Þriðjudagur 2. apríl 2013 10:02

Samherji styður myndarlega við bakið á Special Olympics

Samherji hf. boðaði til mótttöku í KA-heimilinu í vikunni fyrir páska og afhenti fyrirtækið við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna upp á samtals 90 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu en einnig hlutu Öldrunarheimilin á Akureyri og Íþróttasamband fatlaðra/Special Olympics veglega styrki. Þetta er í fimmta sinn frá árinu 2008 sem Samherji afhendir slíka styrki.

Með samningnum sem gerður er við Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) að upphæð alls 15 milljóna króna verður Samherji einn af aðalstyrktaraðilum Special Olympics á Íslandi fram yfir alþjóðaleika samtakanna í Los Angeles árið 2015. Styrkupphæðin nemur fimm milljónum króna á ári eða samtals fimmtán milljónum króna.

Styrknum verður varið til uppbyggingar á starfsemi Special Olympics hér á landi og þátttöku í verkefnum erlendis. „Samningurinn er mjög þýðingarmikill fyrir uppbyggingu og þróun á starfi samtakanna hér á landi en án utanaðkomandi stuðnings væri ekki mögulegt að taka þátt í svo kostnaðarsömum verkefnum.

Special Olympics samtökin hafi skapað ný tækifæri fyrir íþróttafólk með þroskahömlun en markmið okkar er að allir hafi sömu möguleika til þátttöku á leikum samtakanna. Þannig hafa Íslendingar öðlast tækifæri til að taka þátt í keppni á Alþjóðaleikum Special Olympics í greinum sem áður hafa ekki verið í boði fyrir þroskahamlaða, til að mynda í fimleikum, handbolta, golfi og nú í listhlaupi á skautum.


Stjórn Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi fagna þessum samstarfssamningi og munu áfram leggja metnað í að byggja upp gott og árangursríkt samstarf við fyrirtæki sem styrkja íþróttastarf fatlaðra á Íslandi.

Nánar á heimasíðu Samherja
Nánar á mbl.is

Mynd/ mbl.is-Skapti

Til baka