Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi á Íslandi í október 2009

Dagana 15.-25. október næstkomandi mun Íþróttasamband fatlaðra standa að Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi í innilauginni í Laugardal. Gert er ráð fyrir að 500-600 sundmenn taki þátt í mótinu og er skráning þegar hafin. Undirbúningur fyrir mótið er vel á veg kominn en þann 23. ágúst n.k. verður endanlegur keppendafjöldi staðfestur.

Á blaðamannafundi ÍF miðvikudaginn 22. apríl sagði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF það ánægjulegt hve margir keppendur væru skráðir til leiks og sagði það sérstakt fagnaðarerindi að þroskaheftir sundmenn yrðu með á mótinu. Síðan á Ólympíumóti fatlaðra í Sydney árið 2000 hafa þroskaheftir íþróttamenn ekki fengið að taka þátt í mótum á vegum Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra (IPC). Sökum svindlmáls sem komst upp um í herbúðum Spánverja var þroskaheftum meinaður aðgangur að mótum IPC en nú í fyrsta sinn síðan árið 2000 verður breyting þar á. Evrópumeistaramótið á Íslandi verður fyrsta skrefið í því að innleiða að nýju þroskahefta íþróttamenn inn í mótahald IPC. Samnorræn samstaða hefur verið allar götur síðan 2000 um að hafa þroskahefta íþróttamenn áfram á mótum IPC en það hefur ekki tekist fyrr en nú og því hefur mikill áfangasigur verið unninn í þessum málefnum.

Í tilefni af EM 2009 sem haldið verður á Íslandi undirrituðu ÍF og Össur hf. með sér nýjan samstarfs- og styrktarsamning þar sem Össur hf. verður aðalstyrktaraðili Evrópumeistaramótsins en Össur hf. er einn stærsti samstarfs- og styrktaraðili Íþróttasambands fatlaðra. Það voru Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Sigurborg Arnarsdóttir fjárfestatengill Össurar hf. sem undirrituðu samstarfssamninginn á blaðamannafundinum. Einnig var undirritaður áframhaldandi samstarfs- og styrktarsamningur millum ÍF og  Össurar hf. þar sem Össur hf. verður áfram einn stærsti bakjharl ÍF allt fram til Ólympíumóts fatlaðra í London árið 2012.

Fjölmiðlamaðurinn Heimir Karlsson verður talsmaður Evrópumeistaramótsins og sagði hann á blaðamannfundinum í dag að það væri góður prófsteinn fyrir Ísland að halda viðlíka mót til þess að láta umheiminn vita að hér á landi væri ekki allt á vonarvöl. Heimir mun sinna hinum ýmsu störfum fyrir ÍF er lúta að kynningu mótsins en hann hefur um árabil sýnt ÍF góðvilja og unnið margt þarft verkið til handa fötluðu íþróttafólki.

Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF tók einnig til máls á fundinum og kynnti þann undirbúning sem átt hefur sér stað fyrir Evrópumeistaramótið allar götur síðan árið 2007. „Íslendingar hafa verið ötulir talsmenn þess að þroskaheftir íþróttamenn verði að nýju þátttakendur á mótum IPC og nú er það að verða að veruleika. Þetta eru fyrstu skrefin í að koma þroskaheftum íþróttamönnum inn á Ólympíumót fatlaðra í London árið 2012 og þó mikil vinna sé að baki verða þjóðir heims að halda baráttunni áfram uns fullnaðarsigur vinnst,” sagði Ólafur.

Kristín Rós Hákonardóttir verður verndari mótsins en hún er fyrrum afrekskona í sundi og einhver mesti íþróttamaður Íslandssögunnar. Kristín tók til máls á fundinum:
„Afreksíþróttafólk úr röðum fatlaðra á Íslandi hefur um árabil skipað sér á sess meðal fremstu íþróttamanna heims. Jafnan hafa stærstu afrekin hjá fötluðu íslensku íþróttafólki verið unnin á erlendum vettvangi, svo sem á Ólympíumótum, Heimsmeistaramótum og á Evrópumótum. Að þessu sinni er röðin komin að okkur Íslendingum að bjóða velkomna til okkar marga af fremstu íþróttamönnum heims úr röðum fatlaðra. Það er mjög ánægjulegt að þroskaheftir sundmenn muni taka þátt á mótinu og nú ríður á að við snúum öll bökum saman og sýnum það út á við í verki hvers við erum megnug.
Um 1000 gestir eru væntanlegir til landsins í tengslum við Evrópumeistaramótið og væri það ánægjulegt ef sem flestir myndu bjóða fram krafta sína til aðstoðar því við vitum jú öll að margar hendur vinna létt verk.
Mér er það heiður og sönn ánægja að vera verndari mótsins og vonandi mun árangur minn í sundlauginni vera öðrum íslenskum sundmönnum hvatning á þessu stóra móti,“ sagði Kristín Rós.

Ingi Þór Einarsson formaður sundnefndar ÍF steig einnig í pontu og sagði hann undirbúning sundnefndar hafa hafist í nóvember 2008 þegar ljóst var að EM yrði haldið á Íslandi síðla þessa árs. Ingi Þór sagði markmið Íslands á mótinu vera þau að eiga 12-14 sundmenn á mótinu, koma 4 sundmönnum í úrslit og vinna að minnsta kosti til einna verðlauna.

Geir Sverrisson sá um uppsetningu og útlitshönnun á heimasíðu keppninnar sem er www.ifsport.is/ec2009 en á síðunni má finna allar helstu upplýsingar um mótið og þegar keppni fer fram verða úrslit sett þar inn jafnóðum og þau berast.

Davíð Ingi Jóhannsson hjá t.d. animation sá um hönnun og útsetningu á merki keppninnar.

Nánari upplýsingar um Evrópumeistaramótið í sundi má nálgast á skrifstofu ÍF í síma 514 4080 eða á if@isisport.is

Mynd 1: Frá vinstri: Heimir Karlsson talsmaður EM 2009, Kristín Rós Hákonardóttir afrekssundkona og verndari EM 2009 og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF.
Mynd 2: Frá vinstri: Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Sigurborg Arnarsdóttir fjárfestatengill Össurar hf.