Föstudagur 1. febrúar 2013 15:27
Íslenski hópurinn á alþjóðaleikum Specal Olympics í S Kóreu, vakti athygli á opnunarhátíðinni í Pyeongchang 29. janúar þegar þau gengu inn í íslenskum lopapeysum. Lopapeysurnar eru gjöf frá Handprjónasambandinu og voru sérprjónaðar fyrir hópinn.
Fyrstu þrjá dagana bjó hópurinn í Seoul þar sem Ísland tók þátt í vinabæjarprógrammi þar sem markmið er að kynna siði og menningu þeirrar þjóðar sem heldur leikana. Frá Seoul var haldið til Gangneung þar sem hópurinn býr meðan keppni fer fram. Gríðarlegur kuldi er í Gangeung og íslenskar lopapeysur og dúnúlpur hafa komið að góðum notum þar. Keppendur eru vel stemmdir og hafa staðið sig mjög vel í skylduæfingunum sem fram hafa farið síðustu daga. Næstu daga er keppni í frjálsum æfingum og þar ráðast úrslitin. Í gær sýndu Þórdís og Katrín Guðrún skylduæfingar í parakeppni og sigruðu sinn flokk með stæl. Frjálsar æfignar í parakeppni verða 3. febrúar og þær ætla sér stóra hluti þar líka.
Þjálfarar eru að springa úr stolti yfir íslenska hópnum og telja sig vera með langflottasta hópinn á leikunum, að sjálfsögðu efast enginn efast um það hér heima á Fróni.
Keppt er í mismunandi flokkum eftir getustigi hvers og eins og allir eiga því tækifæri á að vinna til verðlauna. Þetta keppnisform er því í mótsögn við hið hefðbundna pýramídakerfi íþróttanna, margir upplifa tilfinningu sigurvegara í fyrsta skipti á leikum Special Olympics.
Skylduæfingum er lokið en í dag föstudag 1. febrúar keppa þau öll í einstaklingskeppni, frjálsum æfingum. Þann 3. febrúar lýkur keppni Íslendinga með keppni í parakeppni, frjálsum æfingum. Hópurinn kemur til landsins 5. febrúar.
Þeir sem vilja fylgjast með ættu að kíkja á
facebook þar sem daglega birtast frettir og myndir af íslenska hópnum.
Mynd/ Íslenski hópurinn við innmarseringuna.