Sunnudagur 1. janúar 2012 22:37

Ávarp formanns

Í fjölbreyttu starfi eins og því sem ÍF stendur fyrir er ávallt eitthvert stórt verkefni í gangi. Á fjögurra ára fresti fer fram Ólympíumót fatlaðra og síðan eru það heimsleikar þroskahamlaðra (Global Games), alþjóðaleikar Special Olympics, heimsmeistaramót, Evrópumót og norræn mót ýmiss konar og þannig mætti lengi telja. Ekki má heldur horfa framhjá Íslandsmótunum sem fara fram í öllum þeim greinum sem fatlaðir stunda og þær eru ekki svo fáar.

Hjá um 20 félögum víðs vegar um landið taka um 1200 fatlaðir einstaklingar þátt í þessum mótum, sumir einungis í Íslandsmótum í einni grein en aðrir í mörgum greinum. Svo eru aðrir sem ná langt og keppa fyrir Íslands hönd á mótum erlendis og örfáir ná svo góðum árangri að þeir komast á Ólympíumót.
Í gegnum árin hafa fatlaðir íslenskir keppendur náð langt á þessu sviði, jafnt og þeir sem eru hreyfihamlaðir, blindir og þroskahamlaðir. Þeir hafa ekki náð svona langt bara með því að taka þátt, heldur liggur að baki óhemju vinna og tími hjá keppendum sem náð hafa á þessi mót. Það eru ekki bara keppendur sem hafa lagt á sig mikla vinnu, heldur standa að baki hverjum og einum keppanda góður þjálfari, íþróttafélag sem gerir honum kleift að stunda æfingar og ekki má gleyma þeim sem næst standa, svo sem foreldrum og aðstandendum sem líka þurfa að færa verulegar fórnir til að árangur náist. Þó allt þetta fólk vinni að mestu leyti í sjálfboðavinnu kostar mikla peninga að stunda íþróttir. Það þarf að greiða fyrir íþróttamannvirki, þjálfun og oft þurfa fatlaðir einstaklingar að fá utanaðkomandi akstur.

Þá spyr maður sig, ef þetta kostar svona mikla peninga, af hverju er fólk þá að þessu? Er það fyrir sigurvonina, er það fyrir gleðina að vera meðal jafningja eða til hvers?

Í öllum menningarþjóðfélögum og flestum löndum er talið nauðsynlegt að fólk, jafnt ungir sem aldnir fái rétta hreyfingu, hreyfingu sem viðheldur líkamanum og eykur vellíðan. Þetta þykir svo sjálfsagt hér á landi að meginþorri landsmanna stundar hreyfingu á einhvern hátt. Í íþróttafélögum landsins voru um síðustu áramót (2010-2011) 85.828 manns skráðir í íþróttafélög víðs vegar um landið. Þetta eru 27% allra landsmanna, jafnt kornabarna sem og eldri borgara, fatlaðra sem ófatlaðra. En þetta er ekki nóg, heldur iðka margir af þessum íþróttamönnum fleiri en eina grein og er heildarþátttaka í ýmsum greinum 227.930 sem er dágóður hluti landsmanna! Þar fyrir utan eru fjölmargir ekki skráðir í íþróttafélög heldur stunda íþróttir og útiveru á sinn hátt. Eins og áður segir eru um 1200 fatlaðir einstaklingar skráðir í félög og margir þeirra stunda fleiri en eina íþróttagrein. Má segja að ef það er talin nauðsyn að fullfrískur einstaklingur hreyfi sig er það enn meiri nauðsyn að fatlaður einstaklingur geri það, ef hann getur, sem er ekki alltaf sjálfsagt.

Einn af frumkvöðlum íþrótta fatlaðra á Íslandi, Arnór Pétursson, sem lést á síðasta ári sagði ávallt að íþróttir fatlaðra spöruðu þjóðfélaginu miklar fjárhæðir með hreyfingu í stað pilluáts eða jafnvel sjúkrahúslegu. Nú virðist vera að vakna skilingur á þessu innan heilbrigðisstétta því nú er farið að skrifa beiðni um sjúkraþjálfun í stað lyfja, þar sem það á við og er það ánægjuleg framför.
En jafnvel sjúkraþjálfun má leysa af með íþróttum og eins og faðir eins af okkar fremstu keppendum í sundi sagði við mig nýverið, að sonur hans hefði ekki þurft að fara í sjúkraþjálfun í eitt skipti síðan hann byrjaði að stunda stund.

Á síðasta ári fóru 36 keppendur til Grikklands í keppni á alþjóðaleika Special Olympics. Eins fóru 16 bö-rn og unglingar sína fyrstu keppnisferð á norrænt barna- og unglingamót og Íslands átti fulltrúa í Evrópumótum og Norðurlandamótum í ýmsum greinum sem allir stóðu sig frábærlega og bættust margir verðlaunapeningar í safnið. Þegar allar ferðir eru lauslega taldar fóru um 120 keppendur erlendist á vegum ÍF árið 2011. Þetta er mikill fjöldi og kostar þátttakan sitt. Þrátt fyrir að keppendur þurfi að taka á sig æ meiri þátttökukostnað, er þetta stór útgjaldaliður fyrir ÍF.

Á árinu 2012 verður keppt á Ólympíumóti fatlaðra í London. Er þetta stærsti íþróttaviðburður sem fatlaðir taka þátt í á árinu. Ekki er hann þó sá fjölmennasti af hálfu Íslendinga, en Ísland keppir þar við stærstu þjóðir heims um þátttökurétt og einungis þeir bestu í hverri grein og flokki ná þátttöku. Það verður því mikil barátta um hvert sæti og er það von okkar, ef allt gengur upp, að koma fimm keppendum á leikana.
Að öðlast þátttökurétt á þessum mótum er merki þess að æfingar hafi verið ástundaðar af krafti og eljusemi sem skilar keppendum í fremstu röð íþróttamanna frá öllum heiminum í sínum íþróttagreinum þó að stærsti sigurinn sé ávallt að bæta sig.

Ég óska öllum fötluðum íþróttamönum, þjálfurum, dyggum velunnurum, fórnfúsum sjálfboðaliðum, sem og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og þakka fyrir samstarfið á liðnum árum.

Sveinn Áki Lúðvíksson,
formaður ÍF

Til baka