Knattspyrna er fyrir alla 

18.07.2000

Það er óhætt að segja að knattspyrna sé íþrótt sem allir geti tekið þátt í á einhvern hátt, hvort sem um sé að ræða beina iðkun knattspyrnu eða þá að taka þátt sem áhorfandi eða stuðningsmaður.  Fötlun þarf ekki að koma í veg fyrir að fólk geti tekið þátt í "boltanum". 
-
Laugardaginn 20. maí sl. stóðu Knattspyrnusamband Íslands og Íþróttasamband Fatlaðra“Fótboltafjöri” fyrir fatlaða í Reykjaneshöll.  “Fótboltafjörið” var hluti af  Íþróttahátíð ÍSÍ 2000 auk þess að vera liður í átaki UEFA í því að útbreiða enn frekar knattspyrnu sem íþrótt fyrir alla - án tillits til kyns, aldurs, getu eða fötlunar.   Til að standa að þessu átaksverkefni með sér fékk UEFA m.a. í lið með sér Special Olympics, sem eru alþjóðasamtök þroskaheftra íþróttamanna og Íþróttasamband Fatlaðra er fulltrúi fyrir hér á landi.
-
Um 50 þroskaheftir einstaklingar mættu til leiks og komu þeir víðs vegar að af landinu.  “Fótboltafjörið” hófst með upphitun sem Atli Eðvaldsson þjálfari A-landsliðs Íslands stjórnaði.  Þá var reynt með sér í knattþrautum og að því búnu var hrint af stað móti þar sem liðaskipting miðaðist við að hafa getu einstaklinganna sem jafnasta.

Eftir að hlé hafði verið gert og þátttakendur neytt ávaxta og orkudrykkja kepptu einstaklingar frá Reykjavíkursvæðinu á móti köppum af landsbyggðinni.  Fullkomið jafnræði ríkti milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar þar sem Reykjavík sigraði í hópi þeirra getumeiri en landsbyggðin í hópi þeirra getuminni. 

-
Til þess að lögum og reglum kattspyrnunnar væri hlýtt önnuðust Landssímadeildar- og Milliríkjadómarar KSÍ dómgæslu allra leikja “Fótboltafjörsins”.  

Dómarana má sjá á myndinni hér til hægri, ásamt hluta þeirra sem sáu um skipulagningu og framkvæmd þessa viðburðar.

-
Það var síðan Haukur Ingi Guðnason leikmaður Liverpool og KR sem afhenti þátttakendum viðurkenningarpening Íþróttahátíðar ÍSÍ, veifu KSÍ fyrir þátttöku í knattþrautum og stuttermaboli til minja um þátttökuna í þessu í “Fótboltafjöri” KSÍ og ÍF/Special Olympics Ísland.

Mikil ánægja ríkti meðal þátttakenda með þetta framtak KSÍ og ÍF sem verður vonandi til þess að auka enn frekar á þátttöku fatlaðra í knattspyrnu sem fram il þessa hefur því miður hefur verið allt of lítil.