.is eða með því að senda póst á rathlaup@rathlaup.is eða hringja í síma 8952409

Til baka