FORMANNAFUNDUR ÍF HALDINN Í SAL ÍBR,

ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐINNI Í LAUGARDAL,

SUNNUDAGINN 15. SEPTEMBER 2002.

 

MÆTT; Sveinn Á. Lúðvíksson, formaður ÍF (SÁL)

Camilla Th. Hallgrímsson,varaformaður ÍF (CTH)

Kristján Svanbergsson, gjaldkeri ÍF/Fjárhagssvið ÍF (KS)

Erlingur Þ. Jóhannsson, stjórn ÍF/Afrekssvið ÍF (EÞJ)

Ólafur Þ. Jónsson, stjórn ÍF (ÓÞJ)

Ólafur Magnússon, starfsmaður ÍF (ÓM)

Anna K. Vilhjálmsdóttir, starfsmaður ÍF (AKV)

Anna G. Sigurðardóttir, starfsmaður ÍF (AGS)

Gísli Jóhannsson, formaður NES (GJ)

Júlíus Arnarson, formaður ÍFR(JA)

Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri ÍFR (ÞÓ)

Svanur Ingvarsson, formaður Suðra (SI)

Ólafur Ólafsson, formaður Aspar (ÓÓ)

Karl Þorsteinsson, stjórn Aspar (KÞ)

Sólborg Bjarnadóttir, stjórn Aspar (SB)

Ólöf Guðmundsdóttir, formaður Þjóts (ÓG)

Valgerður Hróðmarsdóttir, stjórn Fjarðar (VH)

Ásta K. Helgadóttir, f.h. Snerpu (ÁKH)

Bragi Sigurðsson, formaður Bocciadeildar Völsungs (BS)

Jósep Sigurjónsson,  formaður Akurs (JS)

Haukur Þorsteinsson, formaður Eikar (HÞ)

Kristján M. Ólafsson, formaður Gnýs (KMÓ)

Kristín Ólafsdóttur, félagsmálafulltrúi Sólheima (KÓ)

GESTIR

Kristín Guðmundsdóttir, landsliðsþjálfari ÍF í sundi

Ingi Þór Einarsson, sundþjálfari

Carola Aðalsteinsson, íþróttafræðingur

 

DAGSKRÁ

1.                  Setning/Skýrsla ÍF

2.                  Frá Sérsviðum ÍF

Afrekssvið

Liðin verkefni

Verkefni framundan

Fræðslu og útbreiðslusvið

Frá Boccianefnd

                        Frá Sundnefnd

                        Lög GSFÍ

                        Samstarf v/nýliðunar

3.                  Þjálfun ungbarna – Carola Aðalbjörnsson

 

 

 

4.                  Frá Sérsviðum ÍF – framhald

Fjárhagssvið

Auglýsingaöflun í HVATA 2.tbl 2002

Geisladiskasala 2002

Skipting lottótekna

Nýsköpunarsjóður

Fjáröflun ÍF v/Heimsleika SO 2003

5.                  Special Olympics

Alþjóðaleikar SOI 2003

6.                  Önnur mál

Þjálfararáðstefnu aflýst

Sambandsþing

Viðbætur við borðtennisreglur

Jólakort

Verkefnalisti ÍF

 

 

FUNDARGERÐ

 

 

1. SETNING/SKÝRSLA ÍF

SÁL bauð fundarmenn velkomna á þennan haustformannafund ÍF 2002.  Einnig las hann yfir helstu atriði skýrslu ÍF sem lögð var fram á fundinum. 

 

ÓÓ kom með ábendingu um að Halldór Brynjar væri í Ösp en ekki ÍFR eins og sagt hefði verið í framlagðri skýrslu fyrir Formannafund og í 1.tbl HVATA 2002. 

 

HÞ spurðist fyrir af hverju ekki hefði verið haldið Íslandsmót í frjálsum íþróttum utanhúss, einnig spurði hann hvort ekki væri enn verið að nota fé sem ÍF fékk erlendis frá vegna knattspyrnu.

ÓM svaraði því til að t.d. hefði áhugi aðildarfélaga ekki verið mikill á samstarfi og Frjálsíþróttanefnd ekki eins virk og æskilegt væri. 

Varðandi knattspyrnuna þá svaraði ÓM því að ÍF hefði fengið styrk erlendis frá árið 1998 og síðan væru liðin 4 ár en þessi peningur hefði m.a. verið nýttur til að niðurgreiða þátttökugjöld, greiða verðlaunapeninga o.fl.  ÓM skýrði frá því að alltaf hefði verið eitthvert tap af því að halda knattspyrnumótin. 

Spurning væri hvort fastsetja ætti tíma á frjálsíþróttamót utanhúss t.d. um miðjan september ár hvert.

ÓÓ sagði það hafa orðið mikil vonbrigði í sínu félagi þegar fréttist af því að frjálsíþróttamótið yrði ekki haldið. 

 

 

 

 

ÓÓ spurðist fyrir hvort GSFÍ væru samtök eða nefnd og hvenær þau voru stofnuð.  AKV svaraði því að GSFÍ, tengdust GSÍ og orðið “samtök” væri notað þar um ýmsa sérhópa í golfi m.a. aldraða.  Allar nánari upplýsingar um samtökin væru á heimasíðu GSÍ.

 

BS óskaði eftir því að upplýsingar um niðurröðun í deildir og riðla yrðu sendar eins fljótt og hægt væri eftir lokaskráningarfrest á bocciamótið í október þannig að hægt væri að koma í veg fyrir óþarfa vandræði og seinagang. Einnig spurði BS hvort aðildarfélögin gætu fengið þær skýrslur sem til væru á skrifstofu ÍF s.s. vegna funda erlendis. 

AKV sagði að það væri alveg sjálfsagt og benti á að félögunum væri velkomið að fá upplýsingar,s.s. skýrslur og fleira, t.d. vegna funda erlendis. 

Í framtíðinni er vonast til þess að skýrslur o.fl. fari jafnóðum inn á heimasíðu ÍF.

 

Ýmsar umræður urðu um hvers vegna ekki væri mikil þátttaka í sumarmótum, s.s. frjálsíþróttamótum.

 

 

2. SÉRSVIÐ ÍF

AFREKSSVIÐ

ÓM skýrði frá þeim afreksverkefnum sem höfðu farið fram frá síðasta formannafundi í maí s.l.  Einnig var lista dreift til fundarmanna þar sem fram koma verkefni sem framundan eru hjá ÍF á Afrekssviði.  ÓM tók fram að árangur hefði verið góður hjá íslensku keppendunum í boccia á HM og NM á árinu, miðað við að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem Ísland  hefði sent keppendur á HM í boccia.  Einnig fór ÓM yfir helsta árangur annarra móta, s.s. HM í frjálsum íþróttum þar sem Jón Oddur Halldórsson frá Hellissandi stóð sig mjög vel og var í framhaldi af árangri sínum á HM boðið að taka þátt í móti á Bretlandi þar sem íþróttir fatlaðra voru sýningargrein.  Jón Oddur er nú þegar búinn að ná kvóta fyrir Ísland í frjálsum íþróttum, á Ólympíumótið 2004.

Að lokum benti ÓM á að Útvarp Saga væri góður miðill til að koma á framfæri alls kyns upplýsingum um íþróttir og hvatti félögin til að hafa samband við umsjónarmann íþrótta á stöðinni þegar eitthvað spennandi væri í gangi hjá félögunum.

 

FRÆÐSLU OG ÚTBREIÐSLUSVIÐ
Boccianefnd

ÓÓ fór yfir árangur íslensku keppendanna á HM í boccia og NM í boccia og minntist á margar þær “nýjungar” sem þau hefðu séð á HM, s.s. alls kyns gerðir af rennum.  KÞ sagði frá því að á þessu HM móti hefðu reglurnar verið mjög strangar, m.a. hefðu mjög margir bocciaboltar verið dæmdir úr leik þar sem þeir voru t.d. fyrir utan þá stærð á boltum sem leyfileg er á þessum mótum.  Þeir tóku fram að þetta hefði verið skemmtileg og fróðleg þátttaka sem gæti eflaust nýst í bocciastarfinu hér á landi í framtíðinni.

KÞ talaði um að til þess að hægt yrði að keppa í einu húsi á Íslandsmótinu i boccia í október, þá þyrftu allir að leggjast á eitt um að vera samstíga í því að eingöngu keppendur í viðkomandi leikjum, aðstoðarmenn þeirra og dómarar væru þau einu sem mættu vera inn á vellinum, aðrir yrðu að vera á áhorfendapöllunum.  Fimm mínútum fyrir leik yrðu viðkomandi keppendur beðnir um að fara á ákveðið svæði þar til leikir þeirra hæfust.  Ýmsar umræður urðu um þetta mál s.s. hvort ætti að taka upp alþjóðaleikreglurnar og spila eftir þeim á Íslandsmótum og þá hvort ætti að breyta reglunum strax á næsta þingi, vorið 2003.  Tilraun verður gerð á Íslandsmótinu í boccia á Akranesi og skal boccianefnd senda drög að reglum til aðildarfélaganna eins fljótt og kostur er til að kynna þeim ofangreindar nýjungar.

 
Sundnefnd

Krístín Guðmundsdóttir og Ingi Þór Einarsson komu nú á fundinn til þess að kynna ný mót sem aðildarfélögin gætu tekið þátt í og aukið þar með möguleika þeirra sundmanna á þátttöku á sundmótum innanlands. 

Upplýsingar um mótin verða send sem fylgiskjal með þessari fundargerð.

 

 

3. ÞJÁLFUN UNGBARNA

Þar sem dagskránni hafði seinkað var Carola Aðalsteinsson boðin velkomin á fundinn núna með sinn fyrirlestur um þjálfun ungbarna.

Hún sagði frá rannsóknum sem gerðar hafa verið á þessu sviði, þar sem fram hefur komið að því fyrr sem þjálfun hefst, því meiri árangur.  Hún benti m.a. á rannsóknir á heilastarfsemi ungbarna en niðurstöður þeirra rannsókna staðfesta að unnt er að hafa áhrif á ýmsa þætti með þjálfun á mótunarskeiði barnsins.

Hún mun veita þeim sem áhuga hafa, nánari upplýsingar um þessi mál og er tilbúin að halda fyrirlestra fyrir foreldra, þjálfara og aðra ef óskað er.

 

 

2. (framhald)

AKV fjallaði um mikilvægi þess að auka samstarf enn frekar milli þeirra aðila sem stæðu að íþróttastarfi almennt og þeirra aðila sem starfa að íþróttum fatlaðra.  Samstarf vegna þróunarverkefna og nýrra greina væri mikilvægt en ekki síður samstarf vegna hefðbundinna greina s.s. sunds og frjálsíþrótta.  Það kæmi ekki síst í ljós nú, þegar Íslandsmót fellur niður í frjálsum íþróttum hjá ÍF.  Mikilvægt væri að samstarf væri aukið í heimabyggð, þannig að fatlaðir einstaklingar fái aukin tækifæri á mótum almennra félaga sem standa fyrir ákveðnum greinum.  Hún benti á mikilvægi þess að  auka ábyrgð þeirra aðila sem eru í forsvari íþróttahreyfingarinnar almennt, gagnvart fötluðum einstaklingum á hverjum stað.   Þar gætu aðildarfélög ÍF gegnt mikilvægu hlutverki.

 

ÓÓ sagði það skipta miklu máli eins og fyrir Öspina að vera í góðu samstarfi við önnur félög og nefndi sem dæmi Gerplu sem er í samstarfi við Ösp vegna fimleika. 

 

BS sagðist vera sammála því sem á undan hefði verið fjallað og sagði að alltaf hefði verið gott samstarf við stjórn Völsungs eftir að bocciadeild var stofnuð þar og sagði BS að ef áhugi á öðrum greinum myndi eflast að þá yrði frekar reynt að stofna fleiri deildir innan Völsungs miðað við greinar eða þá að einstaklingarnir færu inn í þær deildir sem fyrir væru.

 

AKV sagði frá því að komin væru lög fyrir Golfsamtök fatlaðra og benti á að hægt væri að nálgast þau á heimasíðu GSÍ og vonandi innan tíðar líka á heimasíðu ÍF.

 

 

4.      SÉRSVIÐ – framhald

FJÁRHAGSSVIÐ

KS, tilkynnti að söfnun í 2.tbl HVATA 2002 myndi hefjast 15. október n.k  Einnig var sagt frá því að fjárhagsleg staða vegna HVATA undanfarið væri ekki eins góð og vonir höfðu staðið til.  KS hvatti aðildafélögin til að senda inn efni í HVATA frá sínu starfi.  SÁL tók fram að öllum þætti HVATI mikilvægt í starfi ÍF þar sem margir læsu blaðið þegar því væri dreift víða, s.s. á biðstofum, BS sagðist vera sammála þessu.

KS skýrði frá því að símsala á geisladiski ÍF hæfist 15. nóvember n.k.  Geisladiskurinn fékk góða kynningu fyrir síðustu jól og ætti þess vegna að geta selst í meira upplagi en þá, sérstaklega þar sem myndbandið við vinsælasta jólalagið í fyrra “Jólin eru að koma” yrði vonandi sýnt oftar nú en þá.  KS hvatti félögin til að aðstoða við sölu á disknum þar sem þetta væri góð kynning á íþróttastarfi ÍF og aðildarfélaganna.

KS skýrði frá ýmsum hugmyndum varðandi fjáraflanir vegna Heimsleika SO 2003, einnig hugmyndir um að hafa samstarf við nemendur í HÍ og athuga hvort þeir geti aðstoðað við hugmyndavinnu að fjáröflunum.  Einnig verða send bréf til ýmissa fyrirtækja þar sem óskað verður eftir stuðningi við þetta verkefni.

 

KS kynnti hugmynd um að koma á fót “Nýsköpunarsjóði”.  ÓM útskýrði nánar hvernig þessi sjóður fengi fé og einnig í hvað hann yrði notaður.  Nokkur aðildarfélög ÍF sem hafa ekki verið virk lengi eiga inni pening sem, eftir undanfarin ár er kominn upp í rúmar 600.000. krónur.  Hugmyndin er sú að ÍF bæti síðan við kr. 400.000.- þannig að heildarupphæðin sem væri í byrjun í sjóðnum væri 1 millljón króna.   

ÓM spurði fundarmenn hvort þeir heimiluðu ÍF að nýta þessa peninga í þennan sjóðs sem í rauninni ættu að skiptast á milli hinna aðildarfélaganna en þetta eru peningar sem koma frá Lottóinu.

Ýmsar umræður urðu um þetta, þó sérstaklega hvað varðar fjárstreymi í þennan sjóð í framtíðinni.  Fundarmenn samþykktu að veita Fjárhagssviði heimild til að vinna þetta mál áfram.

 

ÓM skýrði frá því að íþróttanefndir ÍF þyrftu að skila inn fyrir 15. nóvember n.k. lista yfir þau verkefni sem þær hefðu hug á að taka þátt í árið 2003 ásamt því að leggja fram kostnaðaráætlun.

 

 

5.      SPECIAL OLYMPICS

AKV ítrekaði við þau félög sem ættu keppendur sem tilnefndir voru til þátttöku á Heimsleikunum, að fara vel yfir bréfið sem sent hafði verið til þeirra og sjá til þess að skil væru í samræmi við óskir frá ÍF.

AKV sagði einnig frá þvi að Camilla Th. Hallgrímsson, væri í hlutverki fjölskyldufulltrúa Special Olympics á Íslandi, vegna leikanna og myndi aðstoða við undirbúning ferðar aðstandenda á leikana.

 

 

6.      ÖNNUR MÁL

ÞJÁLFARARÁÐSTEFNA

ÓM fór yfir dagskrá þjálfararáðstefnunnar sem var aflýst og óskaði eftir upplýsingum frá félögunum hvers vegna fulltrúar frá þeim hefðu ekki getað sótt ráðstefnuna.  Niðurstaðan var sú að flestir þeir sem hefðu haft áhuga á að sækja ráðstefnuna hefðu verið bókaðir annars staðar.  Fundarmenn sögðust hafa verið mjög ánægðir með síðustu ráðstefnu og það væri mjög jákvætt að slíkar ráðstefnur væru haldnar.  Hugmyndir voru ræddar um hvort reyna ætti aftur í haust að halda ráðstefnu eða hvort það væri nóg að halda slíka ráðstefnu annað hvert ár.

SÁL lagði til að aðildarfélög könnuðu áhuga þjálfara sinna á því hvort halda ætti ráðstefnu sem þessa í október og að þau yrðu að skila inn óskum sínum fyrir 1. október n.k.

 

SAMBANDSÞING

ÓM tilkynnti tvær dagsetningar sem kæmu til greina, einnig tvo staði þar sem kæmi til greina að halda þingið.  Það voru Selfoss eða Hveragerði.  28.-30. mars eða 25.-27. apríl 2003 en samkvæmt lögum þá á þingið að fara fram fyrir 30. apríl 2003.  Umræður urðu um aðra staði s.s. Stykkishólm en ákveðið var að kanna málið nánar.  Fundarmenn voru sammála að betra væri að halda þingið 28.-30. mars. 

 

JÓLAKORT

AGS skýrði frá því að engin tillaga hefði borist frá aðildarfélögunum um mynd á jólakort ÍF árið 2002 en félögin voru beðin um að senda inn tillögur að myndum til ÍF fyrir 1. september s.l.

AGS sagði að vegna þessa hefði verið leitað til CTH varðandi mynd og hefur CTH nú teiknað þá mynd sem mun prýða jólakort ÍF í ár.  Fundarmönnum var sýnd myndin ásamt því að lista var dreift til fundarmanna þar sem þeir voru beðnir um að skrá niður fjölda jólakorta sem þeirra félög vilja.

 

                        VERKEFNALISTI ÍF

Verkefnalista ÍF var dreift til fundarmanna.

 

ÓÞJ kom með þá fyrirspurn hvort fækka ætti formannafundunum í einn á ári.   Fundarmenn voru sammála um að halda ætti tvo fundi á ári, þ.e. þau ár sem ekki eru haldin þing.

 

Að þessu loknu þakkaði SÁL fundarmönnum fyrir góðar umræður og sleit fundinum kl. 15:45.

 

Fundarritari; AGS