Bikarkeppni Íþróttasambands fatlaðra í sundi er lokið þetta árið þar sem Íþróttafélagið Fjörður úr Hafnarfirði hafði sigur á mótinu sjötta árið í röð! Á mótinu var kynntur nýr og glæsilegur bikar til sögunnar sem Bláa Lónið gaf ÍF til keppninnar.
Það var Guðlaugur Ágústsson stjórnarmaður ÍF sem afhenti Fjarðarsundmönnum Blue Lagoon bikarinn. Fjörður var fyrst félaga til þess að vinna Blue Lagoon bikarinn en Bláa Lónið er einn af aðal styrktar- og samstarfsaðilum Íþróttasambands fatlaðra.
Bikarkeppnin í ár fór fram í sundlaug Akureyrar í blíðskaparviðri og vill ÍF koma á framfæri innilegu þakklæti til heimamanna sem stóðu að mótinu ásamt sjálfboðaliðum þeirra.