Föstudagur 19. október 2012 08:41

Met í uppsiglingu: Söfnun til styrktar fötluðu íþróttafólki

Íþróttasamband fatlaðra og tékkneski hlauparinn René Kujan hafa tekið höndum saman í söfnun til handa fötluðu íþróttafólki. René er tékkneskur blaðamaður sem hleypur löng og krefjandi hlaup þar sem hann safnar í góðgerðar starf. Helmingur ágóðans í söfnun René mun renna til íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi og hinn helmingurinn til íþróttastarfs fatlaðra í Tékklandi.
 
René Kujan er tékkneskur hlaupari sem er svo heppinn að geta hlaupið. Fyrir 5 árum síðan lenti hann í alvarlegu bílslysi þar sem hann var heppinn að sleppa á lífi. Í kjölfarið var talið víst að hann myndi enda í hjólastól og var sagt að hann myndi aldrei geta hlaupið aftur. Með aðstoð góðs fólks og eljusemi þá hefur hann afsannað þetta og nú telur hann það sína köllun að minna fólk á þá sem eru ekki eins heppnir og hann.
 
Enginn hefur áður hlaupið hringinn í kringum Ísland á eigin spýtur og því þegar René kemur í mark 22.-24. október í Reykjavík mun hann hafa sett nýtt og glæsilegt met sem seint verður leikið eftir hér á landi.
 
René er þessa stundina staddur við Brú í Hrútafirði og mun hlaupa að Hvammskirku í Norðurárdal. Hér er svo hægt að fylgjast með gangi hlaupsins. Ef þú/þið viljið leggja honum og fötluðu íslensku íþróttafólki lið þá er hægt að hringja í þrjú mismunandi söfnunarnúmer.
 
Styrktarnúmerin:
 
908 7997 - 1000 kr.
 
908 7998 - 2000 kr.
 
908 7999 - 5000 kr.

Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á bankareikning ÍF  313 – 26-  075744 - kt: 620579-0259

Mynd/ Af Facebooksíðu René

Til baka