Kennaraháskóli Íslands

Lokaritgerð til B.A prófs

Maí 2003

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íþróttir fatlaðra

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hrefna Jóhannsdóttir

Kt:100778-3199

Matthías Ágúst Ólafsson

Kt:100478-5959

 


Ágrip

Ritgerðin sem hér er rituð, fjallar um sögu og þróun íþrótta fatlaðra og Íþróttasamband fatlaðra. Farið er yfir þróun íþrótta fatlaðra og hvernig Íþróttasamband fatlaðra verður til í kjölfar hennar.  Starfsemi sambandsins skoðuð, og má þar nefna húsnæði, starfsmenn, fjármál, fræðslustörf og fl.

Félög innan Íþróttasambandsins eru kynnt og reynt er að fjalla um starfsemi hvers félag fyrir sig. Þessi félög eru starfandi um land allt og eru mjög mismunandi hvað varðar húsnæði, félagsmenn og fl.

Tekin eru viðtöl við þjálfara fatlaðra og fatlaða einstaklinga sem stunda íþróttir af kappi. Einnig er tekið viðtal við Þórð Ólafsson rekstrarstjóra íþróttahúss fatlaðra að Hátúni.

Að síðustu er aðeins fjallað um mótahald jafnt innanlands sem erlendis.

 


Efnisyfirlit

1 Inngangur 5

2 Aðdragandi að íþróttum fatlaðra erlendis. 6

3 Upphaf íþrótta fyrir fatlaða á Íslandi 7

3.1 Stofnun fyrstu íþróttafélaga fyrir fatlaða á Íslandi 8

4 Aðdragandi og stofnun Íþróttasambands fatlaðra. 9

4.1 Hlutverk Íþróttasambands fatlaðra. 9

4.2 Erlend samskipti 11

4.3 Saga og þróun frá upphafi til dagsins í dag. 12

4.4 Húsnæði Íþróttasambands fatlaðra. 13

4.5 Starfsmenn Íþróttasambands Fatlaðra. 13

4.6 Fjármál og rekstur Íþróttasambands fatlaðra. 14

4.7 Útbreiðslu- og fræðslustörf 16

4.8 Inngangur að félögum innan Íþróttasambands fatlaðra. 17

4.8.1 Akur, Akureyri 17

4.8.2 Björg. 18

4.8.3 Eik, Akureyri 18

4.8.4 Fjörður, Hafnafirði. 18

4.8.5 Gáski, Skálatúni 19

4.8.6 Gnýr, Sólheimum, Grímsnesi. 19

4.8.7 Gróska, Sauðárkróki. 19

4.8.8 Hlynur, Kópavogshæli. 19

4.8.9 Íþróttafélag Heyrnarlausra, Reykjavík. 20

4.8.10 Íþróttafélag fatlaðra Reykjavík. 20

4.8.11 Íþróttafélagið Ívar, Ísafirði 20

4.8.12 Kveldúlfur, Borgarnesi 20

4.8.13 Snerpa, Siglufirði. 21

4.8.14 Suðri, Selfossi. 21

4.8.15 Tjaldur, Tjaldanesi. 21

4.8.16 Viljinn, Seyðisfirði. 21

4.8.17 Örvar, Egilsstöðum. 22

4.8.18 Þjótur, Akranesi. 22

4.8.19 Bocciadeild Völsungs, Húsavík. 23

4.8.20 Íþróttadeild fatlaðra í Snæfellsbæ (Snæfellsbær og Grundarfjörður) 23

4.8.21 Íþróttafélagið Ösp, Reykjavík. 24

4.8.22 Íþróttadeild fatlaðra í Stykkishólmi 25

4.8.23 Ægir, Vestmannaeyjum.. 25

4.8.24 Nes, Suðurnesjum.. 26

4.9 Samantekt úr félögum sem eru innan Íþróttasambands fatlaðra. 27

5 Íþóttahús fatlaðra Hátúni 28

5.1 Viðtal við Þórð Ólafsson, mars 2003. 28

5.2 Samantekt úr viðtali við Þórð Ólafsson. 30

6 Inngangur að viðtölum við þjálfara. 31

6.1 Viðtal við Júlíus Arnarsson, mars 2003. 31

6.2 Viðtal við Erling Jóhannsson, mars 2003. 34

6.3 Samantekt úr viðtölum við þjálfara. 37

7 Inngangur að viðtölum við þátttakendur 38

7.1 Viðtal við Geir Sverrisson, mars 2003. 38

7.2 Viðtal við Kristínu Rós Hákonardóttur, mars 2003. 43

7.3 Viðtal við Bjarka Birgisson, mars 2003. 45

7.4 Samantekt úr viðtölum við þátttakendur. 47

8 Mótahald innan og utanlands. 49

9 Niðurstöður 50

10 Lokaorð. 51

11 Heimildaskrá. 52

11.1 Skriflegar heimildir. 52

11.2 Munnlegar heimildir. 53

Fylgiskjöl 55


1 Inngangur

 

            Þegar kom að því að velja sér efni í lokaritgerð, lá beint við að það tengdist á einhvern hátt íþróttum fatlaðra. Við höfum bæði haft mikinn áhuga fyrir íþróttum fatlaðra í nokkur ár og einnig höfum við starfað mikið á tengdum vettvangi. Við höfum bæði starfað við að aðstoða fatlaða.

            Það kom því upp sú hugmynd að skrifa um hvenær íþróttir fatlaðra hófu starfsemi sína hér á landi og hvernig starfsemin hefur þróast til dagsins í dag.

Ritgerðinni verður skipt upp í tvo hluta, þ.e.a.s. fyrri hlutinn verður almenn umfjöllun um íþróttir fatlaðra og félög innan Íþróttasamabands fatlaðra.  Seinni hlutinn einkennist af viðtölum við þjálfara og þátttakendur sem hafa mikla og góða reynslu af íþróttum fatlaðra.

Þeir þátttakendur sem tekin eru viðtöl við, eru öll þekktir einstaklingar úr heimi íþróttanna, jafnt hjá fötluðum sem ófötluðum. Þau einkennast af miklum dugnaði og atorku og má segja að þau séu fyrirmynd annarra.

Þeir þjálfarar sem teknir eru tali eru reynslumiklir og hafa mikinn áhuga á sínu sviði. Þeir gegna mikilvægum störfum sem tengjast íþróttum fatlaðra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


2 Aðdragandi að íþróttum fatlaðra erlendis

 

Í máli og ritum fræðimanna á miðöldum er fjallað um hversu nauðsynlegt sé að stunda nægilega hreyfingu, en það á jafnt við heilbrigða sem fatlaða. Þó að þekkingin hafi ekki verið mikil á þessum tíma, sbr. þekkinguna  í dag, tókst að vekja athygli á mikilvægi hreyfingar jafnt hjá fötluðum sem öðrum. Það má lesa eftirfarandi í riti á sextándu öld,  sérhver sem lifir kyrrsetu lífi og  jafnvel borðar bara mikið af góðum mat, án þess að hreyfa sig nóg eða stunda æfingar, mun alla tíð finna fyrir sársauka og vanlíðan og kraftar hans og þrek munu þverra fljótt[1]. Þessi orð sína fram á að fræðimenn hafi fljótlega gert sér grein fyrir mikilvægi hreyfingar eins og áður hefur komið fram.

            Eftir því sem aldirnar liðu tóku fjöldi fræðimanna undir þá hugmynd að hreyfing væri nauðsynleg fyrir alla og kom hugmyndin fram í ýmsum löndum t.d. Austurríki, Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi og Svíþjóð. Það var árið 1847 sem austurríski uppeldisfræðingurinn Klein hóf að kenna íþróttir á blindrahæli, sem var staðsett í Vín, og ekki leið á löngu fyrir en kennsla hófst fyrir heyrnarlausa. Þessi kennsla sem Klein stóð fyrir náði ekki almennri útbreiðslu en það er ekki fyrir en um miðja 20 öld að skipulagt íþróttastarf með fötluðum hefst. Þó eru til dæmi um íþróttafélög sem stofnuð voru fyrr á öldinni t.d. árið 1922 var stofnað félag lamaðra ökumanna í Englandi og árið 1936 stofnuðu einhentir golfáhugamenn í Glasgow með sér félag.

            Eftir seinni heimstyrjöldina stóðu margar þjóðir frammi fyrir því að hundruð þúsunda og jafnvel milljónir hermanna kæmu heim úr stríðinu margvíslega fatlaðir og bæklaðir. Sumir voru bundnir hjólastólum, útlimahöggnir, blindir eða með aðra fötlun. Það var ljóst að þessir hermenn þurftu á aðstoð og endurhæfingu að halda sem m.a. fólst í íþróttaiðkun af ýmsu tagi. Þessi vinna átti eftir að teygja anga sína til Íslands og hafa mikla þýðingu fyrir endurhæfingu og stöðu fatlaðra á Íslandi.

           


            Upphafsmaður íþrótta fatlaðra, eins og við þekkjum í dag, var Sir Ludwig Guttman yfirlæknir á Mandeville sjúkrahúsinu í Englandi. Sir Ludwig lét byggja leikvöll fyrir fatlaða íþróttamenn við sjúkrahúsið og stuttu seinna var farið að þjálfa fatlaða á skipulagðan hátt í ýmsum íþróttagreinum. Hann stóð m.a. fyrir landskeppni fatlaðra í Englandi á leikvanginum sem hann lét byggja árið 1952, eins og fram hefur komið. Árangurinn lét ekki á sér standa og breiddist fljótlega út til margra landa.[2]

 

 

3 Upphaf íþrótta fyrir fatlaða á Íslandi

 

Upphaf íþrótta fyrir fatlaða á Íslandi má rekja aftur til ársins 1972. Sigurður Magnússon, þáverandi skrifstofustjóri Í.S.Í.,  fór á ráðstefnu í V-Þýskalandi sem bar yfirskriftina Íþróttir fyrir alla. Margir höfðu ýmislegt fram að færa á þessari ráðstefnu og einn þeirra var Sir Ludvig Guttman. Hann vakti athygli á því að ekki væri hægt að tala um íþróttir fyrir alla, ef ekki væri jafnframt unnið að uppbyggingu og skipulagningu íþróttastarfsemi fyrir fatlaða. Hann sagði til dæmis frá því að fatlaðir hefðu mun meiri þörf fyrir íþróttir og útiveru heldur en aðrir. Sigurði fannst mikið til Sir Ludvigs koma og varð það til þess að Sigurði var boðið að koma við á Mandeville sjúkrahúsinu í Englandi á heimleið sinni og fylgjast með leikunum þar.

Þegar Sigurður kom heim frá Þýskalandi og Englandi, kynnti hann fyrir stjórn Í.S.Í.. það sem komið hafði fram á ráðstefnunni. Strax frá upphafi sýndi stjórnin þessu máli mikinn áhuga og ákvað að leggja þetta fyrir næsta íþróttaþing sem haldið var um haustið 1972. Í framhaldi af þessu samþykkti íþróttaþingið að fela framkvæmdastjórn sambandsins að koma á fót skipulagðri íþróttastarfsemi fyrir fatlaða hér á landi. Eftir þessa þingssamþykkt skipaði stjórnin svo þriggja manna nefnd til að vinna að framgangi málsins og var Sigurður Magnússon þá kjörinn formaður hennar. Nefndin vann ýmis konar undirbúningsstörf.. Til dæmis var málið kynnt í félögum fatlaðra, leitast var við að fá kvikmyndir sem sýndu fatlaða í íþróttum, leikreglur í hinum ýmsu íþróttagreinum voru þýddar og nefndin sendi jafnframt Magnús H. Ólafsson, í tveggja og hálfs mánaðar ferð um Norðurlöndin til að kynna sér þessi mál.


Síðar hélt Magnús leiðbeinendanámskeið bæði fyrir íþróttakennara og sjúkraþjálfara sem höfðu áhuga á þessu nýja verkefni. Nefndin starfaði allt til ársins 1978. Þegar hér var komið við sögu var íþróttastarfsemi fyrir fatlaða orðin það útbreidd og umfangsmikil, að ástæða þótti til að stofna sérstakt sérsamband sem færi með þessi málefni. Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) var síðan stofnað 17. maí 1979.[3]  

 

3.1 Stofnun fyrstu íþróttafélaga fyrir fatlaða á Íslandi

 

Fyrsta íþróttafélag hreyfihamlaðra, sem stofnað var á Íslandi, var Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík. Það félag hóf starfsemi sína þann 31. maí 1974. Um 40 manns mættu á stofnfundinn og hafði Sigurður Magnússon framsögu á fundinum, og hélt einnig utan um fundarstjórn. Veturinn eftir eða þann 8. desember 1974, var annað íþróttafélag hreyfihamlaðra stofnað. Það var íþróttafélag fatlaðra á Akureyri sem ber nú nafnið Akur. Fyrsta íþróttafélag þroskaheftra á Íslandi sem kom til sögunnar var Eik á Akureyri. Það var stofnað 16. maí 1978 og tveimur árum seinna, 18. maí 1980, var íþróttafélagið Ösp í Reykjavík stofnað. Nú var svo komið að áhugi var fyrir að stofna fleiri ný félög og kom þá við sögu vaxandi skilningur fatlaðra  og forráðamanna þeirra víðs vegar um land. Íþróttasamband fatlaðra var líka komið til sögunnar og átti þátt í því að fleiri félög voru stofnuð. Alls voru stofnuð níu félög frá upphafi og fram að aðalfundi ÍF í mars 1984. Auk þess áttu þrettán eftir að bætast við og eru íþróttafélögin innan Íþróttasambands fatlaðra nú orðin tuttugu og tvö talsins[4].

 

 

 


4 Aðdragandi og stofnun Íþróttasambands fatlaðra

 

Þegar undirbúningsnefnd ÍSÍ hafði starfað í rúm sex ár, hafði íþróttastarf fatlaðra aukist það mikið, að nauðsynlegt þótti að stofna sérstakt sérsamband. Í framhaldi af þessu ákvað framkvæmdastjórn ÍSÍ að boða til stofnfundar og var hann haldinn 17. maí 1979. Stofnfundurinn fór fram á Hótel Loftleiðum. Gísli Halldórsson forseti ÍSÍ setti fundinn og stjórnaði honum, en auk hans sátu fundinn framkvæmdastjórn ÍSÍ og framkvæmdastjóri. Um 22 fulltrúar frá 12 héraðssamböndum mættu á fundinn, auk nokkurra gesta. Fyrsti formaður Íþróttasambands fatlaðra var kjörinn, Sigurður Magnússon og gegndi hann því starfi til ársins 1984 er Ólafur Jensson tók við. Ólafur gegndi formennsku í tólf ár, þ.e. allt til ársins 1996. Fljótlega kom í ljós að stofnun sérsambandsins var skref í rétta átt, þar sem allt starf fór mjög vaxandi á öllum sviðum[5].(sjá fylgiskjal 1)

Íþróttasamband fatlaðra er eitt af 21 sérsambandi innan ÍSÍ, en sérstaða þess miðað við önnur sérsambönd, er sú að Íþróttasamband fatlaðra hefur ekki aðeins með eina ákveðna íþróttagrein að gera. Íþróttasamband fatlaðra, sem var stofnað 17. maí 1979 eins og greinir hér frá á undan, er samband héraðssambanda eða sérráða og eru öll þau félög innan Í.S.Í. er iðka, æfa og keppa í íþróttum fatlaðra, aðilar að Í.F[6].

 

 

4.1 Hlutverk Íþróttasambands fatlaðra

 

Hlutverk Íþróttasambands fatlaðra er að hafa yfirumsjón með öllum þeim íþróttagreinum sem fatlaðir stunda á Íslandi, annast útbreiðslu- og fræðslustarf varðandi íþróttir fatlaðra, vera fulltrúi Íslands varðandi erlend samskipti er tengjast íþróttamálum fatlaðra og gæta hagsmuna allra þeirra fötlunarhópa sem eru innan Íþróttasambands fatlaðra, en þeir eru eftirfarandi:

Þroskaheftir, hreyfihamlaðir, sjónskertir, blindir og heyrnarlausir/skertir.

Af þessum sökum hefur oftar en ekki verið talað um Íþróttasamband fatlaðra sem Litla ÍSÍ þar sem uppbygging þess líkist frekar uppbyggingu ÍSÍ en sérsambandanna.


Íþróttasamband fatlaðra, eða ÍF., hefur innan sinna vébanda 22 aðildarfélög, eins og áður hefur komið fram, en þessi félög eru staðsett víðs vegar um landið. Íþróttasamband fatlaðra reynir að sinna hverju aðildarfélagi sem allra best, til dæmis með upplýsingastreymi varðandi mót og aðra atburði sem tengjast íþróttum fatlaðra, aðstoðar félögin varðandi hugmyndir að fjáröflunarleiðum og hvað varðar uppbyggingastarf. ÍF. styrkir félaga sína innan aðildarfélagana til keppnisferða o.fl. Haldin eru námskeið, útbreiðslufundir úti um allt land, skólar eru heimsóttir o.fl. en samvinna við skóla- og heilbrigðiskerfið er mjög nauðsynlegur þáttur í útbreiðslustarfinu. Einnig er mikið samstarf við þau almennu íþróttafélög sem hafa fatlaða einstaklinga innan sinna vébanda.

Stjórn Íþróttasambands fatlaðra er kjörin á sambandsþingi ÍF en, þingið er haldið annað hvert ár. Þar eru starfandi nefndir og ráð sem hafa með ákveðna málaflokka og/eða ákveðnar íþróttagreinar að gera. Þessar nefndir og ráð eru eftirfarandi:

            Læknaráð, fræðslunefnd, fagráð, alþjóðasamskiptanefnd, afreksmannasjóður, dómstóll Í.F., ólympíunefnd, boccianefnd, borðtennisnefnd, frjálsíþróttanefnd, sundnefnd, bogfiminefnd, lyftinganefnd, vetraríþróttanefnd og Special Olympics nefnd[7].

Þessar nefndir starfa í tengslum við stjórn og starfsmenn ÍF. Íþróttasamband fatlaðra hefur fengið gott fólk í þessar nefndir og hefur það skilað árangursríkri vinnu og auk þess hefur fólkið unnið í sjálfboðavinnu.

Íþróttanefndir sjá til dæmis um undirbúning Íslandsmóta í boccia, bogfimi, borðtennis, lyftingum, frjálsum íþróttum og sundi í samráði við skrifstofu ÍF. Íþróttasamband Fatlaðra stendur síðan fyrir A stigs leiðbeinendanámskeiðum í íþróttum fatlaðra auk annarra námskeiða í samráði við fræðslunefnd og íþróttanefndir ÍF. Íþróttasamband fatlaðra stendur einnig fyrir útgáfu á handbók ÍF, leiðbeinendabókum, fræðsluefni og myndböndum auk fréttabréfs ÍF og blaðsins Hvata sem kemur út tvisvar til þrisvar á ári[8].


4.2 Erlend samskipti

 

Starfandi eru norræn heildarsamtök Íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum og heita þau Nord Hif. Í stjórn Nord Hif eru formenn Íþróttasambanda Fatlaðra á Norðurlöndum, en einnig starfa nefndir að einstaka verkefnum. Mörg verkefni eru á vegum Nord Hif á hverju ári, sem gera kröfu á mikla samvinnu á milli Norðurlandanna, til að mynda má nefna norðurlandamót, vináttumót, fundi og námskeið. Skrifstofa Nord Hif var á Íslandi á árunum 1992-1995 en löndin skiptast á að veita samtökunum formennsku og sjá um skrifstofuhald.

Íþróttasamband fatlaðra er einnig aðili að alþjóðlegum samtökum hinna ýmsu fötlunarflokka og samtaka en þau eru eftirfarandi:

IBSA, CP-ISRA, INAS-FMH, ISOD, ISMGWF, SPECIAL OLYMPICS, IPC, CISS en þessi samtök eru fyrir hvern fötlunarhóp. ÍF tekur þátt í mótum og fundum á vegum þessara samtaka þannig að umfang starfsins er mikið bæði innanlands og utan. Mikil og hröð þróun er í íþróttaheimi fatlaðra og mikilvægt að fylgjast vel með[9].

            Samtökin IBSA eru alþjóðaíþróttasamtök blindra/sjónskerta, CP-ISRA stendur fyrir alþjóðaíþróttasamtök spastískra, INAS-FMH eru alþjóðaíþróttasamtök þroskaheftra, ISOD eru alþjóðaíþróttasamtök aflimaðra, ISMGWF eru alþjóðaíþróttasamtök mænuskaddaðra og CISS er alþjóðaíþróttasamtök heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Special Olympics, eru alþjóðaíþróttasamtök þroskaheftra, sem standa fyrir keppni fyrir alla þroskahefta. Íþróttasamband fatlaðra gerðist aðili að Special Olympics International árið 1990 og hafa tugir þroskaheftra Íslendinga tekið þátt í Evrópumótum og alþjóðlegum mótum á vegum samtakanna. Íþróttasamband fatlaðra er einnig umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi en þessi samtök starfa sjálfstætt víðast hvar og eru mjög öflug, ná þau nú til 150 landa.

IPC er alþjóða ólympíuhreyfing fatlaðra og var hún stofnuð árið 1989. IPC eru alþjóðasamtök allra fötlunarflokka, nema heyrnarlausra, en einnig eru Special Olympics aðilar að samtökunum. IPC stendur að framkvæmd ólympíumóta og heimsmeistaramóta fyrir fatlaða og eru núna 158 lönd aðilar að samtökunum. Árið 1980 tók Ísland fyrst þátt í ólympíumóti fatlaðra en það fór fram í Hollandi.

Íþróttasamband fatlaðra er háð því að eiga gott samstarf við erlend samtök og við þá aðila erlendis sem vinna að íþróttamálum fatlaðra. Ef um er að ræða mál sem varða erlend samskipti, þarf  ÍF að leita út fyrir landsteinana vegna flestra mála þar sem Íþróttasambandið heldur utan um allt íþróttastarf fatlaðra hér á landi og getur ekki leitað upplýsinga hjá öðrum aðila innanlands. Hér er til dæmis um að ræða upplýsingar um nýjar íþróttagreinar, ný tæki fyrir fatlaða til íþróttaiðkunar, fræðslumál, lög og reglugerðir, flokkunarmál o.fl[10].

 

 

4.3 Saga og þróun frá upphafi til dagsins í dag

 

Þegar Íþróttasamband fatlaðra var stofnað 17. maí 1979, voru aðildarfélög sambandsins fimm talsins: Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík, Akur og Eik á Akureyri, Björk og Íþróttafélag heyrnarlausra í Reykjavík. Félögunum átti eftir að fjölga ört á næstu árum en þau voru orðin níu talsins árið 1983. Starfsemi Íþróttasambands fatlaðra var mjög fjölbreytt strax frá byrjun. Það var mikið lagt upp úr því að kynna íþróttir fatlaðra víða um land og aðstoða menn við að stofna félög. Sambandið sá síðan um að skipuleggja Íslandsmót fyrir alla fötlunarflokka og aðstoða jafnframt við önnur mót. Eftir því sem félögum fjölgaði, jókst starfsemin jafnt og þétt.

Strax frá upphafi voru erlend samskipti mikil. Það á jafnt við á félagslega sviðinu og á íþróttasviðinu. Fatlaðir íþóttamenn héðan tóku þátt í íþróttamótum á erlendum vettvangi og stóðu sig mjög vel. Til að byrja með sóttu íslensku keppendurnir mót á Norðurlöndum, en þegar fór að líða á sóttu keppendur héðan öll stórmót fyrir fatlaða íþróttamenn erlendis.

Samskiptin erlendis byrjuðu talsvert fyrir stofnun Íþróttasambands fatlaðra. Félagslega íþróttastarfið var enn í mótun erlendis og tók ÍF þátt í þeirri uppbyggingu eftir því sem það gat. ÍF tók virkan þátt í Íþróttasambandi fatlaðra á Norðurlöndum, Nord Hif, og í janúar 1983 var Sigurður Magnússon formaður ÍF kjörinn formaður norræna sambandsins. ÍF var einnig virkt í ECISOD, sem eru samtök íþróttasamtaka fatlaðra í Evrópu, í Alþjóðaíþróttasambandi fatlaðra, auk ýmissa fleiri alþjóðasamtaka[11].

 

4.4 Húsnæði Íþróttasambands fatlaðra

 

Fyrstu sjö árin sem unnið var að íþróttastarfi fatlaðra höfðu fatlaðir íþróttamenn aðstöðu á skrifstofu ÍSÍ. Þar gátu þeir notað síma og önnur tæki án endurgjalds. Fyrst eftir að Íþróttasamband fatlaðra var stofnað, hafði sambandið ekki neina fasta skrifstofu, en þó má segja að höfuðstöðvarnar hafi verið á skrifstofu Sigurðar Magnússonar í húsi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra á Háaleitisbraut 11-13, en Sigurður var framkvæmdastjóri Styrktarfélagsins auk þess að gegna líka formennsku í ÍF.

Árið 1982, þegar Markús Einarsson var ráðinn til starfa hjá ÍF, fékk skrifstofan fastan samastað, en það var eitt herbergi í húsakynnum Sambands íslenskra sveitarfélaga að Háaleitisbraut. Þar var skrifstofan til húsa fram til haustsins 1985.

Íþróttasamband fatlaðra fékk síðan húsnæði í íþróttamiðstöðinni í Laugardal, í húsakynnum Íþróttasambands Íslands í október 1985. Til að byrja með var aðstaðan fyrst á jarðhæð í húsi II en árið 1997 fékk Íþróttasamband fatlaðra aðstöðu í núverandi húsnæði í nýjasta húsi Íþróttamiðstöðvarinnar á þriðju hæð. Þar er glæsileg aðstaða fyrir hina fjölbreyttu starfsemi Íþróttasambands fatlaðra, enda hefur starfið verið umfangsmeira með árunum.[12]

 

4.5 Starfsmenn Íþróttasambands Fatlaðra

 

Í september 1981 ákvað stjórn Íþróttasambands fatlaðra að ráða starfsmann, til vinnu á skrifstofu sambandsins. Ráðinn var Markús Einarsson íþróttakennari, fyrsti framkvæmdastjóri sambandsins, í sem svaraði hálft stöðugildi og tók hann til starfa 1. september 1982.

Markús fékk árs leyfi frá störfum um haustið 1984 sökum þess að hann fór til Noregs til að stunda framhaldsnám í íþróttum fatlaðra. Þá var Ólafur Magnússon íþróttakennari ráðinn til sambandsins. Þegar Markús kom aftur frá námi, ákvað stjórn ÍF í ágústmánuði 1985 að auka starfskraftinn á skrifstofunni um helming. Þá voru Markús Einarsson og Ólafur Magnússon ráðnir og hvor um sig þá í hálft stöðugildi. Markús Einarsson var svo ráðinn í fullt starf hjá sambandinu árið 1988 en Ólafur var áfram í hálfu starfi.

Markús Einarsson lét af störfum um haustið 1990 og Ólafur Magnússon fékk árs leyfi til framhaldsnáms í íþróttastjórnun í Danmörku. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir íþróttakennari var þá ráðin í þeirra stað, en hún hafði lokið námi í íþróttastjórnun í Danmörku.

Er Ólafur kom aftur til starfa haustið 1991, var samþykkt af stjórn ÍF, að auka starfskraft sambandsins enn frekar. Árið 1992 voru því Ólafur Magnússon og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir bæði ráðin í heil stöðugildi, Ólafur sem framkvæmdastjóri og Anna Karólína sem framkvæmdastjóri íþrótta- og útbreiðslusviðs. Anna Guðrún Sigurðardóttir var ráðin til almennrar skrifstofuvinnu í hálft starf í febrúarmánuði 1996[13].

 

 

4.6 Fjármál og rekstur Íþróttasambands fatlaðra

 

Hér að neðan verða taldir upp helstu tekju- og gjaldaliðir sem tengjast Íþróttasambandi fatlaðra. Einnig verða teknar fyrir fjáröflunarleiðir og hvernig fjármálum er háttað hjá sambandinu.

 

Helstu tekjuliðir eru:

 


 

 Helstu gjaldaliðir:

·        Húsaleiga

·        Skrifstofukostnaður

·        Launakostnaður

·        Útgáfa Hvata/ Fréttabréf ÍF

·        Útbreiðsla og kynning

·        Afreksmannasjóður ÍF

·        Styrkir til aðildarfélaga

·        Þjálfunarkostnaður

·        Þátttaka í mótum erlendis

·        Innlent mótahald

·        Fundir/ráðstefnur erlendis

·        Innlend fundarhöld

·        Sérverkefni

 

 

Helstu fjármálaliðir:

       Íþróttasamband fatlaðra er ekki aðili að Ólympíufjölskyldu ÍSÍ og nýtur því ekki styrkja frá þeim né heldur frá Alþjóða ólympíuhreyfingunni (IOC) og aflar því sjálft styrktar og samstarfsaðila vegna starfsemi sinnar.

 

 


Helstu fjáröflunarleiðir

 

 

4.7 Útbreiðslu- og fræðslustörf

 

Áhersla er lögð á kynningar- og útbreiðslustarf í skólum og heilbrigðiskerfinu hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Helsta markmið kynningarstarfsins er að vekja athygli almennings á íþróttum fatlaðra. Sérstök A-leiðbeinendanámskeið eru nú orðin fastur liður í námsefni Kennaraháskóla Íslands, íþróttabraut og einnig hefur ÍF verið með kynningu á íþróttastarfinu, hjá nemendum sem eru  í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands, árlega frá 1990. Íþróttasamband fatlaðra leggur áherslu á að kynningar  verði fléttaðar  inn í nám allra þeirra sem tengjast starfi með fötluðum. Áhersla hefur verið lögð á að nemendur innan framhaldsskóla-kerfisins fengju A-leiðbeinendanámskeiðin metin til eininga. Kynningar og útbreiðslustarf teygir sig víða t.d. inn í framhaldsskóla, sérskóla, háskóla og einnig grunnskóla ef þeir óska þess að fá kynningu inn í skólann. Þegar Íþróttasamband fatlaðra heldur kynningar er alltaf fatlaður einstaklingur með og skýrir frá  reynslu sinni af  íþróttastarfinu. Þeir fötluðu einstaklingar sem fara á kynningarnar eiga allir það sameiginlegt að hafa staðið sig sérstakleg vel og því vekur mál þeirra mikla athygli. Einnig hefur ÍF haldið námskeið fyrir þjálfara og leiðbeinendur í sérstökum íþróttagreinum, til þess að einstaklingar geti aflað sér aukinnar þekkingar t.d. í sambandi við þjálfaramál fatlaðra. Nýjar íþróttagreinar hafa verið kynntar, ný tækni og ýmsir nýir möguleikar fyrir fatlaða í íþróttum. Meðal kynninga sem haldnar hafa verið, eru hjólastólakörfubolti, blindrabolti, hjólatennis, hestamennska, vetraríþróttir og siglingar.


Gott samstarf hefur verið á milli Íþróttasambands fatlaðra og endurhæfingarstofnana, en markmiðið er að nálgast einstaklinga áður en þeir útskrifast.  Íþróttasamband fatlaðra er í samstarfi við Landssamtök fatlaðra en það er mjög þýðingar mikið fyrir sambandið. Kynningarstarfið hefur einnig farið víða um landið t.d. í ýmis bæjarfélög og þá í samstarfi við heimamenn. Einnig hafa kynningar farið fram hjá einstökum aðilum, t.d. Lions- og Kiwanisklúbbum.

Í framtíðinni er áætlað að einstaklingar innan heilbrigðis- og menntakerfisins taki meiri þátt í útbreiðslustarfinu með því að hvetja fatlaða til að taka þátt í íþróttum.  Einnig hefur góður árangur fatlaðs íþróttafólks erlendis vakið athygli hjá almenningi[15].                                  

 

 

4.8 Inngangur að félögum innan Íþróttasambands fatlaðra

 

Innan Íþróttasambands fatlaðra eru starfandi 21 félag. Þau eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar um land allt. Öll þessi félög eru tekin saman hér á eftir og eru nokkrir punktar teknir saman um hvert þeirra. Frá einhverjum félögum fengust þó því miður engar upplýsingar.

 

4.8.1 Akur, Akureyri

Íþróttafélagið Akur var stofnað 7. desember 1974, en félagið hét þá íþróttafélag fatlaðra á Akureyri. Nafninu á félaginu var breytt í Íþróttafélagið Akur þann 7. maí 1988. Starfsemi félagsins er öllum opin og markmið félagsins er að stuðla að íþróttamálum fatlaðra, einnig almennrar íþróttastarfsemi og líkamsþjálfunar. Félagið býður upp á margskonar íþróttagreinar s.s. bogfimi, borðtennis, sund (liggur niðri núna) og frjálsar íþróttir, en möguleiki er að stunda skotfimi[16]. Félagið fjármagnar starfsemi sína með styrkjum frá Akureyrarbæ að því til skyldu að bærinn útvegi félaginu ekki húsnæði. Félagið nýtur einnig góðvilja einstaklinga og selur jólakort til að styðja við fjárhaginn. Núverandi formaður félagsins er Jósep Sigurjónsson en hann tók við því starfi árið 1990[17].

 

 

4.8.2 Björg

Félagið er ekki með neina starfsemi í dag en núverandi formaður er Helga Hjörleifsdóttir[18].

 

 

4.8.3 Eik, Akureyri

16. maí 1978 var íþróttafélagið Eik stofnað á Akureyri. Tilgangur félagsins er að efla útivist og íþróttir fyrir þroskahefta með æfingum, námskeiðum og keppni. Félagið hefur einnig að tilgangi að veita andlega fötluðum einstaklingum möguleika á þátttöku í íþróttum[19]. Félagið stundar æfingar í íþróttahúsinu við Laugargötu og fleiri stöðum t.d. á Bjargi og í Glerárlaug. Félagið leggur stund á ýmsar íþróttagreinar m.a. boccia, frjálsar íþróttir, sund og létta leikfimi.[20] Núverandi formaður félagsins er Haukur Þorsteinsson.

 

4.8.4 Fjörður, Hafnafirði.

Fjörður var stofnað 1. júní 1992 í Hafnarfirði og starfar þar enn. Einnig hefur það starfsemi í Garðabæ og á Álftanesi. Félagið hefur litla skrifstofu í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Fjörður býður upp á sund, boccia, og íþróttaskóla barnanna. Þjálfararnir hjá félaginu eru menntaðir íþróttakennarar og reksturinn er því einna helst launakostnaður og ferðakostnaður á mót, innanlands og utan. Tekjur koma af rekstrarstyrkjum frá sveitarfélögum og af æfingagjöldum.

Félagið stundar æfingar í sundlaugum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Boccia og íþróttaskólinn er í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Liðsmenn félagsins koma allstaðar að af höfuðborgarsvæðinu og eru iðkendur um 70 talsins á öllum aldri. Formaður þessa félags er Tómas Jónsson.[21]

 

 

 


4.8.5 Gáski, Skálatúni

Íþróttafélagið Gáski var stofnað 10. júní 1982, að Skálartúni í Mosfellsbæ. Hjá Gáska eru allir heimilismenn iðkendur en þjálfunin er einstaklingsmiðuð og því eru sumir virkari en aðrir. Hjá félaginu eru 12-14 einstaklingar sem mætti kalla keppnishóp. Gáski leggur höfuð áherslu á tvær íþróttagreinar, sund og boccia en einnig hafa frjálsar íþróttir verið stundaðar hjá félaginu. Gáski stundar æfingar í Skálatúnslaug og einnig er farið á Laugarvatn í þjálfunarbúðir hjá Íþróttasambandi fatlaðra[22]. Snorri Magnússon er núverandi formaður félagsins[23].

 

4.8.6 Gnýr, Sólheimum, Grímsnesi.

Félagið Gnýr var stofnað 30. júní 1983 og er núverandi formaður Kristján M. Ólafsson. Hjá félaginu eru c.a. 35 manns sem iðka íþróttir[24], og er þjálfunin  einstaklingsmiðuð. Gnýr leggur stund á boccia, sund, frjálsar íþróttir, en einnig hafa æfingar verið í borðtennis en þær eru ekki í gangi núna. Á Sólheimum er fullkominn tækjasalur til staðar[25].

 

4.8.7 Gróska, Sauðárkróki.

Gróska var stofnað 22. mars 1992 á Sauðárkróki en stofnfundurinn var í  Sveinsbúð, húsi björgunarsveitarinnar. Gróska er ekki einungis bundið við Sauðárkrók, heldur einnig Skagafjörð. Félagsmenn í Grósku eru 50 talsins.  Íþróttafélagið Gróska æfir einna helst boccia, en einnig er hópur sem æfir sund hjá Tindastóli og þar af leiðandi er þessi hópur ekki beint á vegum Grósku. Gróska fjármagnar starfsemina með æfingargjöldum, félagsgjöldum, sölu á jólakortum og styrk frá bænum[26]. Núverandi formaður Grósku er Salmína Tavsen.

 

4.8.8 Hlynur, Kópavogshæli.

Íþróttafélagið Hlynur er ekki með neina starfsemi í dag.[27].

 


4.8.9 Íþróttafélag Heyrnarlausra, Reykjavík

Fengum því miður ekki sendar upplýsingar frá þessu félagi.

 

 

4.8.10 Íþróttafélag fatlaðra Reykjavík

Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík var stofnað 30. maí 1974. Íþróttafélagið var fyrsta félagið fyrir fatlaða á Íslandi. En helsta markmið félagsins er að gera fötluðu fólki kleift að stunda íþróttir til æfingar og keppni. Félagið var einn af stofnaðilum Íþróttasambands fatlaðra árið 1979 og er stærsta aðildarfélag þess[28]. Félagið starfrækir sitt eigið íþróttahús en það var tekið í notkun árið 1992. Félagið býður upp á ýmsar íþróttagreinar m.a. boccia, bogfimi, borðtennis, frjálsar íþróttir, hjólastólakörfubolta, lyftingar, sund og vetraríþróttir. Einnig er félagið með íþróttaskóla ÍFR. Skráðir félagar í félagið eru um 630 en virkir félagar 358 talsins[29] eins og áður hefur komið er félagið stærsta félagið innan Íþróttasambands fatlaðra. Núverandi formaður félagsins er Júlíus Arnarsson.

 

4.8.11 Íþróttafélagið Ívar, Ísafirði

Íþróttafélagið Ívar var stofnað 12 mars 1988. Það hét þá íþróttafélag fatlaðra á Ísafirði og nágrenni. En vorið 1991 var nafninu breytt í Ívar eftir fötluðum félaga sem var nýlega látin[30]. Félagið býður upp á nokkrar íþróttagreinar þ.e.a.s. sund, boccia og borðtennis. Félagið á einnig skíðasleða en vegna snjóleysis er ekki hægt að nýta hann. Reksturinn hjá félaginu er fjármagnaður með fjáröflunum og styrkjum. Það eru 20 einstaklingar sem æfa hjá Ívari[31].

 

4.8.12 Kveldúlfur, Borgarnesi

Kveldúlfur var stofnað 23. nóvember, 1992. Félagið er lítið en í því eru 36-38 félagsmenn. Helstu greinar sem stundaðar eru innan þess eru boccia og frjálsar íþróttir. Félagið stendur nokkuð vel en það borgar fyrir félagsmenn á öll mót. Kveldúlfur selur jólakort frá Íþróttasambandi fatlaðra til að fá inn tekjur. Einnig safnar félagið styrkjum frá fyrirtækjum í bænum og er tilgangurinn með því núna að safna fyrir ferð fyrir einn þátttakanda í félaginu sem er að fara á Special Olympics á Írlandi í júní á þessu ári. Félagið hefur aðstöðu í íþróttahúsi bæjarins en það er einungis 1. klukkustund á viku. þátttakendur í félaginu eru átta, þ.e.a.s. átta karlmenn. Formaður þessa félags er Axel Vatnsdal.[32]

 

4.8.13 Snerpa, Siglufirði.

Fengum því miður við ekki sendar upplýsingar frá þessu félagi.

 

4.8.14 Suðri, Selfossi.

Suðri var stofnað 22. febrúar 1986. Starfsemi félagsins snýst að mestu um að halda úti æfingum og taka þátt í keppni á vegum Íþróttasambands fatlaðra. Fimm manna stjórn heldur utan um starfið og tveir þjálfarar eru við störf. Annar þjálfarinn þjálfar boccia, en hinn frjálsar íþróttir og stundum knattspyrnu ofl. Auk þess sækja félagar í þessu félagi æfingar í sundi hjá sunddeild Umf. Selfoss. Rekstur félagsins gengur ágætlega. Helstu gjöld eru þjálfunarlaun en eru þau þó ekki mikil. Helstu tekjur eru styrkir frá Árborg, jólakortasala, vaxtatekjur (eiga ágætan sjóð) og lottótekjur.

Æfingaaðstaðan eru tveir litlir íþróttasalir sem félagið fær frí afnot af frá bænum, Árborg. Félagar eru um 20 sem sækja æfingar reglulega. Formaður þessa félags er Svanur Ingvarsson.[33]

 

4.8.15 Tjaldur, Tjaldanesi.

Íþróttafélagið Tjaldur er ekki með neina starfsemi í dag.

 

4.8.16 Viljinn, Seyðisfirði.

Félagið Viljinn var stofnað 29. maí, 1985. Viljinn er frekar lítið félag. Félagið hefur jólamót í boccia og þá koma saman fjölskyldur og einstaklingar frá fyrirtækjum. Boccia hefur verið í æft síðustu 2-3 ár hjá félaginu en þrjú ár eru liðin síðan að frjálsar íþróttir lögðust niður hjá þeim.

Félagið sendir þátttakendur á eitt bocciamót á ári. Það hefur sína fasta félagsmenn sem borga árgjöld. Lionsfélagið er styrktaraðili félagsins og þeir sem eru  félagar í því félagi, ganga sjálfkrafa inn í Viljann. Jólamótið sem talað er um hér að ofan er haldið í íþróttasal bæjarins, en félagið fær hann þá leigulausan. Einu sinni á ári hefur félagið Sólarkaffi, eins og það kallast, en þá taka konur sig til í bænum og baka kökur og annað góðgæti. Ágóðan af þeirri sölu fær Viljinn.

Félagið hefur aðstöðu í íþróttahúsinu í bænum en þar er frábær aðstaða. Í íþróttahúsinu eru fjórir bocciavellir sem koma að góðum notum. Þátttakendur í félaginu eru fjórir strákar. Unnur Óskarsdóttir, formaður þessa félags, segir að einnig komi Lionsmenn á staðnum og 10-11 ára strákar úr skólanum á æfingar hjá þeim.[34]

 

4.8.17 Örvar, Egilsstöðum.

Örvar var stofnað 8. mars 1985. Nokkrar greinar eru stundaðar innan þessa félags. Þær eru boccia, skíði og reiðkennsla. Íþróttafélagið Örvar, hefur hestaleigu þar sem það fær hnakka til afnota. Félagið selur penna og jólakort, en félagsgjöld eru lítil. Karlakór á staðnum heldur af og til skemmtun í bænum og ágóði af þeirri skemmtun fær félagið. Einnig fær félagið styrki frá Sveitarfélaginu. Örvar hefur íþróttahúsið í bænum til afnota. Í félaginu eru 9-12 þátttakendur frá fjórum sveitarfélögum. Formaður þessa félags er Sóley Guðmundsdóttir.[35]

 

4.8.18 Þjótur, Akranesi.

Þjótur var stofnað 8. nóvember 1992. Félagið heldur úti æfingum 6x í viku. Þátttakendur í félaginu sækja öll mót sem Íþróttasamband fatlaðra er með. Eitt mót er á ári, Lionsmót en þá er sveitakeppni í boccia. Þjótur, býður þá öðrum félögum á mótið, t.d. félaginu Ösp í Reykjavík, félaginu Gáska á Skálatúni og fleiri félögum.

Boccia er 2x í viku en í því eru flestir. 3x í viku eru sundæfingar og 1x í viku eru frjálsar íþróttir. Yngstu börnin sem fædd eru á tímabilinu 1995-1998 koma í sund, en í þeim hópi eru 6-8 börn. Fyrir þann aldurshóp er sund 1x í viku. Annars er aldursdreifingin frá þriggja ára aldri og upp í fimmtán ára.

Í stjórn Þjóts eru fimm manns og tveir í varastjórn. Félagið selur jólakort og hefur það sótt styrki til bæjaryfirvalda og fær það einn styrk árlega. Þjótur er með félagsgjöld en félagið þarf að borga allan þjálfunarkostnað. Þjótur hefur aðstöðu í íþróttahúsinu við Vesturgötu í bænum og einnig í Bjarnarlaug, en sú sundlaug er innilaug. Um 30 þátttakendur eru í félaginu yfir heildina. Formaður félagsins er Ólöf Guðmundsdóttir.[36]

4.8.19 Bocciadeild Völsungs, Húsavík

Starf deildarinnar hefur verið t.d. þátttaka á Íslandsmótum,Norðurlandsmótum, árlegu Hængsmóti á Akureyri, Þórðarmóti þeirra Kiwanismanna á Húsavík, og að standa fyrir Opna Húsavíkurmótinu, sem er opið öllum bæjarbúum. Einnig hafa félagar úr deildinni verið valdir til keppni á stórmótum erlendis fyrir Íþróttasamband fatlaðra. Tilgangurinn með Húsavíkurmótinu í Boccia er bæði fjáröflun fyrir deildina og að kynna starfið og íþróttina.

Eins og nafnið gefur til kynna er eingöngu boccia stundað í þessari deild. Allt frá stofnun deildarinnar hefur Kiwanisklúbburinn Skjálfandi verið traustur bakhjarl, og veitt deildinni fjárhagslegan stuðning, aðstoðað við öll mót og staðið árlega að Þórðarmótinu í boccia, og hefur þessi stuðningur verið íþróttafólkinu ómetanlegur. Bocciadeildinni er ávallt vel tekið og nýtur velvildar, og gott dæmi um það er að á síðustu æfingu fyrir Norðurlandsmótið mætti Hannes Höskuldsson frá Skipaafgreiðslu Húsavíkur færandi hendi og gaf öllum liðsmönnum í flokki fatlaðra, ásamt aðstoðarfólki, glæsilegar keppnisflíspeysur af vönduðustu gerð. Félagar þessarar deildar hafa gengið í hús og selt jólakort Íþróttafélags fatlaðra, til stuðnings starfinu, og einnig hefur verið seldur sérstakur jólageisladiskur til stuðnings íþróttastarfinu. Árið 2001 var fjöldi félaga um 40 manns. Formenn félagsins eru Bragi Sigurðsson og Egill Olgeirsson.[37]

 

4.8.20 Íþróttadeild fatlaðra í Snæfellsbæ (Snæfellsbær og Grundarfjörður)

Íþróttadeildin Sól í Snæfellsbæ hefur starfað í tæp tvö ár. Það var vegna beiðni frá Íþróttasambandi fatlaðra sem farið var út í að hefja skipulagðar æfingar fyrir fatlaða í Snæfellsbæ og Grundarfirði.

Sigríður Margrét Vigfúsdóttir, sem er utan skóla nemi á þroskaþjálfabraut við KHÍ, á öðru ári, tók að sér að vera tengiliður við Íþróttasamband fatlaðra og er því formaður fyrir félagið. Sigríður Þórarinsdóttir, sjúkraþjálfari var ráðin þjálfari hjá deildinni.

Íþróttadeildin Sól í Snæfellsbæ er ekki eiginlegt félag heldur deild innan íþróttafélaganna í Snæfellsbæ sem eru í samstarfi við Víking í Ólafsvík og við Reyni á Hellissandi. Þau starfa undir nafninu Víkingur og Reynir. Íþróttadeildin þeirra fékk hinsvegar nafnið Sól.

Íþróttadeildin hefur sent einn einstakling á mót í frjálsum íþróttum en hann keppir í hlaupi og langstökki án atrennu. Vonast er til að geta sent fleiri á mót í framtíðinni. Reynir og Víkingur sjá um að rukka æfingargjöld og borga þjálfara laun. Íþróttadeildin Sól er hinsvegar með sér sjóð sem er einna helst ágóði af sölu jólakorta. Aðstaða hefur verið í  íþróttahúsi Snæfellsbæjar og í  Ólafsvík.

Íþróttadeildin er með 7 skráða félaga á aldrinum 5-16 ára. Þetta er mjög breiður hópur og eru æfingarnar því einna helst miðaðar við það að allir fái hreyfingu og hafi gaman af. Æfingarnar eru einu sinni í viku og þá klukkutíma í senn, tveir af félögunum taka einnig þátt í íþróttastarfi hjá Víkingi/Reyni. Jón Oddur Halldórsson, íþróttamaður úr röðum fatlaðra er frá íþróttafélaginu Reyni á Hellissandi og hefur keppt fyrir hönd þess félags. Íþróttadeildin Sól í Snæfellsbæ er mjög stolt af honum og telja hann góða fyrirmynd fyrir félaga sína. Formaður þessa félags er Sigríður Margrét Vigfúsdóttir.[38]

 

4.8.21 Íþróttafélagið Ösp, Reykjavík

Ösp var stofnað 18. maí, 1980. Félagið er með aðstöðu að Bogahlíð 18, þar sem skrifstofa félagsins er. Hjá félaginu starfa 16 þjálfarar og aðstoðarfólk. Félagið er með æfingar í 9 íþróttagreinum. Þær eru sund, frjálsar íþróttir, lyftingar, fótbolti og hokkí, keila, borðtennis, boccia, fimleikar og boltaleikir.

Íþróttagreinarnar eru stundaðar á tíu stöðum í bænum. Staðirnir eru eftirfarandi:

Hjá félaginu stunda 140 manns æfingar, sá yngsti er fæddur 1999 og sá elsti árið 1938. Allir geta verið með í einhverju starfi hjá félaginu. Formaður þessa félags er Ólafur Ólafsson.[39]

 

4.8.22 Íþróttadeild fatlaðra í Stykkishólmi

Stutt  er síðan þetta félag var stofnað. Starfsemi félagsins er mjög lítil en það hafa eingöngu verið æfingatímar hjá því. Engar sérstakar íþróttir eru æfðar hjá félaginu, heldur prófar félagið sig áfram. Ástæðan er sú að þau börn sem búa í bænum eru á misjöfnu reki, en engin er þó fjölfatlaður. Þau börn sem búa á staðnum og sækja æfingar hjá íþróttadeildinni hafa ýmist downsheilkenni, ADH-einkenni með ofvirkni, vantar stúf á eina hendi og síðan er Will-Prater.

Íþróttadeild fatlaðra í Stykkishólmi er deild innan Snæfells og fær deildin tekjur með því að selja jólakort og sitthvað fleira. Æfingarnar eru einu sinni í viku. Þátttakendur eru um 8 talsins. Tveir þátttakendur hafa farið í frjálsar og tekið þátt í mótum. Formaður þessa félags er Helga Björg Marteinsdóttir.[40]

 

4.8.23 Ægir, Vestmannaeyjum

Ægir var stofnað 12. desember, 1988. Starfsemi félagsins er ekki mikil þessa stundina. Í dag eru tvær íþróttagreinar æfðar hjá félaginu. Allir iðkendur, tveir strákar og fjórar stelpur, æfa boccia. Strákarnir æfa einnig báðir sund. Annar þeirra vann til verðlauna í sundi á Ólympíuleikum fatlaðra í Atlanta í USA.

Tekjur er ekki miklar. Félagið fær styrki frá Vestmannaeyjabæ, það selur jólakort íþróttasambands fatlaðra og fær styrki frá félagasamtökum í bænum. Þetta rétt dugar fyrir rekstrinum hjá þeim sem er þó ekki mikill. Félagið borgar einum þjálfara smá laun, en annars er hann í meira starfi hjá sunddeild ÍBV. Einnig borgar félagið kostnað sem felst í tveimur ferðum á ári, Íslandsmóti fatlaðra í sundi og boccia. Sundæfingar fara fram í sundlauginni í bænum og boccia er æft í Týsheimilinu. Sami þjálfarinn þjálfar báðar greinarnar hjá Ægi.

Félagið er að reyna að koma af stað sundnámskeiði fyrir fötluð börn. Það er bæði gert til þess að kenna börnum sund og einnig til þess að fjölga hjá sér iðkendum. Formaður félagsins er Aðalsteinn Baldursson.[41]

4.8.24 Nes, Suðurnesjum

Nes var stofnað 17. nóvember 1991. Mikið hefur verið um að vera hjá félaginu og hefur starfsemin aukist undanfarin ár. Íþróttadagur er alltaf haldin einu sinni á ári og er þá íþróttahúsið við Sunnubraut pantað til þess. Á þessum degi er innanfélagsmót í boccia, einstaklingskeppni og fyrirtækja- og hópakeppni (sveitakeppni). Starfsemi  félagsins hefur verið mjög áberandi á Suðurnesjum og á öllu landinu. Hafa félög á landsvísu leitað í þeirra smiðju um upplýsingar og fjáröflunarleiðir.

Þær íþróttir sem stundaðar hafa verið hjá félaginu eru boccia, sund, bogfimi, borðtennis, frjálsar íþróttir, knattspyrna, lyftingar, golf, knattþrautir og hinir ýmsu leikir.

Á árinu 2002 höfðu sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök, klúbbar og einstaklingar verið félaginu mjög velviljug með þeirra framlagi. Þroskahjálp á Suðurnesjum hefur einnig stutt félagið mikið í gegnum árin og var hún einn af frumkvöðlum í stofnun NES. Félagið hefur einnig haft mjög gott samstarf við Íþróttasamband fatlaðra, við Íþróttabandalag Reykjanesbæjar og Tómstunda- og íþróttaráð Reykjanesbæjar. Fjáraflanir hafa gengið ágætlega hjá félaginu og er kaffisalan ávallt í góðum farvegi, einnig hefur almanak félagsins fundið sér fastan sess sem fjáröflun. Félagið hefur einnig verið að selja jólakort. Hér má geta þess að allir iðkendur fá eitthvað fyrir að sinna fjáröflun. Þeir sem gera síðan 1X2 getraunir geta styrkt starfsemi Nes og merkt við 234 á seðlinum. Þess má geta að undanfarin sex ár hafa iðkendur hjá Nes alltaf fengið afmælisgjafir frá félaginu og hefur það fengið mjög góðar undirtektir.

Æfingar hjá félaginu hafa farið fram í glæsilegri aðstöðu í íþróttamiðstöð Heiðarskóla með góðum íþróttasal og sundlaug. Einnig hefur félagið verið með æfingar 2x í viku í boccia í Grindavík. Á árinu 2002 voru hátt í 60 iðkendur sem stunduðu æfingar hjá félaginu og voru þeir frá öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Formaður þessa félags er Gísli Jóhannsson.[42]

 

 


4.9 Samantekt úr félögum sem eru innan Íþróttasambands fatlaðra

 

Eins og fyrr segir eru þau 21 félag starfandi innan ÍF. en ekki fengust upplýsingar frá öllum félögunum. Félögin eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu og víðs vegar um landið.

Öll þessi félög voru stofnuð á mjög mismunandi tíma. Það elsta var stofnað 30.maí 1974 en þá tók íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík til starfa. Yngsta félagið er hinsvegar Kveldúlfur, á Borgarnesi en það var stofnað 23. nóvember, 1992.

Starfsemi allra þessara félaga er mjög misjöfn en sum þeirra eru lítil og fer eftir því hvar þessi félög eru staðsett. Félagið Kveldúlfur sem er á Borgarnesi og Viljinn, á Seyðisfirði eru t.d. lítil félög. Hjá Kveldúlfi eru átta þátttakendur en hjá Viljanum eru einungis fjórir þátttakendur. Fjölmennasta félagið er íþróttafélag fatlaðra, Reykjavík en í því eru um 630 skráðir félagar en virkir félagar 358 talsins.

Margar og ólíkar greinar eru stundaðar hjá félögunum en sum félögin eru þó með sömu íþróttagreinarnar. Hjá flestum félögum er stundað boccia og sundið kemur einnig við sögu hjá mörgum þeirra. Íþróttafélagið Ösp, í Reykjavík er stórt félag og hefur félagið verið með æfingar t.d. í níu íþróttagreinum. Þær eru sund, frjálsar íþróttir, lyftingar, fótbolti og hokkí, keila, borðtennis, boccia, fimleikar og boltaleikir. Þar að auki eru allar þessar íþróttagreinar stundaðar á tíu stöðum í bænum.

Rekstur þessara félaga er misjafn að upplagi/umfangi. Það eru nokkur félög sem eru starfandi úti á landi sem fá styrki frá sínum heimabæ. Einnig er algengt að félög séu með einhver æfinga- og félagsgjöld. Flest félögin selja jólakort frá Íþróttasambandi fatlaðra til að fá einhverjar tekjur.

Æfingaaðstaða félaganna er mjög breytileg. Ösp, í Reykjavík virðist hafa mjög góða aðstöðu þar sem hún eru með æfingar í íþróttagreinum á tíu stöðum í bænum, eins og fyrr segir. Einnig hefur íþróttafélag fatlaðra Reykjavík góða aðstöðu þ.e.a.s sitt eigið íþróttahús, en það er staðsett niður í Hátúni.  Önnur félög hafa ekki eins góða aðstöðu, eins og mörg lítil félög úti á landi. Félagið Kveldúlfur á Borgarnesi hefur t.d. bara aðstöðu í íþróttahúsi bæjarins og er það þá einungis ein klukkustund í viku.


5 Íþóttahús fatlaðra Hátúni

Árið 1980 hafði starfsemi Íþróttasambands fatlaðra í Reykjavík dafnað vel og vaxið mikið. Í kjölfar þess byrjaði umræða um að eignast eigið íþróttahús og árið 1982 var tekin sú ákvörðun um að byggja íþróttahús. Framkvæmdir hófust ári síðar en þær stöðvuðust árið 1984 vegna fjárskorts. Fatlaðir íþróttamenn stóðu sig vel á Ólympíumóti í Seul árið 1988 og ýtti sá árangur við almenningi. Í kjölfar þess hóf Rás tvö fjáröflun til styrktar byggingu íþróttahússins. Þessi fjáröflun varð til þess að framkvæmdir við húsið hófust aftur í apríl 1989. Ári seinna var annarri fjáröflun hrundið af stað og markmiðið með henni var að taka bygginguna í notkun árið 1991. Einnig lögðu mörg fyrirtæki og einkaaðilar hönd á plóginn, ýmist með því að selja vörur á afslætti, vinnu og einnig fjárstyrki. Árið 1990 lagði Frú Vigdís Finnbogadóttir hornstein að húsinu og árið 1992 var húsið tekið formlega í notkun. Íþróttahúsið er 1.250 fermetrar, aðal íþróttasalur hússins er 18 x 32 metrar, auk þess er minni salur fyrir lyftinga- og þrekþjálfun. Félaga-álman er með fundarsal fyrir um 80 manns, eldhúsi og herbergi fyrir stjórn og nefndir. ÍFR er eina félagið sinnar tegundar á Norðurlöndum sem á sitt eigið íþróttahús[43].

            Ákveðið var að taka Þórð Ólafsson rekstrarstjóra íþróttahússins tali og spyrja hann um starfsemina sem þar fer fram, og rekstur íþróttahússins.

5.1 Viðtal við Þórð Ólafsson, mars 2003.

 

1. Hvenær var húsið tekið í notkun og hverjir stóðu að byggingu þess?

Húsið var tekið í notkun 1991 og þeir sem stóðu að byggingu þess var fyrst og fremst Íþróttafélag fatlaðra. Húsið er byggt með fjármögnun frá ríkinu, en það var fyrst og fremst Íþróttafélag fatlaðra sem stóð að byggingu hússins.

 

2. Hvaða starfsemi fer fram í íþróttahúsi fatlaðra í Hátúni?

Almenn íþróttastarfssemi, fyrst og fremst, félagið hefur sína aðstöðu, og síðan leigja tveir grunnskólar aðstöðu fyrir íþróttakennslu. Einnig leigjum við út til almennings fyrir ýmsa íþróttastarfsemi og hjarta- og lungnastöðinni.


3. Hvernig er starfsemin fjármögnuð?

Starfsemi hússins er eingöngu fjármögnuð með leigutekjum.

4. Hvernig nýtist húsið?

Það nýtist nokkuð vel, miðað við að hægt sé að leigja það út frá kl.8 á morgnanna til kl.24 á kvöldin, þá erum við með um 90% nýtingu.

 

5. Hafa fatlaðir forgang í að nýta húsið?

Íþróttafélag fatlaðra hefur forgang að tímum, og við tökum frá þá tíma sem að við erum með undir okkar starfsemi og þeir tímar sem eru eftir eru leigðir út.

6.  Hversu mikið er húsið leigt út?

Það er mjög erfitt að dæma það í prósentum, því félagið er með um 40-50% af tímunum, einnig notar Öskjuhlíðarskóli húsið, sem eru fatlaðir, og hjarta- og lungnastöðin er með tíma fyrir þá sem eru nýkomnir úr hjarta- eða lungnaaðgerðum. Þessi starfsemi er um 70%.

 

7. Er húsið orðið of lítið? Er kannski þörf að byggja annað hús?

Ekki fyrir íþróttastarf fatlaðra, það eina sem þyrfti að gera er að stækka rými, geymslur og annað slíkt. En sem íþróttasalur og íþróttahús þá stenst það nær allar þær kröfur sem gerðar eru til þess.

 

8. Hvernig eru aðstæður fyrir fatlaða íþróttamenn í húsinu?

Mjög góð, húsið er byggt með tilliti til fatlaðra. Allt aðgengi og annað slíkt er gert með tilliti til fatlaðra. Þar má nefna að gólfið í íþróttasalnum er gert sérstaklega, það er með sérstakri mýkt það er mýkra heldur en öll venjuleg íþróttagólf.

 

9. Hvaða íþróttagrein stunda flestir sem nýta húsið?

Ætli það sé ekki flestir sem eru í boccia og borðtennis. Þetta eru þær íþróttagreinar sem eru fjölmennastar.

 

10. Hvað eru margir starfsmenn og í hvað mörgum stöðugildum?

Starfsmenn við íþróttahúsið eru fjórir og stöðugildin eru 3,6.

11. Hver er framtíðarsýn þín á starfsemi hússins?

Ég tel að starfsemi hússins eigi eftir að sanna sig miklu betur, það er búið að vera starfrækt í 10 ár og hefur orðið til þess að viðhalda og efla íþróttastarf á höfuðborgarsvæðinu og á landinu öllu, það er ekki bara félög í Reykjavík sem æfa hér heldur hafa æft hér félagar úr íþróttafélaginu frá Akureyri og Keflavík, þannig að íþróttahúsið á að geta nýst öllum fötluðum íþróttamönnum á landinu[44].

 

 

 

5.2 Samantekt úr viðtali við Þórð Ólafsson

 

Eftir að hafa rætt við Þórð rekstrarstjóra hússins kom ýmislegt í ljós tengt starfsemi íþóttahússins. Þórður sagði að húsið væri búið að vera starfrækt í 10 ár og það væri rekið fyrir leigutekjur. En húsið er leigt til ýmissa hópa t.d. hjarta og lungnastöðinni. Þórður kom einnig inná að fatlaðir íþróttamenn hefðu forgang í að nýta húsið þ.e.a.s félagið lætur vita hvaða tíma þeim líst best á, en sá tími er afgangs verður er leigður út.

Einnig kom fram að aðstæður í húsinu væru mjög góðar fyrir fatlaða íþróttamenn sbr. spurning 8. Þórður taldi ekki þörf á því að byggja annað hús eins og er þar sem íþróttahúsið stenst nær allar þær kröfur sem gerðar eru til hússins. Þeir sem nýta húsið stunda flestir boccia og borðtennis. Það er því ljóst að íþróttahúsið nýtist vel fyrir fatlaða sem er mjög jákvætt.

             

 

 

 

 

 


6 Inngangur að viðtölum við þjálfara

 

Tekin voru viðtöl við tvo þjálfara, þá Júlíus Arnarsson íþróttakennara en hann er formaður Íþróttafélags fatlaðra Reykjavík og Erling Jóhannsson íþróttafulltrúa Reykjavíkur.

 

6.1 Viðtal við Júlíus Arnarsson, mars 2003.

 

1. Hvað ert þú búinn að þjálfa í mörg ár?

Ég útskrifaðist  sem íþróttakennari 1967, og byrjaði að kenna í kjölfarið við skóla og þjálfa knattspyrnu og handbolta. Árið 1974 gerði ég svo samning við Íþróttasamband fatlaðra um að vera hjá þeim og þjálfa fatlaða, var það eftir að ég var  á námskeiði sem ÍSÍ hélt.

Hefur þú starfað þar síðan?

Nú síðan hef ég haldið áfram kennslunni í skólum og tók svo tveggja ára frí og fór í norska Íþróttakennaraháskólann. Þar var mín aðalgrein, íþróttir fatlaðra og að öðru leyti hefur þetta verið samfelld kennsla og þjálfun.

 

2. Ert þú ánægður með fjölda tíma sem þau fá?

Maður er aldrei ánægður með tímana, vegna þess að þeir eru af skornum skammti  vegna fjölda þátttakenda . Þeir þurfa að vera fleiri.

 

3. Eru launin sambærileg við launin hjá þeim sem þjálfa ófatlaða?

Ef satt skal segja eru þau ekki sambærileg miðað við kennslu í skólum.

Er mikill munur á launum?

Svolítið erfitt að gera sér grein fyrir þessu vegna þess að þetta var þannig hjá okkur, að vinnan var bæði í sjálfboðavinnu og ef maður ætti að reikna sér tímakaup með þá  eru launin léleg.


Er þá megin uppistaðan sjálfboðavinna?

Kannski ekki megin uppistaðan en maður eyðir jafnmörgum tímum í sjálfboðavinnu og kennslu. Af því leyti eru launin lág. En við getum sagt sem svo að launin séu kannski, ef litið er bara á sjálfa kennslu tímana, þá séu launin sambærileg og við skóla. En ef miðað er við hin frjálsa markað í þjálfun á ófötluðum þá er þetta náttúrulega  mjög lélegt.

 

4. Hvernig er menntun þjálfara háttað?                                                  

Flestir eru með íþróttakennaramenntun. Svo þarf maður að fara á námskeið og ég tala nú ekki um að fara í tveggja ára nám eins og ég gerði til útlanda. Það eru eins til tveggja ára nám sem hægt er að sækja úti eingöngu í íþróttum fatlaðra.

 

5. Gera fjölmiðlar íþróttum fatlaðra góð skil, t.d. sjónvarpið og blöðin?

 Mér finnst þeir gera þeim nokkuð góð skil, miðað við það að allar greinar æmta og skrækja yfir því að fjölmiðlar koma ekki til þeirra. Miðað við það, þá hafa þeir gert íþróttum fatlaðra bara góð skil. En okkur finnst aldrei nógu mikið að gert.

 

6. Hvernig er aldursdreifing þátttakenda?

Já, ég er til dæmis mikið með börn og unglinga, þannig að við höfum verið með allt niður í 4 ára, 4-5 ára ef að þetta eru stórir og þroskaðir krakkar sem hafa fengið að vera með. En stundum hafa þau hætt og komið seinna.

 

7. Hvernig er kynjaskiptingin hjá ykkur?

Kynjaskiptingin hjá mér, sem er með misþroska börn er frekar ójöfn. Það eru mikið fleiri strákar sem tilheyra þessum hópi heldur en stúlkur. Þannig að yfirleitt er ég með fleiri stráka.

 

8. Upp á hvaða íþróttagreinar bjóðið þið?

Við bjóðum uppá hefðbundnar íþróttgreinar, hjá okkur eru sund, boccia, lyftingar og svo erum við með bogfimi.


9. Hvaða íþróttagrein stunda flestir hjá ykkur?

Flestir eru í sundi og boccia, aðeins minna í bogfimi og lyftingum.

 

10. Hversu margir leggja stund á íþróttir hjá ykkur?

Þetta er svolítið öðruvísi hjá okkur en hjá öðrum íþróttafélögum, þar sem þetta er sérstakt íþróttafélag fyrir fatlaða sem er kannski einstakt. Þá eru færri hjá okkur en í öðrum félögum. En samt sem áður, þá finnst okkur vera vel mannað í allar þessar greinar.

 

11. Hvernig er kynningarmálum háttað hjá ykkur? 

Þegar félagið á afmæli og yfirleitt á 5-10 ára fresti er gefið út veglegt afmælisrit og svo flýgur út fiskisagan þegar einhver er heima og lætur sér leiðast, þá kemur yfirleitt upp sú hugmynd að það geti verið hægt að láta viðkomandi einstakling, þó fatlaður sé gera eitthvað, finna eitthvað tómstundagaman. Þannig kynnist fólkið íþróttafélaginu. Í sambandi við misþroska börnin, er sérstakur félagsskapur  í kringum þau. Sem er foreldrafélag misþroska barna. Það er gott samband okkar á milli, og svo fyrst og fremst í gegnum íþróttirnar. Besta auglýsingin er sú að einstaklingar innan Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík, hafa orðið ólympíumeistarar mjög oft og heimsmeistarar og eiga heimsmet.

 

12. Hvernig fáið þið fólk inn í þessa tíma?

Gefið er út fréttabréf og menn koma hingað á aðalfund einu sinni á ári, svo reynum við að hafa skemmtikvöld, skemmtidag og íþróttadag. Þannig að fólkið kynnist þessu, þá getur það prófað allar greinar og valið sér grein. Þannig kemst fólkið inn í þetta. Íþróttadagurinn er einu sinni á ári og einnig höldum við aðalfund árlega.

 


6.2 Viðtal við Erling Jóhannsson, mars 2003.

 

1. Hvað ert þú búinn að þjálfa í mörg ár?

Það fer nú eftir því hvernig við lítum á það, því að ég er búinn að þjálfa nokkurn veginn óslitið, þó svona mis mikið, alveg frá árinu 1979. En þar áður við þjálfun hjá almennu félagi í 10 ár. Ég er búinn að þjálfa meira og minna fatlaða síðan 1979.

 

2. Ert þú ánægður með fjölda tíma sem þau fá?

Nú er það hér að við erum að tala um sundið og aðstæður sem við höfum í Reykjavík, það er ágæt aðstaða fyrir byrjendur. En við erum í vandræðum um leið og við erum komnir með getumeira fólk. Við höfum verið að senda það, skársta af því, þ.e.a.s. í hin almennu félög. Það hefur svo sem gengið ágætlega en við vildum gjarnan hafa betri aðstöðu fyrir þá sem eru langt komnir með þjálfun.

 

3. Eru launin sambærileg við launin hjá þeim sem þjálfa ófatlaða?

Þetta er vond spurning. Ég hef á þessum tuttugu og fimm árum, sem ég hef þjálfað, verið sem launaður þjálfari í fjögur ár til fimm ár. Þetta er meirihlutinn allt saman sjálfboðavinna, stærsti hlutinn af þessu. En það er ekki þar með sagt að það séu ekki launaðir þjálfarar að störfum líka.

 

4. Hvernig er menntun þjálfara háttað?

Það er engin sérstök menntun fyrir þjálfara hjá fötluðum, nema menn hafi verið á sérstökum námskeiðum þegar boðið hefur verið upp á það og fengið erlenda fyrirlesara með reynslu. Meirihlutinn er nokkuð mikið sjálfsnám, maður les sér til um þá hluti sem maður er að vinna það háð hverri tegund á fötlunum. Síðan eru menn fyrst og fremst að koma í þetta sem hafa lokið íþróttaskólaprófi eða kennaraháskólaprófi og menn sem hafa verið að vinna í almennri þjálfun hafa tekið þetta að sér.

 

 


5. Gera fjölmiðlar íþróttum fatlaðra góð skil, t.d. sjónvarpið og blöðin?

Já, miðað við það sem gerist erlendis, getum við verið tiltölulega ánægð en auðvitað viljum við meira. Það er bara barnanna vegna, börnin vilja að eftir þeim sé tekið ef þau gera vel. En við getum verið tiltölulega sátt miðað við þar sem við erum að fara erlendis, við getum verið tiltölulega sátt en vinsamlega mundum við vilja fá meiri umfjöllun.

 

6. Hvernig er aldursdreifing þátttakenda?

Ef við tökum það félag sem ég er að vinna við þjálfun í dag, þá er aldursdreifingin alveg frá 4 til  5 ára og er elsti keppandinn hjá okkur upp undir þrítugt. Stór hluti er á þessum táningsaldri eða unglingsaldri alveg frá 12. ára upp í 18/19. ára. Síðan erum við farnir að byrja með þjálfun alveg niðri í 4-6 ára aldur. Töluverður fjöldi af þeim eru þó nokkur börn sem eru núna 5, 6 og 7. ára. En það er ekki íþróttaþjálfun sem slík, heldur meiri kennsla og fer eftir því hvar barnið er hverju sinni.

 

7. Hvernig er kynjaskiptingin hjá ykkur

Töluvert jöfn, hún er ótrúlega jöfn. Þó líklega fleiri stelpur að æfa, ívið fleiri, ætli það sé ekki 60% eða nálægt því en hún er nokkuð jöfn. Þó vilja stelpurnar detta út eins og í öðrum íþróttum, strax þegar þær eru orðnar 14, 15 og 16. ára. Þá eru önnur áhugaefni að taka við, þetta er bara eins og í öðrum íþróttum.

 

8. Upp á hvaða íþróttagreinar bjóðið þið?

Núna er ég aðallega með sundið, en hitt er annað mál að það er boðið upp á miklu fleiri keppnisíþróttar. Það er boðið upp á sund, frjálsar íþróttir,  boccia, það er bogfimi, borðtennis og lyftingar. Þetta eru megin íþróttagreinarnar. Fjölmennasta íþróttin er boccia, enda meira svona félagslegur leikur heldur en einhver þjálfun.

 

9. Hvernig eru kynningarmálum háttað hjá ykkur?

Íþróttasamband Íslands hefur starfrækt heilmikið kynningar- og greiningarmál, þannig lagað er það í all góðu horfi. Það eru kynningar í framhaldsskólum og í menntaskólum. Hitt er annað mál að ÍF stendur fyrir töluverðum kynningum, eins og ég segi í framhaldsskólum og þar sem óskað er eftir í ýmsum félögum og stofnunum og sendir út fréttatilkynningar um það sem er að gerast í blöðum og útvarpi og allt það. Þannig að það er í svona þokkalegu horfi. Við setjum aftur á móti ekki mikla fjármuni sérstaklega í kynningar en við reynum að koma þessu á framfæri eins og mögulegt er, sérstaklega komum við með kynningar í skólum, í menntaskólum, í framhaldsskólum, í sérskólum.

 

10. Hvernig fáið þið fólk inn í þessa tíma?

Þetta virðist nú vera mest hvað varðar unga fólkið. Þetta virðist mest gerast í gegnum kunningjaskap, í sjúkraþjálfun, í skólanum þar sem þau eru oft sett í sérdeildir, eins og er í Borgarholtsskóla þar sem er sérbúnaður fyrir fatlaða í Menntaskólanum við Hamrahlíð,  í Hlíðaskólanum þar sem er sérbúinn deild fyrir hjólastóla og fyrir blinda, þannig að þetta er farið að dreifast meira á skólanna heldur en var. En það virðist gerast töluvert í samtökum foreldra fyrir þá  eins og spastískra barna eða mænuskaðaðra. Þannig að það virðist smitast mest út frá sér með þeim hætti.

Síðan er það náttúrulega góður árangur okkar fólks erlendis á stórum mótum. Þar hafa fjölmiðlar staðið sig mjög vel, á ólympíumótum, eins á heimsmeistaramótum og fl. mótum hafa þeir skilað því mjög vel og auðvitað verður til þess að krakkarnir fá áhuga á þessu. Fjölmiðlar hér íslenskir hafa staðið sig mjög vel í þeim þáttum en það eru bara atburðir á tveggja eða fjögurra ára fresti. Það er heilmikið að gerast þar á milli og einhvern veginn verða þessir íþróttmenn til.

 

11. Þú ert að vinna hjá ÍTR en við hvað starfar þú annað?

Ég er íþróttafulltrúi Reykjavíkur. Mest erum við að snúast um rekstur mannvirkjana, þetta kemur því  ekki voðalega mikið eiginlegu íþróttastarfi við. Þannig að þetta er svona meira áhugamál eins og maður segir.

 

 

 

 


6.3 Samantekt úr viðtölum við þjálfara

 

Eftir að hafa tekið viðtöl við Júlíus og Erling er ljóst að þar eru reynslumiklir menn á ferð í þjálfun og kennslu, enda báðir búnir að kenna í langan tíma. Aðspurðir um menntun þjálfara komu nokkuð lík svör í ljós. Júlíus benti á að kennaramenntun og íþróttamenntun væri grunnurinn. Hann kom einnig inn á að þjálfarar sæktu ýmis námskeið. Erlingur sagði að þjálfarar fengju ekki neina sérstaka menntun nema hafa farið á námskeið sem boðin hafa verið og stundum hafi komið erlendir fyrirlesarar og haldið fyrirlestra. 

Þegar spurt var um hvort þeim fyndist sjónvarpið og blöðin gera íþróttum fatlaðra góð skil. Þá kom í ljós að þeir voru sammála, að umfjöllun væri nógu góð en komu líka inn á að þeir vildu alltaf meiri umfjöllun um íþróttir fatlaðra. Kynjaskipting og aldursdreifing á þeirra stöðum var einnig mjög svipuð. Júlíus sagði að hjá sér væru fleiri strákar en stelpur og aldursdreifingin væri frá 4-5 ára og upp úr. Erlingur sagði að kynjaskiptingin hjá sér væri ótrúlega jöfn en þó væru fleiri stelpur að æfa, aldursdreifingin væri nokkurn veginn sú sama og hjá Júlíusi.

Aðspurðir hvaða íþróttagreinar boðið væri upp á, kom í ljós að félögin eru með svipaðar greinar. Júlíus sagði að félagið byði upp á sund, boccia, lyftingar og einnig væri æfð bogfimi. Hjá Erlingi er boðið upp á sömu íþróttagreinar auk frjálsra íþrótta og borðtennis. Þegar spurt var út í hvernig einstaklingar væru fengnir inn í íþróttastarfið komu mjög lík svör. Júlíus sagði að gefið væri út fréttabréf og haldin væri íþróttadagur einu sinni á ári þar sem greinarnar væru kynntar. Einnig kom hann inn á að einstaklingar heyrðu hér og þar af starfinu. Erlingur sagði að einstaklingar fréttu að starfinu á ýmsum stöðum t.d. skólum, í gegnum kunningjaskap og í sjúkraþjálfun.

            Eftir að hafa tekið þessi viðtöl, er ljóst að íþróttafélögin eru að vinna mjög svipað starf, sem virðist  gott, skemmtilegt og gagnlegt.

 

 

 

 

 

 

 


7 Inngangur að viðtölum við þátttakendur

 

Tekin voru viðtöl við þrjá þátttakendur en þriðji þátttakandinn hjá okkur sem er Geir Sverrisson sker sig aðeins út. Ástæðan er sú að rúmt ár er síðan Geir hætti að æfa og keppa í íþróttum. Í dag er hann íþróttakennari og sér um tölvukennslu í Smáraskóla. Geir hefur einnig netstjórn yfir öllum tölvunum en þær eru 120 í húsinu.

Tekin voru viðtöl við Kristínu Rós Hákonardóttir og Bjarka Birgisson.

 

7.1 Viðtal við Geir Sverrisson, mars 2003.

 

1. Hvar kynntist þú íþróttum fatlaðra fyrst?

Árið 1986 var haldið landsmót  á Suðurnesjum. Ég er úr Keflavík, og þar sem ekki var til neitt félag þar fyrir fatlaða, þótti þeim alveg ófært að vera að halda landsmót og hafa engan keppanda. Var ég því fenginn. Upphaflega átti ég að reyna að spila borðtennis en það gekk ekki. Svo voru allir ásáttir um að ég kynni að synda og  var ég fenginn í skólasund, þannig að ég keppti í sundi og endaði þar í öðru sæti og gerði þáverandi íslandsmeistara lífið leitt. Þar með hófst mín íþróttaiðkun og svo var ég drifin með á næstu sundæfingu og þar kom í ljós að þar var hugsanlegt efni á ferð. Þá var ég fimmtán ára og byrjaði í sundi.

 

2. Þannig að þá byrjaðir þú að æfa íþróttir af fullum krafti og fórst að keppa?

Já, svona markvisst og já að keppa. Alla tíð hef ég keppt meira með ófötluðum í frjálsum en að sjálfsögðu hef ég mætt á öll mót hjá fötluðum, íslandsmót og svo þessi stóru mót út í heimi.

 

 

3. En hefðir þú viljað keppa oftar á mótum, en eins og ég segi þú fórst á mörg mót?

Já, það var allur pakkinn.

 


4. Hvað æfðir þú oft í viku?

Í sundinu voru þetta 8-10 æfingar á viku, meira í sundinu, þá voru þetta morgunæfingar og kvöldæfingar og í frjálsum var þetta skaplegt. Þá voru lengri æfingar, en þá bara einu sinni í viku og stundum einn hvíldardagur í miðri viku, þannig að þetta voru bara æfingar eins og hjá öllu öðru afreksfólki, svona frekar stífar.

 

5. Varstu ekki einna helst í sundi og frjálsum, fannst þér það ekki skemmtilegustu íþróttagreinarnar?

Jú, ég var í sundinu til ársins 1992 og æfði í eitt ár, frá 1991-1992, þá æfði ég báðar íþróttirnar. Ég var sem sagt að byrja í frjálsum og hætti í sundi. Keppti á ólympíuleikunum í Barcelona bæði í sundi og frjálsum.

 

6. Voru gjöldin mikil til að geta stundað íþróttir? þ.e.a.s. voru æfingagjöldin dýr-ódýr?

Ég held að ég hafi aldrei þurft að borga æfingagjöld eða jú, þegar ég var hjá Ármanni að þá gerðum við samning um það en þá var ég kominn á afreksstyrk, þannig að ég greiddi þau ekki sjálfur.

 

7. Voru þjálfarnir góðir sem þú varst með?

Jú, alveg út í gegn. Ég var með tvo þjálfara í sundinu, Friðrik Ólafsson var mikið með mig en, mest allan tímann var ég með þjálfarann Eðvarð Ólafsson og æfði ég allt fram til hans síðasta, alveg þangað til að hann hætti. Seinna þjálfaði Birna Björnsdóttir mig og þar á eftir þjálfaði Eðvarð mig á tímabili. Í frjálsum var ég með Stefán Jóhannsson til að byrja með og síðar Kristján Harðarson, þannig að ég vil meina að við fatlaðir höfum alltaf átt greiðan aðgang að færustu þjálfurum landsins. Það er lykillinn að því hvað við höfum náð góðum árangri, þó að við séum ekki mjög margir þá er komin hefð fyrir góðum árangri. Þjálfarar eru mjög jákvæðir. Ég hef alltaf sagt að eftir að ég fór í íþróttirnar, finnst mér ef  þjálfari er einhvern tímann komin í stöðnun, fer ekki lengur fram, þú veistu að hann gerir ekkert nýtt með krakkana. Fær hann þá einhvern sem er útlitsgallaður og fatlaður og getur ekki gert þetta eins og á að gera. Það þarf alltaf nýja vídd inn í þjálfunina, þú þarft að fara að upphugsa alla þjálfarafræði, öll lögmál í vatni, hreyfilögmál og svona, fara að róta í þessu upp á nýtt. Þess vegna hef ég alltaf sagt að þjálfarnir græða jafnmikið á þessu og eins við fötluðu að fá svona erfið, viðfangsefni.

 

8. Hvað fékkst þú út úr því að mæta á æfingu og að keppa?

Það er náttúrulega félagsskapurinn, en það eru hópíþróttir og síðan eru einstaklingsíþróttir. Í hópíþróttum er meiri félagsandi og ég hef aldrei æft með íþróttafélagi fatlaðra. Ég hef alltaf æft með ófötluðum krökkum og það var ekkert endilega með ráðum gert, heldur til að byrja með í Keflavík þar sem ég bjó, þar var ekkert framboð eða eitthvert félag. Ég hef alist þannig upp að, ég er alltaf í kringum ófatlað fólk en það er eins og hér í bænum félög fyrir fatlaða. Þá er oft að þau eru mikið saman og oft á tíðum er það bara fyrir félagsskapinn. En þar sem ég er orðinn svona mikill afreksiðkandi, þá var þetta miklu meira til að svala einhverjum metnaði eða kannski bara einhver afreksþörf. Fyrir einstaklingsíþróttamann finnst mér að hann eigi frekar að gera þetta svona, oft er sagt við mig að ég hafi einhverja áráttu til að gera betur en ófatlaðir. Það er mikið til í því, það hefur sem betur fer slaknað á því í seinni tíð. Ég þurfti alltaf stanslaust að vera að sanna mig og komst á endanum í íslenska landsliðið hjá ófötluðum. Þá er eins og ég hafi náð dálitlu takmarki, en það sem gerði rosalega mikið fyrir mig er sjálfstraustið. Sjálfstraustið jókst með hverri æfingu og ég held að það hljóti að gera það hjá öllum fötluðum sem fara að æfa, hvort sem er með fötluðum eða ófötluðum. Ég held að það hljóti að byggja upp sjálfstraustið rosalega, bara byggja upp líkamann líkamlega og andlega þannig að, ég held að það komi bara sjálfkrafa með. Á meðan þú ert farinn að geta þetta vel og þér fer fram, bætir þig jafnvel á hverri æfingu, þá kemur sjálfstraustið. Þannig að ég vil meina, að ég hafi fengið alveg rosalega mikið út úr íþróttum, líkamlega og félagslega. Ég er búinn að kynnast mjög góðu fólki í gegnum íþróttirnar.

 

 


9. Hvað er langt síðan þú hættir að æfa og keppa í íþróttum?

Ég er búinn að vera hættur núna í eitt ár. Ég hætti um áramótin í fyrra eða rétt eftir áramót. Það var einfaldlega annað að taka við og núna er barn á leiðinni, þannig að þetta var alveg ágætis tímasetning. En mér hefur ekki alveg tekist það, ég ætlaði að reyna að dútla mér en ég komst að því hvað ég græði mikinn tíma með því að hætta. Mikill tími  fer einungis í að vinna og að vesenast, maður þarf að hafa þetta áfram að lífsstíl, það að hreyfing sé lífsstíll, ekki það að þetta sé búið núna, annars er ég að sigla á seglbrettum og hef fullt af áhugamálum sem ég reyni að sinna. Þannig að þetta er orðið ágætt.

 

10. Hvenær útskrifaðist þú sem íþróttakennari?

Það var árið 1997, og voru það alveg frábær tvö ár í það heila, æfingalega séð og félagslega séð. Þó að ég sé tölvukennari í dag, þá er það tilkomið vegna þess að maður fær kennsluréttindi. Ég kenndi til að byrja með sund í um eitt ár á eftir, svo hef ég þjálfað mikið, ekki kannski núna síðustu þrjú árin þannig að þetta er örugglega eitthvað sem ég á eftir að snúa mér að, þ.e.a.s. þjálfun sem yrði bara mjög gott mál.

 

11. Hvað ert þú búinn að kenna lengi í Smáraskóla?

Þetta er sjötta árið, ég er orðin einn af þessum gömlu hér í skólanum. Skólinn er mjög ungur, var stofnaður 1994 eða 1995 þannig að ég kem hingað þegar skólinn er alveg nýr, tveggja, þriggja ára og það hefur mikið að fólki komið og farið, það er svona.

 

12. Ertu einna helst í tölvukennslu, ertu ekkert með íþróttakennslu?

Nei, ég er eingöngu í tölvukennslu og svo hef ég annað starf sem ég vil meina að sé oft á tíðum stærra en full tölvukennsla. Ég er með netstjórn yfir öllum tölvunum, það eru 120 tölvurnar í húsinu. Mér veitti ekkert af þessum tíma sem ég græddi á að hætta að æfa.

 

13. Hvaða aldurshópi ert þú þá að kenna í Smáraskóla?

Ég er með 1. bekk upp í 10. bekk.

 

 

14. Þú hefur verið kosinn íþróttamaður ársins, þ.e.a.s. árið 1993. Það hefur örugglega verið góð tilfinning og mikill heiður?

Já, en ég var líka kosinn íþróttamaður ársins nokkrum árum seinna eða árið 1999. Hinsvegar met ég meira þessi verðlaun og þessa heimsmeistaratitla. Mér hefur ekki tekist að ná í gull á ólympíuleikum, jú annars í sundinu en ekki í frjálsum, ekki á ólympíuleikum. Ég átti heimsmet í sundinu, sem er fallið í dag en það var ólympíumet. Í frjálsum náði ég aldrei heimsmeti.

Í frjálsum voru fleiri greinar, í sundinu var ég bara í bringusundi, og í frjálsum var ég í 100, 200 og 300 metra hlaupi. Mér tókst á nokkrum heimsmeistaramótum að sigra alla þessa, árið 1995 sigraði ég allar greinarnar, 1998 vann ég tvö gull, og silfur. Það gefur mér jafnvel meira heldur en einhverjar útnefningar, og svo það sem gaf mér á annan hátt mikið var, að ég fór inn í landsliðið og ég hélt að það væri alveg nóg til að sýna þeim að við fengjum að fara þarna ofarlega í kjöri íþróttamanns ársins ófatlaða en okkur ætlar ekki að takast að ná því. Kristín Rós er mikið nær því en ég, en það ætlar ekki að takast. Við vitum ekki alveg hvað þarf til, auðvitað skiptir þetta engu máli, bara eitthvað sem við höfum í mörg ár verið að búast við, og ég hefði viljað sjá Kristínu Rós þarna síðast en sem betur fer þarf ég ekki að taka þá ákvörðun.

 

15. Finnst þér fjölmiðlar gera íþróttum fatlaðra góð skil, t.d. sjónvarpið og blöðin?

Nei, mér finnst það ekki. Ég veit ekki hvort þetta sé ósanngjörn gremja hjá okkur eða eitthvað, þeir kvörtuðu oft yfir því að fá ekki myndefni, þeir gátu þá bara sent menn með sér til að taka þetta upp. Þó vil ég taka þar út ákveðna menn sem hafa alla tíð verið okkur afskaplega hliðhollir, það er t.d. Valtýr Björn á sínum tíma, mjög jákvæður og síðan hefur Logi Bergmann Eiðsson alveg verið okkar sérstakur maður, hann hefur farið með okkur á mót, ólympíumót fatlaðra, gert alveg frábæra þætti um þessi mót. Einnig hef ég haft þá ánægju að ná að kynnast honum persónulega, hann hefur alltaf verið okkar maður í þessu en hann var bara til skamms tíma íþróttafréttaritari, svo er hann fréttamaður í dag. Þannig að við eigum  okkar menn inn á milli sem eru okkur mjög hliðhollir, oft á tíðum eru það ekki þeir sem taka ákvarðanir um fréttaflutning. Þannig að það hefur verið svolítil gremja í íþróttahreyfingu fatlaðra í gegnum tíðina, þeir hafa ekki gert þessu nógu góð skil.

 


16. Finnst þér þetta hafa breyst í dag eða er þetta bara eins?

Jú, það er alveg eins í dag, það hefur ekkert breyst. Það sem ég hafði alltaf áhyggjur af var að gullárunum færi að taka enda í árangri í íþróttum fatlaðra og þá myndi maður örugglega alfarið hætta að fjalla um þetta en til allrar lukku, þá sýnist mér það vera þannig að það sé stanslaus endurnýjun og vona að það verði áfram um ókomna tíð. Það er a.m.k ekki árangrinum í íþróttum fatlaðra að kenna að þeir fjalli ekki meira um þetta en hefur verið, hann er ennþá bara fínn og hefur verið lengi yfir heildina.

 

 

7.2 Viðtal við Kristínu Rós Hákonardóttur, mars 2003.

 

1. Hvar kynntist þú íþróttum fatlaðra fyrst?

Eftir að ég veiktist var ég í æfingum hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og var þar í nokkur ár, síðan þegar ég var 8 ára sendu mamma og pabbi mig í íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og hef ég verið þar síðan. Ég byrjaði í KR, Ægi og Breiðabliki.

 

2. Mætir þú á allar æfingar sem þú getur?

Já, ég mæti alltaf á æfingar, ég er mjög samviskusöm, stundum einum of en ég reyni að mæta á allar sem ég get.

 

3. Er þá aðallega sund sem þú ert að leggja stund á?
            Já, það er það.

 

4. Hvað æfir þú oft í viku?

Ég æfi núna 6x í viku en fyrir stórmót er það um 9-10x í viku.

 

5. Vilt þú keppa oftar á mótum?

Ég er eiginlega alltaf að keppa, svona á litlum mótum hér heima, síðan eru það þessi erlendu mót, sem eru yfirleitt  3-4x á ári þannig að það er alveg nóg að gera.

 

6. Eru þjálfarnir góðir sem þú ert með?

Já, ég er með mjög góða þjálfara en ég hef alltaf verið mjög heppin með þá.

7. Ætlar þú að æfa eins lengi og þú getur?

Ég ætla að fara á næsta heimsmeistaramót og sjá svo til.

 

8. Hvað færð þú út úr því að mæta á æfingar og keppa?

Ég styrkist og stirðna ekki upp og þar sem ég er spastísk stífnar maður ef maður gerir ekki einhverjar æfingar, og þá verður ekki eins mikill liðleiki í höndum og fótum, maður kreppist saman og líður illa, þannig að maður verður að stunda einhverjar æfingar að ráði.

 

9. Hvað ert þú gömul?

Ég er 29 ára en verð þrítug í sumar.

 

10. Eru gjöldin mikil til að geta stundað íþróttir, þ.e.a.s. æfingagjöldin?

Ég þarf ekkert að borga. Íþróttasamband fatlaðra borgar fyrir mig gjöldin.

 

11. Gera fjölmiðlar íþróttum fatlaðra góð skil, t.d. sjónvarpið og blöðin?

Það hefur aðeins lagast. Fyrir nokkrum árum var mjög lítið fjallað um íþróttir fatlaðra í blöðum og í sjónvarpi en núna hefur þetta aðeins batnað.

 

12. Þú hefur verið kosin íþróttamaður ársins þrjú ár í röð, þ.e.a.s. árin 1995, 1996 og árið 1997. Það hefur örugglega verið góð tilfinning og mikill heiður?

Það er mjög mikill heiður að fá þetta, en þú getur ímyndað þér vinnuna á bak við þetta. Þetta er alveg rosalega mikil vinna eins og t.d. þegar að ég var að æfa fyrir ólympíuleikana hætti ég í skólanum og tók mér ársfrí. Þá gat ég ekki stundað bæði í einu, þá var ég að æfa og gat ég ekki stundað skólann, þannig að ég er búinn að missa svona tvö til þrjú ár úr skóla. Ég myndi segja að við þyrftum að æfa meira en ófatlaðir til að ná árangri, það reynir meira á okkur. Annars er svo gott fyrir líkamann að gera einhverjar æfingar.

 


7.3 Viðtal við Bjarka Birgisson, mars 2003.

 

 

1. Hvar kynntist þú íþróttum fatlaðra?  Hvenær byrjaðir þú í þessu og hver kom þér í þetta?

Mamma og pabbi drifu mig bara á æfingar, því ég var jú með fötlun, og ég þurfti að fá einhverja hreyfingu. Þau leituðu sér upplýsinga og fundu stað.

 

2. Mætir þú á allar æfingar sem þú getur?

Já, ég mæti á allar æfingar sem ég get, reyni að skila minni vinnu þar.

 

3. Hvaða íþróttagrein finnst þér skemmtilegast að stunda?

Ég hef stundað margar íþróttagreinar, handbolta, fótbolta, sund og tennis. Mér finnst sundið skemmtilegast.

 

4. Hvað æfir þú oft í viku?

Núna er ég að æfa sex sinnum í viku, 6 - 7 sinnum. Fyrir mót fer það alveg uppí 9-11 sinnum á viku plús þrek. Og eru æfingar þá 2-3 sinnum á dag með þrekinu. 

 

5. Vilt þú keppa oftar á mótum?

Já, ég vil að fatlaðir fái sömu mót og ófatlaðir, til dæmis er ekki heimsmeistaramót  í 25 metra laug, það er kannski ekki grundvöllur fyrir því, en af hverju ekki. Mér finnst mótin sem ég og Kristín Rós erum að keppa á, við erum náttúrulega að keppa á svona mótum sem eru  fyrir ófatlaða og við fáum inngöngu þar. Þannig að ég veit ekki hvað við keppum á mörgum mótum á ári kannski svona c.a. 16-17 með heimsmeistaramóti og ólympíuleikum. Þannig að þetta er bara mjög gaman.

 

6. Eru þjálfararnir góðir?

 Já, ég er búin að vera með þjálfara frá því ég var sex ára. Þessir þjálfarar hafa verið misjafnir, en Kristín Guðjónsdóttir og þessi sem þjálfar mig núna Ólafur Þór, frá Fjölni, eru frábær og Ólafur metur viðmið okkar samkvæmt getu okkar.


7. Vildir þú æfa oftar en þú gerir?

Ég geri það, ég æfi oftar en ég á að gera. Ég hleyp þrisvar í viku með þessum æfingum, bara til að halda mér gangandi.

 

8. Ætlar þú að æfa eins lengi og þú getur?

 Ég veit það ekki, tíminn verður að leiða það í ljós. Ófatlaðir íþróttamenn eru styttra í æfingum eru kannski til 25 ára, en fatlaðir íþróttamenn æfa lengur af því að þeir þurfa þess, annars verða þeir stífari og kannski væri ég núna í hjólastól ef ég æfði ekki, ég veit það ekki. Árangurinn er bónusatriði. Fatlaðir eru t.d. að æfa til 30 ára aldurs.

 

9. Hvað færð þú út úr því að mæta á æfingu og að keppa?

Félagsskapurinn, adrenalínið í keppnum, endorfínið ( efni sem veitir vellíðan). Þetta er bara svo gaman. En það er leiðinlegt þegar maður er búin að æfa svona mikið, maður þarf alltaf að leggja meira á sig til að fá þetta sama kikk.

 

10. Hvað ert þú gömul/gamall?

Að verða 21 árs.

 

11. Eru gjöldin mikil til að geta stundað íþróttir? Æfingagjöldin- dýr eða ódýr?

Mér finnst æfingagjöldin í sundi ekki vera mjög dýr heldur frekar eðlileg. Því samkvæmt okkur, sem æfum 6-9 sinnum í viku, erum við að borga 4.500,- á mánuði og við erum með hámenntaða þjálfara þannig að þetta er ekki svo mikið. Árið kostar svona 45.000,- til  50.000,-.

 

12. Gera fjölmiðlar íþróttum fatlaðra góð skil, t.d. sjónvarpið og blöðin?

 Íþróttagrein sem heitir ekki fótbolti, handbolti eða golf eru ekki gerð góð skil. En mér finnst það ætti að vera meiri umfjöllun um íþróttir fatlaðra og aðrar íþróttagreinar en þær sem ég nefndi hér áðan.

 

 


13. Hefur þú einhvern tíman verið kosinn íþróttamaður ársins. Ef svo er, þá hefur það örugglega verið mikill heiður  og góð tilfinning? 

Já, ég var valin íþróttamaður ársins 2000 og 2001 og maður var náttúrulega stoltur. Ferðin upp á við byrjaði í júní árið 2000, því þá vann ég mér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum og ég vinn að þessu alveg fram að þeim. Það voru rosalega miklar tilfinningar sem komu fram þarna í júní. Á Ólympíuleikunum náði ég að komast í úrslit, á mínu fyrsta ólympíumóti, og eftir það var ég kosin Íþróttamaður ársins hjá fötluðum hér heima. Þetta var alveg rosalega góð tilfinning, og þótt maður sé fatlaður eða ekki, þá er maður að vissu leyti fyrirmynd fyrir ungt fólk.

 

 

7.4 Samantekt úr viðtölum við þátttakendur

 

Allir þátttakendurnir eru mjög samviskusamir að mæta á allar æfingar sem þau geta og gerði Geir það einnig á sínum tíma. Hann tók þátt í öllum mótum líkt og Bjarki og Kristín Rós. Bjarki og Kristín Rós töluðu um að það væru ca. 16-17 mót yfir árið með heimsmeistaramóti og ólympíuleikum.

Athyglisvert er að sjá hvernig þau kynnast íþróttum fatlaðra, foreldrar tveggja af þremur kyntust þremur kynntu þeim starfsemina. Það sýnir að foreldrarnir skipta miklu máli hvað þetta varðar.

Æfingar virðast oft vera frekar stífar hjá þeim og verður álagið meira þegar verið er að undirbúa sig fyrir mót. Venjulega æfa Bjarki og Kristín Rós 6-7 x í viku en fyrir stórmót er það 9-11 x í viku. Í sundinu hjá Geir voru 8-10 æfingar á viku, þ.e.a.s. bæði morgun- og kvöldæfingar. Í frjálsum var þetta eitthvað skaplegra hjá honum. Það er því greinilega heilmikil vinna og tími sem fer í þetta hjá þeim.

Þau voru öll mjög ánægð með þjálfaranna sem þau hafa verið hjá og talaði Geir um að hann, og þeir sem væru fatlaðir, hefðu alltaf átt greiðan aðgang að færustu þjálfurum landsins. Hann talaði um að það væri eitthvað því að þakka að það væri komin hefð á góðan árangur í íþróttum fatlaðra hjá Íslendingum, þó að fjöldinn væri ekki mikill. Geir talaði því um að þjálfararnir væru mjög jákvæðir.

Þegar spurt var um hvað þau fengu út úr því að mæta á æfingu og að keppa, sagði Bjarki að það væri t.d. félagsskapurinn og Geir talaði um það sama þegar hann var á fullu í íþróttunum. Geir talaði líka um að sjálfstraustið hjá sér hafi aukist með hverri æfingu og að hann hafi fengið mjög mikið út úr íþróttum, þá bæði líkamlega og félagslega. Kristín Rós talaði um að hún styrktist og stirðnaði ekki eins upp og hún sem væri spastísk, ef hún gerði ekki einhverjar æfingar þá stífnaði hún og ekki yrði eins mikill liðleiki í höndum og fótum. Þetta gefur þeim greinilega mjög mikið að geta æft íþróttir og vera að keppa, þá bæði líkamlega, félagslega og andlega.

Þegar spurt var að því hvort þeim fyndist fjölmiðlar gera íþróttum fatlaðra góð skil, t.d. sjónvarpið og blöðin, fengum við ólík svör. Kristínu Rós fannst það hafa lagast en fyrir nokkrum árum hefði lítið verið fjallað um íþróttir fatlaðra í blöðum og í sjónvarpi en núna hefði þetta aðeins batnað. Bjarka fannst hinsvegar það þyrfti að vera meiri umfjöllun um íþróttir fatlaðra. Hann talaði um að íþróttagreinar eins og t.d. fótbolti, handbolti og golf væru greinar sem á væru gerð góð skil. Honum fannst  því það þyrfti að vera meiri umfjöllun um fleiri íþróttagreinar. Geir talaði um að hann  vildi taka út ákveðna menn sem hefðu alla tíð verið þeim mjög hliðhollir, það hefði t.d. verið Valtýr Björn á sínum tíma sem hefði verið mjög jákvæður og síðan hefði Logi Bergmann Eiðsson verið þeim sérstakur maður, hann hefði farið með þeim á mót og gert góða þætti um þessi mót. Geir talaði því um að þau ættu sína menn inn á milli sem væru þeim mjög hliðhollir en oft á tíðum væru það ekki þeir sem þyrftu að taka ákvarðanir um fréttaflutning. Geir talaði um að þetta væri alveg eins í dag og þetta hefði ekkert breyst.

Bjarki sem hefur verið kosinn íþróttamaður ársins árin 2000 og 2001, sagði að þótt hann væri fatlaður eða ekki, þá væri hann að vissu leyti fyrirmynd fyrir ungt fólk. Kristín Rós sagði að það væri auðvitað heiður að vera kosin íþróttamaður ársins en hún var kosin árin 1995, 1996, og 1997. Þrátt fyrir það væri mjög mikil vinna á bak við þetta. Hún talaði um að t.d. þegar hún hefði verið að æfa fyrir ólympíuleikana, hefði hún þurft að hætta í skólanum og taka sér ársfrí. Hún hefur því misst tvö til þrjú ár úr skóla og það að hætta í skóla bara til að geta æft, væri líka erfitt. Af þessu má sjá að mikla vinnu þarf að leggja á sig til að ná góðum árangri og oft á tíðum þarf að fórna einu fyrir annað. Geir hefur verið kosin íþróttamaður ársins árin 1993 og 1999. Hann talaði um að það hefði verið mikill heiður að fá þessa tilnefningu en hinsvegar myndi hann meta meira keppnisverðlaun og heimsmeistaratitla.

 

 

 

 

 

 

8 Mótahald innan og utanlands.

 

Í fylgiskjali 2 um helstu verkefni Íþróttasambands fatlaðra er fjallað um mótahald innanlands og erlendis.  Um mótahald innanlands eru talin upp þrjú mót en þau eru:

 

Um erlend mót eru:

 


9 Niðurstöður

 

Íþróttasamband fatlaðra í Laugardal er öflugt samband sem sinnir fötluðu íþróttafólki mjög vel. Sambandið sinnir mikilvægum hlutverkum og kynnir sína starfsemi vel. Hjá sambandinu starfar gott starfsfólk og hefur hver fyrir sig góða þekkingu á íþróttum fatlaðra.

Samtals 21 félög eru starfandi innan Íþróttasambandsins. Öll þessi félög eru að gera góða hluti og koma vel til móts við fatlaða einstaklinga sem vilja leggja stund á einhverjar íþróttir. Flest félögin bjóða upp á boccia og sund.

Starfsemin sem fer fram í íþróttahúsi fatlaðra í Hátúni er mjög góð. Húsnæðið  nýtist vel og er boðið upp á margar íþróttagreinar.

Varðandi mótahald innan- og utanlands er ýmislegt gott að gerast. Að okkar mati er gott tækifæri hér á landi fyrir fatlaða íþróttamenn að sýna hvað í þeim býr, þ.e.a.s. hvar þeirra styrkur liggur. Þegar vel gengur eflist sjálfstraustið hjá þessum einstaklingum eins og hjá ófötluðum íþróttamönnum. Fatlaðir íþróttamenn hafa staðið sig mjög vel á mótum bæði hér heima og erlendis og hafa unnið til margra verðlauna. (Sjá fylgiskjal nr.4).

Þó svo að ýmislegt gott sé að gerast hjá fötluðum, er alltaf eitthvað sem má  bæta. Má þar nefna æfingaaðstöðu félaganna sem oft á tíðum er ekki nógu góð og á það sérstaklega við nokkur félög sem staðsett eru úti á landi.

Úr viðtölum við þátttakendur mátti greina að fjölmiðlar, þ.e.a.s. sjónvarpið og blöðin mættu taka sig á þegar kemur að umfjöllun um íþróttir fatlaðra. Það er jafn mikilvægt að gera íþróttum fatlaðra góð skil eins og íþróttum annars íþróttafólks. Það má því ekki gleyma því að fatlaðir íþróttamenn standa sig mjög vel.

Einnig kom fram að það er engin menntastofnun í landinu sem sérhæfir sig í að mennta þjálfara fatlaðra. Allir þurfa að fara erlendis til þess að sérhæfa sig á þessu sviði. Við teljum því brýnt að íþróttabraut í kennaranámi KHÍ bjóði upp á sérhæft nám t.d. eins árs nám í þjálfun fatlaðra. Eins og kom fram í viðtölum við þátttakendur þökkuðu þau góðum þjálfurum fyrir hvað þau höfðu náð góðum árangri.

Það er því augljóst að lykillinn að góðum árangri er góðu þjálfari.


10 Lokaorð

 

            Vinnan við skrif ritgerðarinnar gekk mjög vel. Það var mjög skemmtilegt að skrifa hana og fræðandi. Það sem kom okkur þó mest á óvart, var það hversu mörg félög eru innan Íþróttasambands fatlaðra. Það hefur farið munn meiri tími í að skrifa þessa ritgerð en við áætluðum í upphafi. En það hefur ekki komið að sök, það sem þetta hefur verið mjög skemmtilegt og ekki síst fræðandi. Margt kom okkur á óvart m.a.  

·        Hvað sambandið er sterkt með 3 starfsmenn í fullri vinnu

·        Hvað haldin eru mörg mót árlega

·        Hvað margir þátttakendur taka þátt í mótum erlendis

·        Hvað eru mörg starfandi félög

·        Hvað aðstaðan er góð, en þá eigum við íþróttahús fatlaðra, Hátúni

·        Hvað fatlaðir hafa unnið marga titla á stórmótum erlendis

·        Hvað margir vinna óeigingjarnt starf í þágu fatlaða

 

Eftir að vera búinn að skrifa þetta verk eru niðurstöður okkar þessar. Við Íslendingar getum verið stolt af hvernig staðið er að þessum málum hér á landi, ótrúlega mikið hefur gerst frá því að Íþróttasamband fatlaðra var stofnað árið 1979. Okkar ósk er að íþróttasamband fatlaðra haldi áfram að vaxa og dafna vel og það hefur gert s.l. 24 ár.

Höfundar vilja þakka þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu við skrif þessarar ritgerðar.

 

 

Staðfesting undirritaðra

 

----------------------------------------------------------

Hrefna Jóhannsdóttir, Reykjavík 2.maí 2003.

 

----------------------------------------------------------

Matthías Ágúst Ólafsson, Reykjavík 2.maí 2003.

11 Heimildaskrá

 

11.1 Skriflegar heimildir

 

Akureyrarbær. (2003). Heimasíða, sótt mars. 2003, síða:

http://www.akureyri.is/þjónusta/fatlaðir/

 

Anna K Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri íþrótta og útbreiðslusviðs. Íþróttasambands fatlaðra. 8. janúar. 2003. Dreifiblöð. Íþróttasamband fatlaðra.

 

Egill Olgeirsson. Fréttir frá Bocciadeild Völsungs, desember, 2001.

 

Gísli Jóhannsson, formaður íþróttafélagsins Nes,2003. Skýrsla stjórnar 2002, Suðurnesjum.

 

Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík. (2003). Heimasíða. sótt  22. apríl, 2003, síða:

http://www.ifr.is/adal.html

 

Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands. (2003). Heimasíða, sótt 7. janúar, 2003, síða: http://www.toto.is/sersamb/if/uppl if.htm

 

Markús Einarsson. 1987. Námsefni fyrir Leiðbeinendur. [Endurbætt. 2001. Anna K. Vilhjálmsdóttir.]. Bæklingur gefinn út af Fræðslunefnd íþróttasambands Fatlaðra í samvinnu við Fræðslunefnd Íþróttasambands Íslands.

 

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Íþróttasambands fatlaðra. 8. janúar. 2003. Dreifiblöð. Íþróttasamband fatlaðra.

 

Sigurður Magnússon og Sigurður Á. Friðþjófsson. 1998. Stærsti Sigurinn, íþróttir fatlaðra á Íslandi í 25 ár.1. útgáfa. Íþróttasamband fatlaðra, Reykjavík

 


11.2 Munnlegar heimildir

 

Aðalsteinn Baldursson. 25. mars 2003. Viðtal höfunda við Aðalstein Baldursson um íþróttafélagið Ægir.

 

Axel Vatnsdal, 25. mars 2003. Viðtal höfunda við Axel Vatnsdal um íþróttafélagið Kveldúlf.

 

Bjarki Birgisson. mars 2003. Viðtal höfunda við Bjarka Birgisson um íþróttir fatlaðra.

 

Erlingur Jóhannsson. mars 2003. Viðtal höfunda við Erling Jóhannsson um þjálfun fatlaðra.

 

Geir Sverrisson. mars 2003. Viðtal höfunda við Geir Sverrisson um íþróttir fatlaðra.

 

Harpa Björnsdóttir. 23 apríl 2003. Viðtal höfunda við Hörpu Björnsdóttur um íþróttafélagið Ívar.

 

Helga Björg Marteinsdóttir. 5. febrúar 2003. Viðtal höfunda við Helgu Björgu Marteinsdóttur um Íþróttadeild fatlaðra í Stykkishólmi.

 

Helga Hjörleifsdóttir. mars 2003. Viðtal höfunda við Helgu Hjörleifsdóttur um íþróttafélagið Björk.

 

Jósep Sigurjónsson. mars 2003. Viðtal höfunda við Jósep Sigurjónsson um íþróttafélagið Akur.

 

Júlíus Arnarsson. mars 2003. Viðtal höfunda við Júlíus Arnarsson um þjálfun fatlaðra.

 

Kristín Rós Hákonardóttir. mars 2003. Viðtal höfunda við Kristínu Rós Hákonardóttur um íþróttir fatlaðra.

 

Ólafur Ólafsson. 4. febrúar 2003. Viðtal höfunda við Ólaf Ólafsson um íþróttafélagið Ösp.

 

Ólöf Guðmundsdóttir. 25. mars 2003. Viðtal höfunda við Ólöfu Guðmundsdóttur um íþróttafélagið Þjót.

 

Sigríður Margrét Vigfúsdóttir. 5. febrúar 2003. Viðtal höfunda við Sigríði Margréti Vigfúsdóttur um Íþróttadeild fatlaðra í Snæfellsbæ.

 

Snorri Magnússon. mars 2003. Viðtal höfunda við Snorra Magnússon um íþróttafélagið Gáska.

 

Sóley Guðmundsdóttir. 25. mars 2003. Viðtal höfunda við Sóleyju Guðmundsdóttur um íþróttafélagið Örvar.

 

Svanur Ingvarsson. 27. mars 2003. Viðtal höfunda við Svan Ingvarsson um íþróttafélagið Suðri.

 

Tómas Jónsson. 5. febrúar 2003. Viðtal höfunda við Tómas Jónsson um íþróttafélagið Fjörðinn.

 

Unnur Óskarsdóttir. 25. mars 2003. Viðtal höfunda við Unni Óskarsdóttur um íþróttafélagið Viljann.

 

Þórður Ólafsson.  mars 2003. Viðtal höfunda við Þórð Ólafsson um Íþróttahús fatlaðra.


Fylgiskjöl

 

 



[1] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.11

[2] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.11-12.

[3] Markús Einarsson, fræðslunefnd Í.F.,2001, Námsefni fyrir leiðbeinendur, bls.7.

[4] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.21-22.

[5] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.22-23.

[6] http://www.toto.is/sersamb/if/uppl_if.htm

[7] Anna K. Vilhjálmsdóttir, ÍF, dreifiblöð, 8. janúar, 2003.

[8] http://www.toto.is/sersamb/if/uppl_if.htm

[9] http://www.toto.is/sersamb/if/uppl_if.htm

[10] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.138-139.

[11] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.127.

[12]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.129.

[13] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.130.    http://www.toto.is/sersamb/if/starfsm.htm

[14] Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri ÍF, dreifiblöð, 8. janúar, 2003.

[15]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.133-134.

[16] http://www.akureyri.is/

[17] Jósep Sigurjónsson. mars.2003.

[18] Helga Hjörleifsdóttir. mars.2003

[19] Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls.67.

[20] http://www.akureyri.is/

[21] Tómas Jónsson, 5. febrúar, 2003.

[22]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls 83-85.

[23] Snorri Magnússon. mars.2003

[24] Starfsmaður á sólheimum. mars 2003

[25]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls. 88-89.

[26]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls. 115-117.

[27] Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri ÍF, dreifiblöð, 8. janúar, 2003.

[28] http://www.ifr.is/

[29]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls. 61.

[30]Sigurður Magnússon og Sigurður Á Friðjónsson,1998, Stærsti sigurinn, bls. 103.

[31] Harpa Björnsdóttir. 23 apríl. 2003.

[32] Axel Vatnsdal, 25. mars, 2003.

[33] Svanur Ingvarsson, 27. mars, 2003.

[34] Unnur Óskarsdóttir, 25. mars, 2003.

[35] Sóley Guðmundsdóttir, 25. mars, 2003.

[36] Ólöf Guðmundsdóttir, 25. mars, 2003.

[37] Fréttir frá Bocciadeild Völsungs, desember, 2001, Egill Olgeirsson.

[38] Sigríður Margrét Vigfúsdóttir, 5. febrúar, 2003.

[39] Ólafur Ólafsson, 4. febrúar, 2003.

[40] Helga Björg Marteinsdóttir, 5. febrúar, 2003.

[41] Aðalsteinn Baldursson, 25. mars, 2003.

[42] Skýrsla stjórnar 2002, Gísli Jóhannsson, formaður íþróttafélagsins Nes, Suðurnesjum.

[43] http://www.ifr.is/

[44] Þórður Ólafsson, mars, 2003.

[45] Íþróttasamband fatlaðra, dreifiblað um mótahald, febrúar 2003.