Föstudagur 7. september 2012 16:42

Ísland hefur lokið keppni í London

Þá hefur íslenska sveitin lokið keppni á Ólympíumóti fatlaðra í London. Frjálsíþróttamaðurinn Helgi Sveinsson lokaði mótinu fyrir Íslands hönd og gerði það með glæsibrag er hann stórbætti Íslandsmetið sitt í spjótkasti í flokki F42.

Helgi hóf daginn í dag í 100m hlaupi og hafnaði þar í 11. sæti af 12 keppendum á tímanum 15,64 sem er töluvert fjarri hans besta árangri en Helgi lenti í erfiðleikum á brautinni og náði því ekki að sýna sitt rétta andlit.

Þegar hér var komið við sögu hafði langstökkið og 100m hlaupið hjá Helga farið forgörðum á mótinu og tvö svona bakslög hefðu eflaust dugað til að draga tennurnar úr mesta villidýri. Vopnaður gulum sokk merktum Svampi Sveinssyni arkaði Helgi ótrauður í spjótið og valtaði yfir Íslandsmetið sitt og hafnaði í 5. sæti! Mögnuð endurkoma hjá grimmum keppnismanni.

Helgi kastaði spjótinu fyrst 45,46 metra og strax í öðru kasti kom nýtt Íslandsmet sem reyndist 47,61 meter en gildandi met fyrir spjótkasti í dag var 46,52 metrar. Nýja metið er því tæpum 110 cm. lengra en það fyrra!

Lengra komst Helgi ekki að þessu sinni og hafnaði í 5. sæti eins og áður greinir með nýtt Íslandsmet. Helgi hefur því 33 ára gamall lokið sínu fyrsta Ólympíumóti og með aukinni reynslu er óhætt að segja að ekki er lengi að bíða þess að hann fari yfir 50 metrana og skipi sér þannig enn ofar í sveit með bestu kösturum flokksins.

Mynd/JBÓ:
Helgi í spjótkastinu á Ólympíumótsleikvanginum í London.

Til baka