Fimmtudagur 15. mars 2012 10:35

Skíðanámskeið í Hlíðarfjalli 2012

Boðið verður upp á nokkur skíðanámskeið í Hlíðarfjalli  í vor og fullbókað er á öll námskeiðin. Fyrsta námskeiðið var haldið helgina 2.-4.mars. Þar voru sex framtíðar skíðaiðkendur ásamt fjölskyldum sínum og skíðakennurum. Vegna veðurs á föstudeginum var sett upp inniæfing þar sem prófað var að ganga á skíðaskóm og fara í og úr skíðunum en það er krefjandi verkefni fyrir unga byrjendur. 

Á laugardeginum var snilldarveður og þá var skíðað kl. 10.00 – 12.00 og þá var á dagskrá klukkutíma matarhlé. Að sögn Elsu Skúladóttur sem var í forsvari námskeiðsins var talið að þátttakendur þyrftu góða hvíld en því var nú öðruvísi farið.  Eftir hálftíma matarhlé byrjuðu spurningar; Jæja, erum við ekki að fara á skíði? 

Að sögn skipuleggjenda var dagurinn nýttur vel og þreytt en ánægt skíðafólk fór heim í lok dags og hlakkaði til að mæta aftur á sunnudagsmorgni. Sól og blíða var á sunnudeginum á Akureyri en hvassviðri í Hlíðarfjalli. Nú vandaðist málið því allir vildu fara á skíði. Tómas Leifsson sem var einn af skíðakennurunum var snöggur að finna ráð og brekka við íþróttaleikvang Akureyringa reyndist hentug fyrir skíðafólkið sem hélt áfram að æfa sig áður en haldið var heim eftir góða helgi.

Nær allir voru byrjendur en höfðu náð góðum tökum á skíðunum á sínu fyrsta námskeiði.  Auk skíðanámskeiða fyrir fatlaða í Hlíðarfjalli 2012 var haldið leiðbeinendanámskeið í febrúar en þar var kennari Beth Fox frá NSCD, Winter Park, Colorado.

Til baka