Ég vil byrja á að óska öllum gleðilegs árs og friðar og þakka fyrir árið 2008 sem nú er ný liðið.
Mikilvægi íþrótta þarf ekki að útskýra fyrir neinum en þó má með sanni segja að í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu séu íþróttir mikilvægari en nokkurn tíma fyrr. Á það ekki síst við um fatlaða einstaklinga sem oft eiga ekki jafna möguleika á að stunda önnur áhugaefni. Æfingarnar eru mikilvægur þáttur í lífi margra fatlaðra einstaklinga, einstaklinga sem margir hverjir eiga erfitt með að breyta út af vananum. Því er það einkar mikilvægt að hægt sé að halda starfseminni óbreyttri.
Því er áríðandi að þau íþróttafélög sem hafa æfingar fyrir fatlaða iðkendur geti haldið áfram hefðbundnu starfi og haldið áfram því mikilvæga starfi sem þau vinna á þessum vettvangi.
Í ár fagnar Íþróttasamband fatlaðra 30 ára afmæli sínu og verður starfinu af
því tilefni meira beint að innanlandsverkefnum. Íslandsmót í hinum ýmsu greinum
verða haldin eins og venjulega og margt annað verður á döfinni. Útgáfa ýmissa
bæklinga og upplýsingarita er mikilvæg í útbreiðslustarfi sambandsins. Eins hafa
sumarbúðir á Laugarvatni sem hafa undanfarin ár fengið veglegan styrk úr
Pokasjóði verið mikilvægar fjölfötluðum einstaklingum sem margir hverjir hafa
þetta eina tækifæri til að stunda íþróttir og útiveru. Annað atriði er að gefa
mismunandi fötluðum börnum og unglingum tækifæri á vettvangi Norðurlandanna en
þátttaka í norrænum
barna- og unglingamótum hefur oft verið hvati fyrir börn
víðs vegar að af landinu og mörg þeirra hafa síðar meir orðið okkar mesta
afreksfólk.
Eins má nefna að til stendur að Ísland verði mótshaldari fyrir Evrópumeistaramót í sundi á haustmánuðum þessa árs og ef svo verður mun þetta verða stærsti íþróttaviðburður sem Íþróttasamband fatlaðra hefur staðið fyrir.
Það má því með sanni segja að starfið sé fjölbreytt og skemmtilegt. Því er vonandi spennandi ár fram undan hjá fötluðu íþróttafólki og vonandi að allt gangi upp varðandi starfið á árinu og að afmælisársið verði árangursríkt og ánægjulegt þrátt fyrir að útlitið í þjóðfélaginu sé ekki eins bjart eins og venjulega.
Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands
fatlaðra.