Kynningarfundur um nýjar lyfjareglur

Nýverið var haldinn kynningarfundur á vegum Lyfjaráðs og Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ. Til fundarins voru boðuð sérsambönd og sérgreinanefndir. Aðal umfjöllunarefnið var nýjar alþjóða lyfjareglur sem taka gildi nú um áramót og hvaða áhrif þær hafa á lyfjaeftirlitið.

Meðal þess helsta sem kom fram á fundinum er að í nýjum reglum eru tvö lykilhugtök, staðfesta og sveigjanleiki. Með staðfestu er einkum átt við aukinn möguleika til að beita harðari refsingum. Er þá horft til að harðar sé tekið á einbeittum brotavilja. Er möguleiki á að dæma í allt að fjögurra ára bann fyrir fyrsta brot. Með sveigjanleika er verið að vísa til aukins sveigjanleika gagnvart refsingum og kröfum tengdu lyfjaeftirliti. Með nýjum reglum eru víkkaðir möguleikar til að beita refsilækkun sé sýnt fram á efni hafi verið tekin af vangá og séu þau ekki árangursbætandi. Einnig er hægt að milda refsingu liggi játningar fyrir eða gefi viðkomandi upplýsingar sem leiða til sakfellingar. Einnig gefa nýjar reglur möguleika á að skipta íþróttamönnum í hópa eftir afreksstigi með mismunandi kröfum tengdar lyfjaeftirliti. Meðal þess sem tekið verður upp með nýjum reglum eru kröfur um að íþróttamenn á hæsta afreksstigi skili inn staðsetningarupplýsingum.

Frekari útfærslur verða kynntar sérsamböndum og íþróttamönnum áður en reglurnar taka gildi.