Mánudagur 11. mars 2013 15:26

LS Retail og ÍF taka höndum saman

Íþróttasamband fatlaðra og LS Retail hafa gert með sér nýjan samstarfs-og styrktarsamning. LS Retail bætist þar með í öflugan hóp bakhjarla sambandsins, en þetta er fyrsti samningur milli þessara aðila sem hafa um árabil báðir látið vel til sín taka, einkum á erlendum vettvangi.
 
Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra og Magnús Norðdahl forstjóri LS Retail undirrituðu nýja samninginn í síðastliðinni viku. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem LS Retail styður við bakið á íþróttahreyfingunni í landinu því áður hafa m.a. badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir, skíðakonan María Guðmundsdóttir og íslenska kvennalandsliðið í handknattleik notið góðs af öflugri starfsemi fyrirtækisins.
 
LS Retail er leiðandi fyrirtæki sem býður upp á heildarlausnir fyrir verslanir og hefur viðskiptavini í um 160 löndum í gegnum öflugt net söluaðila.
 
Mörg stórfyrirtæki, s.s. adidas, IKEA og PizzaHut, eru meðal þekktra notenda LS Retail.

Til baka