Alþjóðavetrarleikar Special Olympics Idaho 2009

Íþróttasamband Fatlaðra sem er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi sendir 1 keppanda á alþjóðaleika Special Olympics sem haldnir verða Boise, Idaho, USA dagana 7. – 13. febrúar 2009.
Fyrstu íslensku keppendurnir í listhlaupi á skautum á leikum Special Olympics voru Stefán Erlendsson og Sandra Ólafsdóttir en þau tóku þátt á alþjóðaleikum SO í Nagano árið 2005. Á þeim tíma var trú manna misjöfn á að listhlaup á skautum væri grein sem hentaði fyrir fatlaða en þau sýndu og sönnuðu að allt er hægt sé viljinn fyrir hendi, góður þjálfari og markviss þjálfun. Árangur þeirra var ekki síst að þakka Helgu Olsen þjálfara hjá Birninum en hún kynntist starfi með fötluðum í tengslum við verkefnið í Nagano.
Katrín Tryggvadóttir hóf æfingar með listhlaupadeild Skautafélagsins Bjarnarins í kjölfar leikanna í Nagano og Helga Olsen hefur verið þjálfari hennar. Katrín hefur verið valin til keppni í listhlaupi á skautum á alþjóðaleikum Special Olympics sem fram fara í febrúar 2009. Hún mun fara til Idaho ásamt þjálfara sínum, Helgu Olsen og Lilju Guðmundsdóttur, greinastjóra Special Olympics í vetraríþróttum. Hlutverk Lilju auk fararstjórnar verður m.a. að afla upplýsinga og vera ráðgjafi varðandi fyrirkomulag keppnisgreina Special Olympics á sviði vetraríþrótta.
2,500 keppendur frá 113 löndum taka þátt í leikunum. 6,000 sjálfboðaliðar aðstoða við framkvæmd og 800 starfsmenn hafa umsjón með keppnisgreinum. Þúsundir aðstandenda, áhorfenda og fjölmiðlafólks víða að úr heiminum verða á leikunum

Heimasíða alþjóðasamtaka Special Olympics er www.specialolympics.org
Heimasíða leikanna er 2009 Special Olympics World Winter Games

Nánari upplýsingar um leikana