Átta fatlaðir skíðamenn á Andrésar Andar leikunum

Íþróttasamband Fatlaðra fagnar því að á Andrésar Andar leikunum á Akureyri 2009 kepptu fötluð börn og unglingar á skíðum og skíðasleðum. Sérstakur flokkur, "stjörnuflokkur" var settur upp fyrir þennan hóp. Alls átta mættu til leiks og stóðu sig öll mjög vel. Þeir sem eru hreyfihamlaðir kepptu á sérstökum skíðasleðum sem sérhannaðir eru fyrir hreyfihamlað skíðafólk.

Íþróttasamband Fatlaðra og Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri hafa byggt upp samstarf frá árinu 2000 í þeim tilgangi að efla þátttöku fatlaðra í vetraríþróttum. Samstarfsaðilar hafa verið frá Challenge Aspen og Winter Park í Colorado. Haldin hafa verið námskeið í Hlíðarfjalli þar sem fólk hefur komið saman víða af landinu. Síðast var haldið námskeið ÍF, VMÍ og Winter Park í febrúar 2009 og var þátttaka mjög góð.

Skíðafélag Akureyrar, Undirbúningsnefnd Andrésar Andar leikanna 2009, starfsfólk í Hlíðarfjalli og aðrir þeir sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd þessa verkefnis fá innilegar þakkir frá Íþróttasambandi Fatlaðra. Sérstakar þakkir fær Hermína Gunnþórsdóttir, móðir Breka Arnarssonar, skíðamanns en hún tók að sér hlutverk "sendiherra" foreldra fyrir ÍF og hefur reynst mikilvægur liðsmaður í kynningarstarfinu.

Hér má sjá erindi sem Hermína flutti á Andrésar leikunum 2009:

Gleðilegt sumar Andrésarkrakkar, mömmur og pabbar, þjálfarar og aðrir fylgifiskar.
Andrés Önd var svo vinsamlegur að gefa mér nokkrar mínútur í annars þéttskipaðri dagskrá kvöldsins til að segja nokkur orð við ykkur.

Sum ykkar hafa e.t.v. tekið eftir því að á þessum Andrésarleikum er flokkur sem heitir Stjörnuflokkur en þar renna sér krakkar sem eru með einhvers konar fötlun. Í 12 ára flokki keppir einnig strákur sem er með hreyfihömlun og skertan mátt í fótum á svokölluðu monóskíði.

Þetta er í fyrsta skipti sem krakkar með fötlun taka þátt í Andrésarleikunum með formlegum hætti. Mér finnst hins vegar afar líklegt að í gegnum árin hafi krakkar með fötlun keppt á Andrésarleikunum þó það hafi ekki komið sérstaklega fram. Af þessu tilefni langar mig að þakka Andrésarnefndinni fyrir frumkvæðið og að hafa komið þessu af stað. Það er fyrir löngu tímabært að krakkar með fötlun taki þátt í skíðamóti.

Frá því árið 2000 hefur Íþróttasamband fatlaðra í samstarfi við Vetraríþróttamiðstöð Íslands staðið fyrir skíðanámskeiði fyrir fatlaða þar sem markmiðið hefur verið að kynna möguleika fatlaðra til skíðaiðkunar. Afrakstur þessara námskeiða er nú loksins að koma í ljós á margan hátt en í vetur var fullbókað á slíkt námskeið. Það er hins vegar ekki nóg að fara á námskeið einu sinni á vetri, við þurfum að koma upp hópi fatlaðra sem eru virkir skíðaiðkendur og ekki síður keppendur. Þess vegna langar mig að nota þetta tækifæri með þennan glæsilega hóp iðkenda fyrir framan mig og biðja ykkur krakkar, mömmur og pabbar og þjálfarar að benda krökkum - sem eru með einhvers konar fötlun og búa í ykkar samfélagi -á að þau geta alveg stundað skíði eins og allir aðrir. Ef þau geta ekki staðið í fæturna eða eru með skertan mátt geta þau notað það sem kallað er mónóskíði - eins og strákurinn notar sem keppir með 12 ár flokknum - og er eiginlega skíðasleði með einu skíði undir. Ef krakkar hafa lítinn mátt bæði í höndum og fótum geta þau notað það sem kallað er bískíði sem er með tveimur skíðum undir og þá er einhver sem hjálpar þeim að stýra sleðanum. Það er líka til sérstakur gönguskíðasleði fyrir þá sem finnst það skemmtilegri kostur. Það er líka ekkert mál fyrir blinda að stunda skíði og keppa á skíðum!! Það er nefnilega allt hægt með réttum útbúnaði.

Hér á Akureyri er mikill vilji til staðar til að efla skíðaiðkun fatlaðra enn frekar, Andrésarnefndin, Skíðafélag Akureyrar, starfsfólk Hlíðarfjalls og eiginlega bara allir sem tengjast skíðaiðkun hafa verið mjög jákvæðir. Á áðurnefndu námskeiði fyrir fatlaða hér í vetur var fólk sem tengist skiðasvæðum annars staðar á landinu einnig mjög áhugasamt.

Mig langar að ljúka máli mínu með því að hvetja skíðafélögin um allt land sem og Skíðasamband Íslands til til að hjálpa okkur við að fjölga í hópi fatlaðra skíðamanna, hvort heldur sem fólk vill stunda skíði sér til ánægju og lífsfyllingar eða sem keppni . Við erum skammarlega aftarlega á merinni í þessum efnum og við ættum að stefna að því að eignast unglingalandslið fatlaðra skíðamanan innan fárra ára.

Gangi ykkur vel á morgun krakkar og njótið þess að vera saman á þessari einstöku samkomu.

Hermína Gunnþórsdóttir
23. apríl 2009

Myndir: Pedromyndir