Handhafi Guðrúnarbikarsins árið 2008 er Harpa Björnsdóttir | |
Handhafi Guðrúnarbikarsins árið 2008 er Harpa Björnsdóttir Harpa Björnsdóttir hefur verið formaður íþróttafélagsins Ívars á Ísafirði frá árinu 1994. Félagsmenn Ívars koma frá Ísafirði og nágrannasveitarfélögum en Ívar er eina íþróttafélag fatlaðra á Vestfjörðum. Harpa hefur verið frumkvöðull í starfi að íþróttamálum fatlaðra á Vestfjörðum og verið í forsvari fjölmargra verkefna sem félagið hefur staðið fyrir. Hún hefur einnig verið í forsvari verkefna á landsvísu í samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra. Árið 2001 var haldið Íslandsmót í boccia á Ísafirði og árið 2007 voru haldnir þar Íslandsleikar í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Frá árinu 2002 hefur íþróttafélagið Ívar skipulagt fyrirtækjamót í boccia sem nú hefur þróast í að vera helsta tekjulind félagsins. Harpa hefur verið fararstjóri félagsmanna Ívars á mót innanlands og ötull forystumaður félagsins. Hún hefur verið valin af ÍF og Special Olympics á Íslandi í fararstjórn á alþjóðamót og hefur hvarvetna vakið athygli fyrir hlýtt viðmót, dugnað og hæfileika í mannlegum samskiptum. Harpa er einstakur liðsmaður íþróttahreyfingar fatlaðra og stjórn ÍF samþykkti samhljóða að handhafi Guðrúnarbikarsins árið 2008 yrði Harpa Björnsdóttir, formaður Ívars. | |