LÖG ÍÞRÓTTASAMBANDS FATLAÐRA

Gildir frá 9. mars 2013

1. GREIN

Íþróttasamband Fatlaðra ( skammstafað ÍF ) er æðsti aðili um íþróttir fatlaðra innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands ( Í.S.Í. ).

2. GREIN

Sambandsaðilar ÍF eru héraðssambönd og íþróttabandalög með félög innan sinna vébanda er iðka íþróttir fatlaðra.
Aðildarfélög ÍF eru öll félög innan Í.S.Í. er iðka íþróttir fatlaðra.

3. GREIN

Starf ÍF er í meginatriðum:

1) Að hafa yfirumsjón með allri íþróttastarfsemi fatlaðra.
2) Að vinna að eflingu íþróttastarfsemi fatlaðra og koma fram erlendis í því sambandi. Með hæfilegum fyrirvara skal ÍF tilkynna framkvæmdastjórn Í.S.Í. áætlanir sínar og ákvarðanir um samskipti við útlönd.

4. GREIN

Málefnum ÍF stjórna:

1) Sambandsþing.
2) Formannafundir
3) Stjórn ÍF
4) Nefndir og ráð sem stjórnin skipar.
5. GREIN

Sambandsþing fer með æðsta vald í málefnum ÍF. Þingið sitja fulltrúar kjörnir af þeim sambandsaðilum sem starfa innan vébanda ÍF. Fullrúafjöldi hvers sambandsaðila fer eftir tölu virkra íþróttaiðkenda, þannig að fyrir allt að 20 virka íþróttaiðkendur, samkvæmt starfsskýrslu Í.S.Í. koma 3 fulltrúar og síðan 1 fyrir hverja hafna 20 upp í allt að 100 iðkendur og þá 1 fulltrúi fyrir hverja hafna 50 iðkendur þar fram yfir. Til nánari útskýringar á þessu; Fyrir 1 til 20 virka íþróttaiðkendur, eru 3 fulltrúar, 21 til 40, er 1fulltrúi og þannig áfram upp í 100, og síðan 101 til 150 er 1 fulltrúi, 151 til 200 er 1 fulltrúi og svo framvegis. (1-20= 3, 21-40= 4, 41-60= 5, 61-80= 6, 81-100= 7, 101-150= 8, 151-200= 9, 201-250= 10, 251-300= 11, 301-350= 12, 351-400= 13, 401-450= 14, o.s.fr..) Þingið skal haldið fyrir apríllok annað hvert ár. Skal þingið boðað bréflega með minnst tveggja mánaða fyrirvara. Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn ÍF bréflega minnst fjórum vikum fyrir þingið. Stjórn ÍF skal tilkynna sambandsaðilum sínum dagskrá þingsins ásamt tillögum og lagabreytingum sem borist hafa í síðasta lagi 14 dögum fyrir þing. Sambandsþingið er löglegt hafi löglega verið til þess boðað. Stjórn ÍF skipar kjörnefnd eigi síðar en mánuði fyrir sambandsþing ÍF og skal nefndin hefja störf þá þegar. Kjörnefnd starfar samkvæmt reglugerð sem stjórn ÍF setur.

6. GREIN

Á sambandsþinginu hafa kjörnir fulltrúar einir atkvæðisrétt í samræmi við kjörbréf.
Auk þeirra eiga rétt til þingsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt:

1. Stjórn ÍF, varastjórn og endurskoðendur.

2. Framkvæmdastjórn Í.S.Í.

3. Fastráðnir starfsmenn ÍF og Í.S.Í.

4. Formenn nefnda ÍF (eða varamaður formanns)

Auk þess getur ÍF boðið þeim aðilum þingsetu sem hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er í félagi þar sem iðkaðar eru íþróttir fyrir fatlaða, er kjörgengur fulltrúi þess á sambandsþingið. Hver fulltrúi fer með 1 atkvæði.

Jöfnunargjald skal greiða fyrir alla réttkjörna fulltrúa, sem mæta til þings.

7. GREIN

Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Alla boðunar- og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða hefur flutt burt úr héraðinu.
Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn nema til bráðabirgða, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum.
Að öðru leyti gilda um aukaþingið sömu reglur og um reglulegt sambandsþing.
Það ár sem sambandsþing er ekki haldið skal halda formannafund með formönnum aðildarfélaga ÍF. Um þennan fund gilda sömu reglur og ef um aukaþing væri að ræða, þó má ekki kjósa stjórn eða varastjórn á formannafundum.

8. GREIN

Störf sambandsþings eru.:

1) Þingsetning.

2) Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.

3) Kosning þingforseta og þingritara.

4) Kosnar fastar nefndir:

a) Fjárhagsnefnd.

b) Laganefnd.

c) Allsherjarnefnd.

Nefndir þessar eru skipaðar þremur mönnum hver.

5) Fráfarandi stjórn leggur fram skýrslu sína.

6) Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar.

7) Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næstu tvö ár.

8) Lagðar fram laga- og reglugerðarbreytingar sem fram hafa komið.

9) Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnarinnar.

10) Önnur mál.

11) Þinghlé.

12) Nefndarálit, tillögur og atkvæðagreiðsla um þær.

13) Kosning stjórnar, varastjórnar, endurskoðenda og fulltrúa á íþróttaþing Í.S.Í.

14) Þingfundagerðir lesnar og staðfestar.

15) Þingslit.

Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema þegar um lagabreytingar er að ræða. Þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Þingið getur með 2/3 hluta greiddra atkvæða leyft að taka fyrir mál sem komið hafa fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum. ( samkv. 5. grein ).

Skýrslu stjórnar ÍF, sem fráfarandi stjórn ÍF skal leggja fjölfaldaða fyrir þingið, svo og þinggerð, skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum ásamt aðildarfélögum ÍF innan tveggja mánaða frá þingslitum.

9. GREIN

Stjórn ÍF skipa 5 menn: Formaður,varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi.
Fyrst skal kjósa formann, þá varaformann, síðan 3 meðstjórnendur sem skipta með sér verkum. Kjósa skal bundinni leynilegri kosningu, ef fleiri eru í kjöri en kjósa skal. Varaformaður skal sinna störfum formanns í fjarveru hans. Kjósa skal einnig þrjá menn í varastjórn og taka þeir sæti í stjórn ef aðalmaður forfallast eða hverfur úr stjórn. Koma þeir inn í sömu röð og þeir voru kosnir. Í stjórn ÍF eru ekki hlutgengir formenn aðildarfélaganna. Stjórninni er heimilt að ráða til sín launað starfsfólk.
Aðsetur stjórnarinnar og varnarþing er í Reykjavík.
Reikningsár ÍF er almanaksárið.


10. GREIN

Starfssvið stjórnar ÍF er:
1) Að framkvæma ályktanir sambandsþings og formannafunda.

2) Að vinna að eflingu íþrótta fyrir fatlaða.

3) Að semja leikreglur í samræmi við alþjóðareglur viðkomandi íþróttagreinar, eftir því sem við á.

4) Að semja reglugerðir fyrir íþróttir fatlaðra.

5) Að senda framkvæmdastjórn Í.S.Í. lögboðnar skýrslur og tilkynningar.

6) Að líta eftir því að lög og reglur ÍF séu haldin.

7) Að setja nauðsynleg bráðabirgðaákvæði.

8) Að raða niður og ákveða stað og tíma fyrir landsmót. Skal það að jafnaði gert fyrir hvert keppnistímabil íþróttagreinar og kynnt stjórnum aðildarfélaganna og framkvæmdastjórn Í.S.Í.

9) Að löggilda dómara í íþróttum fatlaðra þar sem það á við og halda utan um metaskrá og staðfesta met.

10) Að úthluta þeim styrkjum til íþróttastarfsemi fatlaðra sem ÍF fær til umráða.

11) Að koma fram erlendis vegna íþróttastarfsemi fatlaðra.
11. GREIN

Formaður ÍF boðar stjórnarfundi og stýrir þeim.

12. GREIN

Sambandsaðilar eru tengiliðir milli félaganna og stjórnar ÍF. Þeir skulu senda stjórninni allar skýrslur um mót sem haldin eru innan umdæmisins. Þessar skýrslur skulu sendar innan mánaðar eftir að mótinu lýkur. Ársskýrslur sínar um störf aðildarfélaga og tölu virkra íþróttaiðkenda og keppenda í umdæminu skulu sendar sambandsaðilum svo sem ákvæði ÍSÍ um starfsskýrslur tilgreina. Afrit skal sent til ÍF.
Á starfsskýrslunum byggist fulltrúaréttur og fulltrúafjöldi sambandsaðila á sambandsþinginu, sbr. 5. og 6. grein laga ÍF.

13. GREIN

Stjórn ÍF hefur frjálsan aðgang að öllum mótum og sýningum innan vébanda ÍF. Einnig á hún rétt á að sitja aðalfundi sérráða, dómarafélaga og héraðssambanda sem eru aðilar að sambandinu.
14. GREIN

Heiðursfélaga Íþróttasambands Fatlaðra má stjórn ÍF kjósa ef hún er einhuga um það.

15. GREIN

Tillögur um að leggja ÍF niður má aðeins taka fyrir á lögmætu sambandsþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulega þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun að leggja ÍF niður. Skal þá afhenda Í.S.Í. eignir ÍF til varðveislu.