Reglugerð afreksmannasjóðs ÍF

Á Sambandsþingi ÍF 2005 var samþykkt að stjórn ÍF væri heimilt að ganga til viðræðna við ÍSÍ um styrki til handa fötluðu íþróttafólki úr afreksmannasjóði ÍSÍ.

Í ágústmánuði 2005 komust framkvæmdastjórn ÍSÍ og stjórn ÍF að einróma samkomulagi varðandi styrkjafyrirkomulag til framtíðar fyrir fatlaða íþróttamenn.


Frá og með 1. janúar 2006 getur ÍF sótt um afreksstyrki fyrir sitt íþróttafólk á sama grundvelli og önnur sérsambönd ÍSÍ. ÍSÍ mun krefjast upplýsinga um stöðu íþróttamanna á styrkleikalistum alþjóðasambanda og gera kröfur um árangur, ástundun og eftirlit.

NÚVERANDI REGLUGERÐ FYRIR AFREKSMANNASJÓÐ
ÍÞRÓTTASAMBANDS FATLAÐRA HLJÓÐAR SVO


1. grein

Sjóðurinn heitir Afreksmannasjóður ÍF og er stofnaður af stjórn ÍF 17. febrúar 1987 með stofnframlagi að upphæð kr. 200.000, framkvæmdastjórn ÍSÍ með stofnframlagi að upphæð kr. 200.000 og Ólympíunefnd Íslands með stofnframlagi að upphæð kr. 200.000.
Að auki er stjórn Afreksmannasjóðs ÍSÍ heimilt að veita allt að 5% af ráðstöfunarfé sínu til Afreksmannasjóðs ÍF samkvæmt samþykkt framkvæmdastjórnar ÍSÍ þann 10. nóvember 1994. Skal sú fjárveiting fara fram tvisvar á ári, í janúar og júní. Sú fjárveiting er ætluð til þess að styrkja afreksfólk úr röðum fatlaðra íþróttamanna og skal lúta sömu reglum og kveðið er á um í 10. grein í reglugerð þessari.

2. grein

Skilgreining afreksíþrótta.
Stjórn Afreksmannasjóðs ÍF starfar eftir þeim meginreglum sem mótaðar voru í afreksmannastefnu ÍSÍ og samþykkt á Íþróttaþingi ÍSÍ 1992. Þar kemur m.a. fram eftirfarandi meginskilgreining á afreksíþróttum.

UM AFREKSÍÞRÓTT ER ÞÁ FYRST AÐ RÆÐA ÞEGAR EINSTAKLINGUR EÐA FLOKKUR SKIPAR SÉR MEÐ ÁRANGRI SÍNUM, Í FREMSTU RÖÐ Í HEIMINUM.

Aðeins þær íþróttagreinar sem eru viðurkenndar keppnisgreinar á Ólympíumótum, hvort heldur sumar- eða vetrarmótum og veita þar stig og verðlaun, falla undir styrkhæfar íþróttagreinar hjá Afreksmannasjóði ÍF.

3. grein

Tilgangur sjóðsins er:

A) Að styrkja einstaklinga eða hópa er náð hafa umtalsverðum árangri í alþjóðlegri íþróttakeppni.

B) Að styrkja undirbúning og þátttöku í alþjóðlegum íþróttamótum, þegar ætla má að árangur verði það góður að til verulegs sóma verði fyrir land og þjóð.

C) Að styrkja efnilega einstaklinga, sem ætla má að geti náð framúrskarandi árangri stórmótum, einkum mótum sem nefnd eru í 10. grein reglugerðarinnar.

4. grein

Eingöngu aðilar innan ÍF geta sótt um styrk úr Afreksmannasjóði ÍF

5. grein

Í stjórn Afreksmannasjóðsins skulu vera þrír menn sem stjórn ÍF skipar í byrjun hvers kjörtímabils til tveggja ára í senn. Þar af er æskilegt að einn sé úr stjórn ÍF.

6. grein

Verkefni sjóðsstjórnar er að afgreiða umsóknir um styrkveitingar, sjá um almenna fjáröflun, fjármál og kynningarstarfsemi sjóðsins.

7. grein

Vörslu sjóðsins og reikningshald annast skrifstofa ÍF.

8. grein

Tekjur sjóðsins eru:

A) Hluti af árlegri fjárveitingu Alþingis til ÍF eftir nánari ákvörðun stjórnar ÍF.

B) Árleg, allt að 5% fjárveiting Afreksmannasjóðs ÍSÍ til Afreksmannasjóðs ÍF.

C) Frjáls framlög og söfnunarfé.

D) Vaxtatekjur.

9. grein

Framlög er berast sjóðnum og óskað er eftir að gangi til ákveðinna íþróttagreina eða verkefna, skulu ganga óskipt til hlutaðeigandi.

10. grein

Um styrkveitingar:
Með tilvísan til 1. greinar skal skipa afreksíþróttmönnum í þrjá flokka eftir árangri og skulu mánaðarlegar greiðslur vera misháar:

Styrkveitingar til einstaklingsíþrótta.
10.1 Afreksíþróttamaður A, telst sá vera sem vinnur til verðlauna á Evrópu-, Heimsmeistara- eða Ólympíumótum.
Til grundvallar skulu lagðar afrekaskrár eða uppröðunarlistar viðkomandi alþjóðasambands. Einnig skal tekið tillit til afreka viðkomandi einstaklings á Ólympíumótum og í Heimsmeistarakeppnum. Íþróttamenn sem uppfylla þessi skilyrði skulu hljóta hæstu greiðslur sem sjóðurinn ákveður hverju sinni.
Ákvarða skal styrki þessa til allt að 12 mánaða. Sjóðstjórn er heimilt að skilyrða styrkveitingu því, að íþróttamaðurinn geri grein fyrir áformum sínum og leggi fram æfinga- og keppnisáætlun ásamt því að skila greinargerð til stjórnar Afreksmannasjóðs ÍF um ráðstöfun styrksins.

10.2 Afreksíþróttamaður B, telst sá vera sem er meðal 10 bestu íþróttamanna á Evrópu-, Heimsmeistara- og Ólympíumótum samkvæmt afrekaskrá eða uppröðunarlista viðkomandi alþjóðasambands.
Slík styrkveiting skal ýmist vera eingreiðsla eða áfangagreiðslur. Sjóðstjórn er heimilt að ákvarða beingreiðslur til styrkþega eða hvort viðkomandi aðildarfélagi sé falin ráðstöfun styrks í þágu styrkþega t.d. greiðslu á kostnaði við keppnisferðir og æfingabúðir.
Sjóðstjórn er og heimilt að skilyrða styrkveitingu því að íþróttamaðurinn eða aðildarfélag hans leggi fram æfinga- og keppnisáætlun og skili greinargerð til stjórnar Afreksmannasjóðs ÍF um ráðstöfun styrksins.

Styrkveitingar til íþróttaflokka.
10.3 Afburðaárangri telst sá íþróttahópur hafa náð sem skipar sér í hóp 8 bestu íþróttaflokka í heiminum í sinni íþróttagrein. Viðmiðun er Ólympíumót og Heimsmeistarakeppni. Skilgreining þessi nær aðeins til landsliða í viðkomandi íþróttagrein, en ekki til unglingalandsliða eða félagsliða. Þeir íþróttaflokkar sem hafa náð þessum árangri og eru að búa sig undir áframhaldandi keppni skulu hljóta hæstu styrki sem sjóðurinn veitir til flokka. Styrkveitingin er til ákveðins fjölda einstaklinga í viðkomandi flokki og skal sjóðsstjórn ákveða í samvinnu við aðildarfélag hvaða einstaklingar fá styrkinn og til hversu langs tíma.

Styrkveiting til efnilegra íþróttamanna.
10.4 Stjórn Afreksmannasjóðs ÍF er heimilt að veita efnilegum íþróttamanni eða aðildarfélagi hans styrk ef ætla má að verði aðstæður skapaðar eigi þeir möguleika á að ná þeim árangri sem um er fjallað í grein 10.1 eða 10.2 hér að framan. Slík styrkveiting skal ýmist vera eingreiðsla eða áfangagreiðslur. Sjóðstjórn er heimilt að ákvarða beingreiðslur til styrkþega eða hvort viðkomandi aðildarfélagi sé falin ráðstöfun styrks í þágu styrkþega t.d. greiðslu á kostnaði við keppnisferðir og æfingabúðir.
Sjóðstjórn er og heimilt að skilyrða styrkveitingu því að íþróttamaðurinn eða aðildarfélag hans leggi fram æfinga- og keppnisáætlun og skili greinargerð til stjórnar Afreksmannasjóðs ÍF um ráðstöfun styrksins.

11. grein

Styrkupphæðirnar miðast við fjárhagslega getu sjóðsins hverju sinni og tilkostnað við þátttökuna.

12. grein

Styrkir Afreksmannasjóðs ÍF eru fyrst og fremst til þess að greiða kostnað við æfingar og undirbúning undir keppni, svo og vinnutap. Einungis þeir íþróttamenn sem stunda íþrótt sína með áframhaldandi keppni og afrek fyrir augum, geta fengið styrk úr sjóðnum. Styrkveitingin er því ekki verðlaun fyrir unnin afrek, þótt þau séu lögð til grundvallar, heldur aðstoð og hvatning til frekari og áframhaldandi keppni og afreka.

13. grein

Umsóknir.
Umsóknir skulu berast stjórn Afreksmannasjóðs ÍF á þar til gerðum eyðublöðum, sem stjórn sjóðsins lætur í té.
Aðeins Aðildarfélög ÍF geta verið umsóknaraðilar, hvort heldur um er að ræða styrkveitingar til einstaklinga eða hópa.

Sjóðsstjórn er þó heimilt að hafa frumkvæði að einstökum styrkveitingum og tilfærslu milli flokka afreksíþróttamanna, sem koma þó því aðeins til framkvæmda að fyrir liggi samþykki viðkomandi aðildarfélags ÍF.
Umsóknir, samstarfssamningar og önnur gögn skulu geymd í skjalasafni Afreksmannasjóðs ÍF, sem er í vörslu Íþróttasambands Fatlaðra.
Umsóknir um styrk skulu berast stjórn sjóðsins fyrir 1. maí og 1. nóvember ár hvert.

14. grein

Stjórn Afreksmannasjóðs ÍF skal svara skriflega öllum umsóknum sem berast sjóðsstjórninni.

15. grein

Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til þess að fella tafarlaust niður styrkveitingar til einstaklinga og flokka ef aðstæður breytast, eða sjóðsstjórn hafa verið gefnar rangar eða villandi upplýsingar.

17. grein

Í samræmi við gildandi reglur skulu allir íþróttamenn sem þiggja styrk úr Afreksmannasjóði ÍF hlíta þeim reglum sem Íþróttasamband Fatlaðra setur um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit, svo og þeim almennu siða- og agareglum sem gilda um framkomu íþróttamanna innan vallar sem utan. Á þetta jafnt við um þá sem stunda einstaklingsíþróttir sem flokkaíþróttir

18. grein

Starfsreglur þessar eru settar með tilvísan til reglugerðar um Afreksmannasjóð Íþróttasambands Íslands frá 23 október 1983, og samþykkta Íþróttaþings ÍSÍ 1992 um afreksíþróttastefnu og afreksíþróttasjóð, og öðlast gildi að fenginni staðfestingu stjórnar Íþróttasambands Fatlaðra, sbr. 19. grein.

19. grein

Reglugerð þessi er sett af stjórn ÍF _____________________ 2001 og tekur þegar gildi.