Fimmtudagur 6. september 2012 11:58
Kolbrún Alda Stefánsdóttir og
Jón Margeir Sverrisson hafa lokið keppni á Ólympíumóti fatlaðra í London. Bæði kepptu þau í undanrásum í 100m bringusundi í morgun en hvorugu tókst að tryggja sér sæti í úrslitum í kvöld. Jón setti þó tvö ný Íslandsmet og Kolbrún var alveg við sinn besta tíma.
Jón Margeir synti á tímanum 1:13,91 mín. sem er nýtt Íslandsmet en það gamla var, merkilegt nokk, 1:13,92 mín. og aftur getum við talað um örbætingu því á 50 metrunum var Íslandsmet Jóns fyrir daginn í dag 33,96 sek. en þegar Jón kom í bakkann í morgun á 50 metrum var hann á nýju Íslandsmeti, 33,95 sek. Tvö ný Íslandsmet hjá kappanum sem væntanlegur er heim til Íslands með gullverðlaunin góðu næstkomandi mánudag.
Kolbrún Alda Stefánsdóttir synti í undanrásum með spænska utanborðsmótornum Michelle Alonso Morales sem setti nýtt Ólympíumótsmet á tímanum 1:18,78 mín. Kolbrún Alda synti á tímanum 1:30,58 mín. en best á hún 1:30,07 mín. svo hún var alveg við sinn besta tíma. Kolbrún kemur því heim af sínu fyrsta Ólympíumóti með tvö ný Íslandsmet, glæsilegt hjá þessari 15 ára kraftakonu sem á vissulega framtíðina fyrir sér.
Viðtal við Kolbrúnu á MBL.isViðtal við Jón Margeir á MBL.isMyndir/ JBÓ: Á efri myndinni er Kolbrún Alda í keppnishöllinni í London eftir undanrásirnar í 100m bringusundi í morgun. Á þeirri neðri er Jón á ferðinni í undanrásum.