Fimmtudagur 2. maí 2013 11:55

Léku með rauðar reimar í úrslitaleikjum Lengjubikarsins

            
Reimum okkar besta!                     

Special Olympics á Íslandi og Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri þakklæti til KSÍ og til karla- og kvennaliða í úrslitum Lengjubikarsins sem reimuðu skóna sína með rauðum reimum Special Olympics.
 
Special Olympics á Íslandi er nú þátttakandi í alþjóðaverkefni þar sem rauðar reimar með lógói Special Olympics eru nýttar til kynningar og fjáröflunar á starfinu í hverju landi.

KSÍ er fyrsti samstarfsaðili Special Olympics á Íslandi vegna þessa verkefnis.   Rauðar reimar eru nú á skóm nokkurra liða sem taka þátt í öldungamótinu í blaki í Kórnum í Kópavogi og einnig eru rauðar reimar á skóm þátttökuliðs á Íslandsmótinu í keilu. 
 
Auk fjáröflunar er markmiðið að vekja athygli á starfi Special Olympics á Islandi og á alþjóðavettvangi en þar er hinn almenni iðkandi í lykilhlutverki og fær notið sinna verðleika í  keppni við jafningja.

Special Olympics samtökin standa að íþróttatilboðum fyrir fólk með þroskahömlun og fjölmargir Íslendingar hafa fengið tækifæri til þátttöku á  glæsilegum leikum erlendis.  Árið 2014 verða  Evrópuleikar Special Olympics í Antwerpen og árið 2015 verða alþjóðaleikar Special Olympics í  LA. Aðildarfélög ÍF tilnefna þátttakendur og þar er frammistaða og mæting jafn mikilvæg og góður árangur.  Það  er því hinn almenni iðkandi innan Íþróttasambands fatlaðra sem nýtur góðs af aðild Íslands að Special Olympics International samtökunum þar sem allir geta verið með, jafnt byrjendur sem lengra komnir og þar eru allir sigurvegarar.
 
Stefnt er a ð því að tengja sölu reimanna ákveðnum viðburðum, íþróttamótum og einstaka verkefnum.

Einnig er verið að ræða við ákveðna aðila vegna lausasölu en fyrst um sinn verður hægt að nálgast reimar á skrifstofu ÍF í Laugardal.

Mynd/ Eva Björk: Björgólfur Takefusa styður Special Olympics á Íslandi og leikur með rauðar reimar.

Til baka