Miðvikudagur 12. september 2012 09:45
Íslenski Ólympíumótshópurinn kom heim mánudaginn 10. september eftir hálfsmánaðar dvöl í London þar sem Ólympíumót fatlaðra fór fram. Með í farteskinu var gullmedalía Jóns Margeirs Sverrissonar og átta Íslandsmet sem hópurinn setti við afar krefjandi aðstæður. Móttökurnar voru allar hinar glæsilegustu sem hófust með Slökkviliði Keflavíkurflugvallar sem myndaði heiðursvatnsboga við flugvél Icelandair þegar hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli.
Í flugstöðinni biðu m.a. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Katrín Jakobsdóttir mennta,- menningar- og íþróttamálaráðherra. Ásamt þeim við mótttökuna var staddur Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ og FIBA Europe. Kristín Rós Hákonardóttir einn fremsti afreksíþróttamaður Íslands úr röðum fatlaðra var einnig mætt í flugstöðina og afhenti hópnum myndarlegan blómvönd við komuna til landsins.
Þegar til Reykjavíkur var komið hélt hópurinn í Laugardal þar sem ættingar, vinir, fulltrúar styrktaraðila ÍF að ógleymdri Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra komu saman í heimkomuhófi.
Við hófið tilkynnti Jóhanna að ríkisstjórn Íslands myndi styrkja Íþróttasamband fatlaðra um fjórar milljónir króna til áframhaldandi eflingar íþrótta fatlaðra í landinu. Íþróttasamband fatlaðra vill fyrir vikið koma á framfæri innilegu þakklæti til handa yfirvöldum fyrir stuðninginn og mótttökurnar.
Fleiri kvöddu sér hljóðs og þar á meðal Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF en hann tjáði hófsgestum að sambandið væri þegar farið að huga að þátttöku sinni á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó 2016 enda væri ekki seinna vænna.
Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til yfirvalda eins og áður hefur komið fram og einnig til styrktar- og samstarfsaðila sambandsins. Fyrir hönd íþróttamanna okkar, þjálfara, aðildarfélaga, sjálfboða liða og annarra segjum við kærar þakkir og við erum afar spennt fyrir því að setja með ykkur ný markmið og stillum nú kompásinn í suðurátt og tökum stefnuna á Ríó 2016.
Hér er svo eitthvað sem enginn á að láta framhjá sér faraMynd/ Heiða: Ólympíumótshópurinn í Laugardal.