Þriðjudagur 14. maí 2013 14:20
Miðvikudaginn 8. Maí 2013 boðaði minningarsjóður Harðar Barðdal til blaðamannafundar í Hraunkoti, æfingaaðstöðu Keilis í Hafnarfirði en þar hafa Golfsamtök fatlaðra á Íslandi(GSFÍ) haft aðstöðu undanfarin ár. Tilefnið var að afhenda GSFÍ veglega gjöf en um er að ræða svokallaðan SNAG golfbúnað sem er ætlaður er til kennslu og æfinga í golfi.
Er þetta í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum en Hörður var mikill frumkvöðull og áhugamaður um golf fatlaðra. SNAG búnaðurinn er sérhannaður að þörfum byrjenda og á vafalítið eftir að gagnast fötluðum við að tileinka sér golftæknina á sem auðveldastan hátt. SNAG gofbúnaðinn má setja upp hvort heldur er úti eða inni. Kennslan er því ekki bundin golfvelli eða æfingasvæði því nota má SNAG þar sem aðstæður leyfa hverju sinni.
GSFÍ þakka innilega fyrir veittan stuðning og vilja koma á framfæri þökkum fyrir veglega gjöf. Við viljum jafnframt minna á að æfingar eru hjá GSFÍ alla mánudaga klukkan 19:00 í Hraunkoti, Hafnarfirði og eru allir velkomnir að koma í heimsókn, stunda æfingar og fá fræðslu um golfíþróttina.
Stjórn Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi