Handhafi Guðrúnarbikarsins árið 2008 er Harpa Björnsdóttir


Guðrúnarbikarinn er bikar sem gefinn var ÍF árið 2000 af Össurri Aðalsteinssyni, félagsmanni í Kiwanisklúbbnum Esju til minningar um eiginkonu hans Guðrúnu Pálsdóttur.

Reglur
Handhafi hans skal valinn ár hvert af stjórn Íþróttasambands Fatlaðra.
Bikarinn skal afhendast árlega við það tilefni sem stjórn ÍF ákveður og verður því farandbikar, þar sem á verður áletrað nafn handhafa. Bikarinn skal afhendast konu þeirri sem hefur starfað sérlega vel í þágu fatlaðs íþróttafólks. Bikarinn má afhenda fyrir störf að þjálfun, félags-störfum eða öðrum þeim verkefnum sem talin eru hafa stuðlað að bættum hag fatlaðs íþróttafólks á árinu. Bikarinn skal afhendast árlega í 10 ár en eftir það skal hann varðveitast hjá Íþróttasambandi Fatlaðra.

Handhafi Guðrúnarbikarsins árið 2008 er Harpa Björnsdóttir

Harpa Björnsdóttir hefur verið formaður íþróttafélagsins Ívars á Ísafirði frá árinu 1994. Félagsmenn Ívars koma frá Ísafirði og nágrannasveitarfélögum en Ívar er eina íþróttafélag fatlaðra á Vestfjörðum. Harpa hefur verið frumkvöðull í starfi að íþróttamálum fatlaðra á Vestfjörðum og verið í forsvari fjölmargra verkefna sem félagið hefur staðið fyrir. Hún hefur einnig verið í forsvari verkefna á landsvísu í samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra. Árið 2001 var haldið Íslandsmót í boccia á Ísafirði og árið 2007 voru haldnir þar Íslandsleikar í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Frá árinu 2002 hefur íþróttafélagið Ívar skipulagt fyrirtækjamót í boccia sem nú hefur þróast í að vera helsta tekjulind félagsins. Harpa hefur verið fararstjóri félagsmanna Ívars á mót innanlands og ötull forystumaður félagsins.

Hún hefur verið valin af ÍF og Special Olympics á Íslandi í fararstjórn á alþjóðamót og hefur hvarvetna vakið athygli fyrir hlýtt viðmót, dugnað og hæfileika í mannlegum samskiptum.

Harpa er einstakur liðsmaður íþróttahreyfingar fatlaðra og stjórn ÍF samþykkti samhljóða að handhafi Guðrúnarbikarsins árið 2008 yrði Harpa Björnsdóttir, formaður Ívars.