Greinarhöfundur; Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, frkvstj. Fræðslu og útbreiðslusviðs ÍF

 

Verkefnið „Betri grunnur, bjartari framtíð“

Snemmtæk íhlutun vegna hreyfiþroska leikskólabarna

Rannsóknarverkefni sem fram fór á Húsavík árin 2005 - 2006

 

Handbók í hreyfiþjálfun, Motor Acitivies Booklet  hefur verið gefin út í  kjölfar verkefnis sem fram hefur farið á Húsavík frá árinu 2005.  Carola Frank Aðalbjörnsson Ph. D. stýrði rannsóknarverkefni þar sem áhrif hreyfiþjálfunar á leikskólabörn voru könnuð. Markhópur var börn með seinkaðan hreyfiþroska en önnur börn tóku einnig þátt í verkefninu.    Hreyfiþroskaverkefnið á Húsavík var byggt á fyrirmyndum og niðurstöðum rannsóknarverkefna á snemmtækri íhlutun sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum, Brasilíu og Kína.  Þar var miðað við hreyfistundir  tvisvar í viku í 30 mínútur og tímabil var 12 vikur.  Fjöldi barna var 20 – 24 í hverjum hópi.  Niðurstöður rannsókna frá 1997, 1998, 1999 og  2000 sýndu svipaða útkomu þar sem meðaltalsprósenta fyrir hreyfifærni jókst úr 7% í 80%   Meðaltalsprósenta fyrir samhæfingu jókst úr 36% í 91% 

 

Fagaðilar frá leikskólum Húsavíkur, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga og grunnskólanum stóðu að framkvæmd verkefnisins í samráði við Carolu auk þess sem verkefnið naut stuðnings  aðstandenda,  forsvarsfólks stofnana, sveitarfélagsins og samfélagsins almennt. Börnin á Húsavík voru valin haustið 2005 og prófuð með TGMD2 (þriggja ára og eldri) og Bayley Scales(undir þriggja ára).  Öll börn sem reyndust með seinkaðan hreyfiþroska voru valin til þátttöku, alls 29 börn.   Hreyfistundir voru 45 mínútur tvisvar í viku og stóð verkefnið yfir frá 17. janúar til 6. apríl 2006.   Þau voru prófuð aftur í apríl og maí  með sömu prófum og sýndu verulegar framfarir. 

Fyrri athugun á börnunum sem prófuð voru með TGMD2, fötluð og ófötluð sýndi eftirfarandi niðurstöður;  6 undir meðaltali, 10 slök, 2 mjög slök.

Niðurstöður seinni athugunar sýndi 2 framúrskarandi, 3 yfir meðaltali, 1 í meðaltali, 1 undir meðaltali og 1 mjög slakt.

Fyrri athugun barnanna sem prófuð voru með Bayley Scales sýndi eftirfarandi niðurstöður; 4 væg seinkun, 4 töluverð seinkun, 3 mjög mikil seinkun.

Seinni athugun sýndi; 1 væg seinkun, 1 töluverð seinkun, 2 mjög mikil seinkun, 7 innan marka.

 

Snemmtæk íhlutun

Snemmtæk íhlutun var meginþema ráðstefnu sem greinarhöfundur fór á í Vínarborg árið 2001.  Sýnt var fram á með rannsóknum hvað gerist á fyrstu árum barnsins og hvernig hægt er að hafa áhrif á ýmsa þætti með markvissum æfingum.  Rannsóknir voru kynntar um áhrif snemmtækrar íhlutunar á fötluð  börn og börn með seinkaðan hreyfiþroska.  Áhersla var lögð á áhrif hreyfiþjálfunar fyrstu fimm árin en tvö fyrstu árin voru talin sérlega mikilvæg þar sem þá er mikil umbreyting í gangi í líkamanum.   Einn þeirra sem kynnti  rannsóknir sínar var prófessor frá Bandaríkjunum sem síðar kom í ljós að var leiðbeinandi Carolu Frank Aðalbjörnsson í  hennar sérnámi á þessu sviði.  Þegar Carola flutti til Íslands með íslenskum manni sínum, leitaði hún fyrir sér með atvinnu á sviði snemmtækrar íhlutunar.  Sú leið virtist vera torsótt þar sem menntun hennar var ekki skilgreind innan íslenska kerfisins.  Árið 2001 kom hún á skrifstofu  Íþróttasambands Fatlaðra til að ræða samstarfsmöguleika en greinarhöfundur var þá nýkominn af ráðstefnunni  í Vínarborg.  Umræður höfðu farið fram um þessa ráðstefnu hjá stjórn ÍF og mikill áhugi var á að efla umræðu um snemmtæka íhlutun og fá fagfólk til að kynna rannsóknir  á því sviði.    Umræður fóru fram við Carolu hvort unnt væri að setja upp afmarkaða rannsókn þar sem hennar sérþekking og reynsla gæti skilað sér til barna með seinkaðan hreyfiþroska.  Talið var að rannsóknarverkefni með skilgreint upphaf og endi væri forsenda þess að málið kæmist í  þann farveg sem nauðsynlegur væri til framþróunar á þessu sviði.

Til að árangur næðist var talið æskilegt að leita til sveitarfélags þar sem hægt væri að fá fólk með víðtæka, þverfaglega þekkingu til aðstoðar  og samvinnu.  Aðilar sem leitað var til á Húsavík sýndu mikinn áhuga á verkefninu  og lögð voru drög að samstarfi.  Á þeim tíma sem það ferli fór í gang hafði  Carola ráðið sig til Actavis og gefist upp við að leita að starfi í samræmi við hennar sérmenntun á sviði snemmtækrar íhlutunar.  Hún samþykkti þó að fylgja eftir því ferli sem hafið var í samráði við aðila á Húsavík þó hún hefði ráðið sig til Actavis þar sem hún starfar enn í dag. 

Eftir að undirbúningsvinna og fjármögnun hafði farið fram hófst verkferlið og skýrsla sem unnin var um framkvæmd verkefnisins á Húsavík sýnir jákvæðar niðurstöður.  Rannsóknarhópurinn sem starfaði að verkefninu undir leiðsögn Carolu Frank Aðalbjörnsson virðist sammála um gildi verkefnisins og telja mikilvægt að markviss hreyfiþjálfun verði í boði fyrir börn á leikskólaaldri.

 

Spurningar  varðandi verkefnið voru sendar til nokkurra aðila og eftirtaldir hafa sent svör;  

 Erla Sigurðardóttir, menningar- og fræðslufulltrúi á Húsavík, Björg Björnsdóttir, sjúkraþjálfari, Iris Miriam Waitz, iðjuþjálfi, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, foreldri og sálfræðingur, Kristjana Ríkey Magnúsdóttir, foreldri og kennari og  Anna Júlía Aðalsteinsdóttir, stuðningsaðili, 

 

Nokkur atriði sem fram komu;

 

Ø       Einstaklega góð viðbót við það sem fyrir var

Ø       Frábær upplifun af verkefninu, mjög góð kynning góð eftirfylgd

Ø       Öll börnin sýndu framfarir

Ø       Börn hafa gaman að læra í hópum, þau læra hvert af öðru gegnum áhorf

Ø       Fjölfatlaðir eiga tvímælalaust að vera með, félagslegi þátturinn er þar ekki síður mikilvægur en sérfræðingar eiga að geta aðlagað æfingar þannig að henti hverjum og einum.  Mikilvægt að nægur mannskapur sé til staðar til að fylgja þeim hópi eftir.

Ø       Kynna þarf þetta verkefni og efla hreyfiþjálfun ungra barna ekki síst vegna félagslegrar þátttöku og vaxandi skilnings á sambandi á milli hreyfigetu og skólafærni ( skrift, lestur)

Ø        Mikilvægt að byrja snemma slíkar æfingar þannig að laga megi æfingar og aðlaga þannig að þau nái tökum á þeim

Ø       Áhugavert verkefni.  Mjög gott verkefni sem mér finnst að eigi að halda áfram að hafa innan leikskóla

Ø       Jákvætt viðhorf til hreyfingar, börnin sýndu æfingar heima og töluðu um æfingarnar.

Ø       Þetta er verkefni sem á erindi til allra barna og inn í alla leikskóla, hvort sem born eru talin þurfa þess með eða ekki. Það sem þetta hefur umfram frjálsan leik er meðvitundin um að hreyfa sig og æfa sig á jákvæðan og skemmtilegan hátt.   Barnið verður meðvitaðra um það sem verið var að gera í hreyfingum.

Ø       Mikilvægt að ná til barna sem gætu þurft á örvun að halda, oft sem ekki er tekið eftir þeim fyrr en þau byrja í skóla.  Mjög gott að fá staðfest á vísindalegan hátt hversu nauðsynlegt og árangursríkt er að örva hreyfingu hjá flestum börnum, hvað þá börnum sem eru fötluð eða á „gráu“ svæði.  Reyndar held ég það hafi komið mörgum á óvart hversu nákvæm öll fyrirmæli og uppsetning þurfti að vera.  Það var náttúrlega nauðsyn þess að niðurstöður yrðu marktækar.

Ø       Ánægja með að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni, mikilvægt að halda markvissri hreyfingu áfram í leikskólanum fyrir öll börn.  Gætu leynst þar börn sem enginn tekur eftir að neitt sé athugavert við en gætu átt erfitt með ákveðna þætti

Ø       Ekki síður mikilvægt fyrir ófötluð börn.

Ø       Hreyfifærni verður skemmtileg, stofan á heimilinu gerð að æfingamiðstöð

Ø       Niðurstöðurnar úr verkefninu sýna að að það skilar sér og góð hreyfifærni er eitt af því sem börn skortir hvað helst í dag á tímum kyrrsetu og offitu.  Við verðum því að vera meðvituð um það strax á fyrstu æviárunum en ekki bara þegar regluleg íþróttaiðkun og skólaíþróttir hefjast.

 

Þegar leitað var eftir samstarfi á Húsavík var ljóst að verkefnið kæmist ekki  í farveg án þess að því yrði fylgt eftir af ákveðnum aðila á staðnum. Erla Sigurðardóttir, núverandi menningar- og fræðslufulltrúi Norðurþings á Húsavík sýndi strax áhuga á málinu og án hennar liðsinnis í upphafi hefði verkefnið ekki orðið að veruleika. 

Erla svaraði nokkrum spurningum um verkefnið og fara svör hennar hér á eftir;

 

Eftir að hafa fengið verkefnislýsingu frá Carolu  leitaði ég til lykilaðila á Húsavík, leikskólastjórana, sjúkraþjálfara,  iðjuþjálfa og deildarstjóra málefna fatlaðra hjá Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga. Auk fagaðila hafa styrktaraðilar lagt málefninu lið og þar er Velferðarsjóður barna stærsti einstaki styrktaraðilinn.  Þegar leitað var styrkja var mikilvægt að hafa stuðningsyfirlýsingu frá Íþróttasambandi Fatlaðra , Landlækni og frá prófessornum hennar Carolu.

 

Telur þú að verkefnið hafi haft gildi fyrir sveitarfélagið og þá hvers vegna?

Verkefni eins og þetta hefur mikið gildi fyrir sveitarfélagið og samfélagið. Það er ímyndarbyggjandi bæði fyrir samfélagið út á við og einnig fyrir faglegt starf leikskólans. Það  er tekið eftir svona verkefni. Mikilvægast af öllu er þó að vonandi skilar þjálfunin börnunum okkar með betri grunn út í lífið eða eins og nafnið segir “Betri grunnur, bjartari framtíð” það var alltaf markmiði. Hitt eru aukaafurðir.

 

Hvernig myndir þú vilja sjá verkefnið þróast í framtíðinni?

Ég vildi sjá markvissa hreyfiþjálfun í anda verkefnisins sem sjálfsagðan hlut af öllu leikskólastarfi, fyrir öll börn. Að þekkingin sem verkefnið byggir á nýtist til þess að finna börn sem þurfa þetta smá viðbótar “púst” til að komast í gang, oft er svo agnarlítið sem þarf og getur skipt sköpum ef brugðist er við nógu snemma. Þetta er alvöru forvarnarverkefni sem hvetur börn til hreyfingar og kennir þeim frá upphafi jákvæðan lífsstíl. Það barn sem býr við slakan hreyfiþroska fer ótrúlega fljótt að finna til vanmáttar síns í hópnum og draga sig útúr, seinna geta fylgt námsörðugleikar vegna slakrar samhæfingar. Sjálfsmyndin verður oft lélegri og þar með fylgir hegðun sem við viljum helst ekki sjá hjá börnunum okkar. Allt of oft er svo farið að bregðast við einkennunum og grunnur vandans finnst ekki – hverjum á líka að detta í hug að láta barn sem ekki gengur vel í stærðfræði eða er sífellt uppá kant fara að hreyfa sig meira og markvisst til að bregðast við náms og hegðunarvanda. Það er líka hætt við að þegar þessi vandi sýnir sig sé það orðið of seint.

Það hafa orðið svo miklar breytingar í samfélaginu að þessi öfluga hreyfing sem áður varð sjálfsagður hluti af daglega lífinu er nánast horfin, ekki síst hjá ungum börnum, við getum brugðist við og þjálfun í anda verkefnisins okkar er eitt tæki til þess.              

Er eitthvað sérstakt sem þú vilt koma á framfæri vegna þessa?

Enn og aftur forvarnargildið og mikilvægi þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf frá fæðingu. Það er líka óendanlega mikilvægt að mæta börnunum í þeirra umhverfi – ekki að fara sífellt með þá sem þurfa þjálfun á sér stað. Hreyfing og þjálfun á að vera sjálfsagður hluti af okkar daglega lífi                             

Ég vil líka nota tækifærið til þess að þakka öllu því frábæra fólki sem kom að verkefninu, án þess hefði það aldrei orðið að veruleika. Allt starfsfólk leikskólanna faglært og ófaglært, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og þessir frábæru foreldrar og börn sem voru tilbúin að taka þátt.

Það eru forréttindi að fá að vinna með svona fólki. Styrktaraðilarnir bæði heima á Húsavík og um land allt eiga líka heiður skilinn.

 

 

Íþróttasamband Fatlaðra óskar Húsvíkingum til hamingju með þetta framtak. 

Carola Frank Aðalbjörnsson fær sérstakar þakkir fyrir að hafa fylgt eftir þessu  mikilvæga rannsóknarverkefni  og útgáfu handbókar um snemmtæka íhlutun.