Úrslit Íslandsmóta ÍF: Rúmfatalagerinn áfram einn helsti bakhjarlinn

Helgina 20.-22. mars síðastliðinn fóru fram Íslandsmót ÍF í fimm greinum, sundi, boccia, bogfimi, lyftingum og frjálsum íþróttum. Keppt var í frjálsum íþróttum á föstudag en hinar greinarnar fóru fram á laugardag og sunnudag. Keppni í sundi fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði.

Við mótssetningu Íslandsmóta ÍF um síðustu helgi undirrituðu Íþróttasamband fatlaðra og Rúmfatalagerinn áframhaldandi samstarfs- og styrktarsamning. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Magnús Sigurðsson framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins undirrituðu samninginn og var Frú Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri Reykjavíkurborgar vottur að undirrituninni. Samningurinn gildir til næstu fjögurra ára og sagði Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF við mótssetninguna að Rúmfatalagerinn hafi um áratugaskeið verið aðalstyrktaraðili sambandsins og að gott væri til þess að vita að þetta öfluga fyrirtæki geti sent út jákvæð skilaboð í þjóðfélagið í því efnahagsástandi sem nú ríkir.

Úrslit mótanna:
Boccia - sveitakeppni
Bogfimi
Frjálsar íþróttir
Lyftingar
Sund

Frjálsar íþróttir
Frjálsíþróttamótið heppnaðist í alla staði vel. Keppendur voru um 60 talsins frá 13 félögum. Nokkrir ungir keppendur hafa bæst í hópinn og voru fleiri félög að senda keppendur í frjálsar íþróttir en áður hefur verið á Íslandsmótum ÍF. Engin met voru slegin að þessu sinni en nokkra athygli vöktu þrír ungir keppendur þau: Almar Þór Þorsteinsson frá Suðra, Guðmundur I. Margeirsson, Nes og Ingeborg Eide Garðarsdóttir, FH. Ljóst er að þarna eru efnilegir einstaklingar á ferð.

Úrslit Íslandsmótsins í frjálsum

Lyftingar

Sex keppendur voru skráðir á Íslandsmótið í lyftingum og komu þeir allir úr herbúðum ÍFR. Óhætt er að segja að átökin hafi verið svakaleg þar sem Þorsteinn Magnús Sölvason Ólympíufari ÍF 2008 setti glæsilegt Íslandsmet í bekkpressu er hann pumpaði upp 150 kg í +82,5 kg. flokki.. Þetta mun vera mesta þyngt sem maður úr röðum fatlaðra á Íslandi hefur lyft í bekkpressu. Alls voru það fimm Íslandsmet sem féllu í lyftingakeppninni. Þar voru á ferðinni Daníel Unnar Vignisson og Sveinbjörn Ó. Sveinbjörnsson ásamt áðurnefndum Þorsteini Magnúsi Sölvasyni. Daníel setti Íslandsmet í -125 kg. flokki þegar hann lyfti 240 kg. í hnébeygu en Sveinbjörn setti þrjú Íslandsmet á mótinu í 82,5 kg. flokki. Sveinbjörn tók 160 kg. í hnébeygju, lyfti 100 kg í bekkpressu og tók 165 kg. í réttstöðulyftu en Sveinbjörn keppir í 82,5 kg. flokki.

Úrslit Íslandsmótsins í lyftingum

Boccia
Um 240 keppendur frá 16 aðildarfélögum ÍF tóku þátt í bocciakeppninni sem fram fór í Laugardalshöll. Keppt var í liðakeppni og lukkaðist mótið með miklum ágætum. Nemendur frá FB, ÍKÍ og HR sáu um dómgæslu á mótinu en þannig hefur hátturinn verið síðustu ár að íþróttakennaranemar sjái um dómgæsluna. Það var sveit ÍFR sem sigarði í 1. deild þetta árið en sveitina skipuðu Haukur Gunnarsson, Hjalti Bergmann Eiðsson og Ragnhildur Ólafsdóttir.

Úrslit Íslandsmótsins í boccia

Bogfimi

Keppendur voru alls 28 í bogfiminni þetta árið og er þetta fjölmennast mótið til þessa. Munaði þar mest um 10 þátttakendur í langbogaflokki sem keppt var í nú í fyrsta skipti. Keppt var í opnum flokkum þar sem ófatlaðir einstaklingar voru í meirihluta en tveir keppendur úr röðum fatlaðra tóku þátt og voru það þeir Jón M. Árnason og Ingi Bjarnar Guðmundsson. Jón var einn í Compound flokki og náði í 1028 stig en Ingi var einn í Recurve flokki og landaði þar 830 stigum.

Úrslit Íslandsmótsins í bogfimi

Sund
Að þessu sinni fór Íslandsmótið í sundi í 50m. laug fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði. Venju samkvæmt var mótið fjölmennt og féllu 11 Íslandsmet í laug þeirra Hafnfirðinga. Á mótinu var afhentur sérstakur ,,klappbikar“ sem að þessu sinni féll í skaut heimamanna í Firði. Heimamaðurinn Pálmi Guðlaugsson úr Firði (æfir með Fjölni) setti þrjú Íslandsmet á mótinu en honum næstur var sundmaður úr ÍFR að nafni Hjörtur Már Ingvarsson sem setti tvö Íslandsmet.

Úrslit Íslandsmótsins í sundi