REGLUGERÐ FYRIR NEFNDIR OG RÁÐ ÍF

Gildir frá 5.1.2016

1.0. Á vegum Íþróttasambands Fatlaðra(ÍF) skulu starfa eftirtaldar nefndir.:
Læknaráð, útbreiðslunefnd, fræðslunefnd, aganefnd, og íþróttanefndir einstakra íþróttagreina sem stundaðar eru innan ÍF og skipi formenn þeirra íþróttaráð, ásamt fulltrúum ÍF.

2.0. Hlutverk starfandi nefnda skal vera.:

2.1.

Læknaráð verður

FAGRÁÐ
Fagráð Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) er hópur sérfræðinga sem tryggja á þverfaglega aðstoð fyrir skilgreindan hóp afreksíþróttafólks. Hópinn skipar það fagfólk sem sambandið mælir með þegar afreksfólk ÍF þarf á sérfræðingum að halda svo sem á sviði læknisfræði, næringarfræði, sálfræði, íþróttameiðsla og þjálfunar.
Markmiðið með fagráði er að veita skilgreindum hópi afreksíþróttafólks sambandsins nauðsynlega sérfræðiþjónustu til að stuðla að því að heilbrigði þess verði í forgangi.  Jafnframt að íþróttafólkinu sé sköpuð sem best aðstaða til þess að ná árangri í íþróttagrein sinni með ráðgjöf varðandi þjálfun og íþróttaiðkun.
Sem hluti af fagráði ÍF starfar Læknanefnd en nefndin fjallar um niðurröðun í flokka eftir fötlun samkvæmt alþjóðlegum staðli. Nefndin heldur skýrslur um þá einstaklinga sem flokkaðir hafa verið. Nefndin heldur spjaldskrá á skrifstofu ÍF þar sem upplýsingar um fötlun íþróttamanna, sem flokkaðir hafa verið, eru að finna en þetta skal gert í samráði við starfsmenn ÍF. Nefndin sér um útgáfu keppniskorta. Nefndin heldur kynningarfundi um flokkanir og breytingar á flokkunum sem kunna verða og skulu slíkir fundir vera auglýstir. Þeir sem sitja í Læknanefnd eiga kost á að sækja ráðstefnur um læknisfræðileg málefni og flokkunarmál, sem haldnar eru á vegum IPC, sækja þarf um slíkt til stjórnar ÍF og Ólympíuráðs. Skilyrt er að skýrslu sé skilað til stjórnar ÍF um efni ráðstefnunnar. Nefndin fjallar um heilsufarslega þýðingu íþrótta fyrir fatlaða og vinnur að kynningu hennar. Ef fulltrúi úr Læknanefnd er með í keppnisferð á vegum ÍF á hann að aðstoða keppendur, þjálfara og fararstjóra eftir þörfum.


2.2. ÚTBREIÐSLUNEFND
Nefndin starfar með framkvæmdastjóra íþrótta- og útbreiðslusviðs að útbreiðslu og kynningu á íþróttum fyrir fatlaða og aðstoðar við fræðslustarf og námskeiðshald.

Nefndin skiptist í 2 sérráð;
FAGRÁÐ; Skipað fagfólki. Ráðgefandi nefnd. Tengiliðir við faghópa.
KYNNINGARRÁÐ; Skipað fötluðu íþróttafólki. Aðstoð við útbreiðslustarf ÍF.

2.3. FRÆÐSLUNEFND
Nefndin annast fræðslustarfsemi fyrir leiðbeinendur m.a. með námskeiðshaldi og útgáfu á fræðsluefni. Nefndin starfar í samvinnu við framkvæmdastjóra íþrótta- og útbreiðslusviðs ÍF.

2.4. ÍÞRÓTTANEFNDIR EINSTAKRA ÍÞRÓTTAGREINA
Starfssvið nefndanna er að sjá um framkvæmd íþróttamóta í einstöku íþróttagreinum s.s. Íslandsmót, Íslandsleika SO eða önnur þau mót sem stjórn ÍF felur þeim. Nefndirnar semja leikreglur íþróttagreinarinnar sem staðfestast af stjórn ÍF, samkvæmt lögum ÍF. Nefndirnar hafa umsjón með útgáfu á leikreglum í viðkomandi íþróttagrein. Bannað er að breyta leikreglum á miðju keppnistímabili. Íþróttafélög og sambandsaðilar sem vilja leggja fram breytingatillögu við leikreglur, skulu senda þær stjórn ÍF, sem sendir þær áfram til íþróttanefndar. Íþróttanefndir skulu hafa alþjóðareglur hverrar íþróttagreinar fyrir fatlaða til viðmiðunar við útgáfu leikreglna, þar sem þess er kostur, svo og leikreglur sérsambanda ÍSÍ í þeim íþróttagreinum sem við á. Einnig fjalla þær um brot og ágreining á leikreglum. Nefndirnar sjá um að halda dómaranámskeið í þeim greinum þar sem þess gerist þörf og sjá um að á mótum séu hæfir dómarar. Nefndirnar gera tillögur um þátttöku í alþjóðlegum mótum annarra en IPC móta og Special Olympics leika. Nefndirnar gera tillögur um keppendur á öll alþjóðleg mót önnur en Barna- og unglingamót Nord-HIF og Special Olympics leika en þær tillögur koma frá aðildarfélögum ÍF. Nefndirnar hafa tillögurétt um val á landsliðsþjálfurum í samráði við Ólympíuráð og stjórn ÍF. Við val á fararstjórum á mót erlendis hafa nefndirnar tillögurétt. Leitað verði til læknaráðs ÍF eftir faglegum umsögnum þegar óskað er eftir sértækri aðstoð við einstakling sem valinn hefur verið til keppni á mót erlendis. Sértæk aðstoð getur m.a. falið í sér þá heimild að kanna hjá Læknaráði ÍF hvort þörf sé að foreldri fylgi barni sínu í verkefni á vegum ÍF. Endanlegt val þátttakenda, þjálfara og fararstjóra á mót erlendis er verkefni stjórnar ÍF.

2.5. ÍÞRÓTTARÁÐ
Íþróttaráð er skipað formönnum allra íþróttanefnda og er formaður þess og tveir til viðbótar skipaðir af stjórn ÍF. Starfssvið ráðsins er að gera tillögur um hvar og hvenær íþróttamót fara fram. Einnig á ráðið að sinna þeim málefnum sem tengjast sameiginlega íþróttanefndunum, s.s. sameiginleg tillögugerð um þátttöku og val á keppendum á mótum, keppnisgjöld, endurskoðun á reglugerð fyrir Íslandsmót og er umsagnaraðili um sameiginleg mál fyrir stjórn ÍF.

2.6. Nefndin starfar eftir sömu reglum og aganefnd ÍSÍ.

3.0. Hver nefnd skal skipuð minnst þremur mönnum og skipar stjórn ÍF formenn nefndanna. Stjórn ÍF á að hafa skipað formenn nefndanna eigi síðar en á öðrum fundi nýkjörinnar stjórnar eftir sambandsþing ÍF.

4.0 Starfsmenn ÍF/ og eða formenn nefndanna skulu boða til funda.

5.0 Hver nefnd haldi gjörðarbók og gefi skriflega skýrslu til stjórnar fari stjórnin fram á það. Nefndir skulu skila skýrslu um störf sín á sambandsþingi ÍF.

6.0 Stjórn ÍF hefur heimild til að gera einstakar íþróttanefndir fjárhagslega sjálfstæðar með því að úthluta þeim föstum fjárhæðum á ársgrundvelli til að sjá um þá starfsemi sem viðkomandi íþróttanefnd hefur umsjón með.

7.0 Skammtíma nefndir(Ad hoc). Stjórn ÍF hefur heimild til að setja á nýjar nefndir til tímabundinna starfa um afmörkuð vel skilgreind verkefni. Nefndirnar skili skriflegri skýrslu þegar þær ljúka störfum til stjórnar ÍF.

7.1 Reglugerð um Kjörnefnd

Stjórn ÍF skipar þriggja manna kjörnefnd í samræmi við lög ÍF. Stjórn (formaður) ÍF kallar nefndina saman í tíma fyrir boðað þing ÍF í samræmi við ákvæði laga sambandsins. Á fyrsta fundi skiptir nefndin með sér verkum.
Hlutverk nefndarinnar er að leggja fram tillögur um frambjóðendur til allra starfa á vegum ÍF sem kosið er til á þingi. Tryggja skal framboð til formanns og til annarra trúnaðarstarfa sem þing kýs til. Áður en nefndin leggur fram tillögur um frambjóðendur sem hún hefur leitað til, skal liggja fyrir samþykki viðkomandi einstaklinga. Ef aðili dregur framboð sitt til baka, eða forfallast ber kjörnefnd að tryggja að nýtt framboð berist sé ekki nægilegur fjöldi frambjóðenda eftir
Kjörnefnd skal boðuð til þings og hafa nefndarmenn málfrelsi og tillögurétt þó þeir séu ekki kjörnir fulltrúar. Kjörnefnd skilar lista með nöfnum frambjóðenda í kjöri eigi síðar en viku fyrir þing til stjórnar ÍF. Nánari kynning frambjóðenda skal skilgreind í starfsreglum kjörnefndar.
Allur kostnaður vegna kjörnefndar greiðist af ÍF.
Kjörnefnd starfar eftir sérstökum reglum sem stjórn ÍF setur.
Starfsreglur kjörnefndar.
  1. Skipan og hlutverk skal vera í samræmi við ákvæði laga ÍF
  2. Nefndin skal kjósa sér formann og ritara 
  3. Nefndin skal kynna sér hlutverk stjórnar ÍF og kynna það frambjóðendum 
  4. Nefndin skal kanna hug sitjandi stjórnarmanna til áframhaldandi setu áður en leitað er til annarra 
  5. Nefndin auglýsir eftir frambjóðendum meðal aðildarfélaga ÍF 
  6. Nefndin skal tryggja framboð í öll embætti 
  7. Nefndin skal skila niðurstöðu sinni viku fyrir þing ÍF til stjórnar ÍF. Jafnframt skal nefndin kynna niðurstöðu sína formönnum aðildarfélaga ÍF sem og fulltrúum sambandsaðila ÍSÍ sem eiga fulltrúa á þingi ÍF 
  8. Nefndin skal setja fram tillögu sína um kjör formanns, varaformanns, meðstjórnenda og varastjórn Nefndin skal jafnframt kynna önnur framboð sem borist hafa í embætti og kjósa þarf um 
  9. Nefndarformaður kynnir niðurstöðu nefndarinnar á þingi ÍF og stýrir kosningu í samstarfi við þingforseta 
  10. Nefndin skal hlutast til um að kynna frambjóðendur fyrir þingfulltrúum á þingi ÍF