Mánudagur 4. febrúar 2013 10:42

Íslenski hópurinn kemur heim á fimmtudag

Íslendingarnir sem tóku þátt í alþjóðaleikum Special Olympics í Suðu Kóreu koma heim á fimmtudag.     

Árangur þeirra var sérlega glæsilegur, Katrín Guðrún Tryggvadóttir  og Þórdís Erlingsdóttir sigruðu í parakeppni og Þórdís var í fyrsta sæti og Katrín Guðrún í öðru sæti í einstaklingskeppni.  Júlíus Pálsson varð í fjórða sæti í einstaklingskeppni.  

Keppni fer þannig fram að keppt er í skylduæfingum og frjálsum æfingum og sameiginlegur árangur í báðum greinum gildir.  Keppt er í mismunandi flokkum eftir aldursflokkum og getustigi hvers og eins og allir eiga því tækifæri á að vinna til verðlauna.   Þetta keppnisform er því í mótsögn við hið  hefðbundna pýramídakerfi íþróttanna, margir upplifa tilfinningu sigurvegara í fyrsta skipti á leikum Special Olympics.

Fyrir leikana bjó hópurinn í  Seoul þar sem Ísland tók þátt í vinabæjarprógrammi þar sem markmið er að kynna siði og menningu þeirrar þjóðar sem heldur leikana.  Meðan keppni stóð yfir bjó hópurinn í Gangneung en keppni fór fram þar og í  Pyeongchang.Opnunarhátíð leikanna fór fram í Pyeongchang og var sérlega glæsileg. Íslenski hópurinn vakti athygli á opnunarhátíðinni  þegar þau gengu inn í  íslenskum  lopapeysum sem eru gjöf frá  Handprjónasambandinu. 

Á opnunarhátíðinni voru m.a. forsetahjón S-Kóreu ásamt mörgum góðum gestum þar á meðal Yu Na Kim (Heims- og Olympíumeistari á skautum) og Aung San Suu Kyi Nobelsverðlaunahafi.  
Þjálfarar hópsins eru Helga Olsen og Guðbjört Erlendsdóttir en mikill metnaður hefur verið lagður í uppbyggingu greinarinnar sem er ný á Íslandi.

Í tengslum við leikana var sett á fót skólaverkefni þátttökulanda.  Hólabrekkuskóli  hefur tekið þátt í verkefninu í haust, aðstoðað  íslensku keppendurna við fjáröflun og fylgst með undirbúningi.  Einnig var sett á fót samstarf við þátttakendur frá Jamaica þar sem nemendur Hólabrekkuskóla gátu stutt við bakið á þeim og fylgst með gangi mála á leikunum.  Lið Jamaica var alsælt með íslenska stuðningsliðið og skólaverkefnið hefur náð því markmiði sem stefnt var að, að efla samskipti fatlaðra og ófatlaðra nemenda innanlands og á milli landa.

Íslenski hópurinn eignaðiðst marga  góða vini úr röðum íþróttamanna og þjálfara á leikunum. Leikar sem þessir er einstakur vettvangur fyrir fólk með þroskahömlun til þess að kynnast öðrum einstaklingum með ólíkann bakgrunn og úr ólíkri menningu.  Á þessum leikum réði gleðin ríkjum og náungakærleikur er allsráðandi.

Skilaboð íslensku þjálfarana í lok leikanna voru þessi;  
Það var yndislegt að fá að upplifa þvílíka vinsemd sem keppendur og þjálfarar sýndur hver öðrum þar sem hvatningarhróp og köll heyrðust úr hverju horni. Mikið væri heimurinn góður ef allir kæmu fram hver við annan eins og tíðkast á Special Olympics.

Nánari upplýsingar og myndir eru á ;    http://www.facebook.com/soiceland.figureskating?fref=ts  þar sem daglega birturst frettir og  myndir af íslenska hópnum. 
 
Úrslit – Einstaklingskeppni   
 

Level 1
Júlíus Pálsson - 4.sæti

Level 2
Þórdís Erlingsdóttir - 1.sæti
Katrín Guðrún Tryggvadóttir - 2.sæti

Úrslit Parakeppni
Katrín Guðrún Tryggvadóttir og Þórdís Erlingsdóttir 1. sæti

( Öll keppni er þannig að keppt í skylduæfingum og frjálsum æfingum, samanlagður árangur gildi)


Til baka