REGLUGERÐ UM HEIÐURSMERKI ÍF

Gildir frá 16.5.2009

1. gr.


Íþróttasamband Fatlaðra skal, ef tilefni er til, veita viðurkenningar, einstaklingum og eða öðrum sem stjórn sambandsins ákveður, samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar.


2. gr.


Heiðursviðurkenningar Íþróttasambands Fatlaðra eru eftirfarandi:

1. Forsetastjarna ÍF
2. Æðsta heiðursmerki ÍF
3. Gullmerki ÍF
4. Afreksskjöldur ÍF
5. Silfurmerki ÍF
6. Eirmerki ÍF
7. Heiðursskjöl ÍF


3. gr.


Forsetastjarna ÍF er veitt Forseta Íslands eftir forsetakjör við fyrsta hentugleika í samráði við hann.


4. gr.


Æðsta heiðursmerki ÍF, er gullmerki á krossi, borið í borða í íslensku fánalitunum. Skal veita íslenskum ríkisborgara, sem unnið hefur langvarandi og góð störf í þágu ÍF, íþróttahreyfingarinnar í heild, einstakra íþróttahéraða, íþróttagreina eða með öðrum hætti, sem stjórn sambandsins ákveður, en störf viðkomandi verða að hafa haft afgerandi áhrif á framgang íþrótta fatlaðra.


5. gr.


Gullmerki sambandsins, er úr gulli og veitist íslenskum ríkisborgara fyrir góð störf í þágu íþróttamála fatlaðra í heild, einstakra íþróttagreina eða félaga. Einnig má veita erlendum ríkisborgurum gullmerki ÍF.


6. gr.


Afreksskjöldur ÍF er silfurmerki á silfurskildi, borið í borða með íslensku fánalitunum. Skal aðeins veita þeim, sem vinna frábær íþróttaafrek og hljóta verðlaun á alþjóðlegum stórmótum.


7. gr.


Silfurmerki ÍF skal veita þeim einstaklingum, sem inna af höndum skipulags- stjórnunar eða þjónustustörf í þágu íþrótta fatlaðra, og íþróttamönnum fyrir góða og árangursríka iðkun og hafa verið öðrum til fyrirmyndar.


8. gr.


Bronsmerki ÍF er veitt þeim, sem koma fram á stórmótum innanlands og erlendis og þeim sem sinna félagsmálum innan íþróttahreyfingar fatlaðra.


9. gr.


Stjórn ÍF ákveður á stjórnarfundi og án mótatkvæða, hverja skuli sæma heiðursmerki hverju sinni, og um veitingu "Æðsta heiðursmerkis".


10. gr.


Formaður ÍF skal að jafnaði afhenda heiðursmerki þessi en í fjarveru hans varaformaður eða framkvæmdastjóri.


11. gr.


Færa skal inn í sérstaka bók, allar heiðursviðurkenningar ÍF skv. 1.-5. gr.




VIÐAUKI; Stjórn og skrifstofa ÍF munu sjá um ákvörðun um veitingu "Plettmerkja" ÍF (Barmmerki ÍF) og "Oddfána ÍF" (Borðfána ÍF) í hverju tilviki fyrir sig.

Heiðursmerkjanefnd ÍF mun leggja fram tillögur um handhafa "Heiðursskjala ÍF" til stjórnar ÍF sem tekur endanlega ákvörðun. Skrifstofa mun hér eftir sem áður sjá um veitingu viðurkenningaskjala- og eða þakklætisbréfa vegna ýmissa verkefna.