Ávarp Sveins Áka formanns ÍF á Sambandsþingi 2009

Heiðursfélagi ÍF, Sigurður Magnússon,
virðulegu gestir og félagar.

Hér fer fram í dag 14. sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra.

Enn höldum við sambandsþing okkar hér á  Radisson SAS, Hótel Sögu og vil ég þakka stjórnendum hótelsins fyrir að styðja við bakið á okkur og færi ég þeim bestu þakkir fyrir þeirra trygglyndi og áhuga á okkar starfi. Ástæða þess að við erum með þingið okkar í Reykjavík að þessu sinni er, fyrir utan að geta verið á þessu glæsilega hóteli, er að á morgun fagnar ÍF 30 ára afmæli og er ætlunin að gera sér dagamun af því tilefni, og munum við halda upp á afmælisdaginn í Krika, sumarhúsi Sjálfsbjargar við Vatnsenda við Elliðavatn. Eru allir þingfulltrúar boðnir velkomnir að vera með okkur og hefst samkoman kl 14:00.

Síðast þegar við komum hér saman til þingstarfa vorum við full bjartsýni og litum björtum augum til framtíðarinnar, enda spennandi verkefni fram undan. Og öll þau verkefni gengu eftir og tók hver stórviðburðurinn við af öðrum.
Ekki ætla ég að nefna öll þessi verkefni hér, þau eru tíunduð í ársskýrslunni en mig langar þó að minnast á þrjá stórviðburði sem stóðu upp úr að mínu áliti.
Þetta voru Norræna barna- og unglingamótið sem haldið var hér á landi s.l. sumar og heppnaðist einstaklega vel, svo vel, að þeir sem stjórnuðu mótinu voru svo vel tengdir og fengu veðurguðina í lið með sér svo hressilega að þá daga sem mótið var, var veður best í Reykjavík í allri Evrópu og t.d höfðu erlendu gestirnir að orði að þeir hefðu aldrei trúað því að hægt væri að spila borðtennis utanhúss, á miðnætti!

Hinir viðburðirnir voru frækileg för fjölmenns hóps á Special Olympics í Shanghai í september 2007 þar sem með var í för, forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarmaður í heiðursstjórn Special Olympics International og ekki síður, verndari okkar. 
Á þessa leika komu einnig forseti Ólympíu- og Íþróttasambands Íslands Ólafur Rafnsson og er það í fyrsta skipti að forseti íþróttahreyfingarinnar á Íslandi kemur sem gestur á stórviðburð hjá fötluðum svo ég viti til og vil ég sérstaklega þakka Ólafi hans áhuga á okkar starfi en við höfum öll fundið hversu áhugasamur hann er um íþróttir fatlaðra. Eins voru í för fulltrúar helsta samstarfsaðila ÍF, Rúmfatalagersins og var mjög ánægjulegt að hafa fulltrúa fyrirtækisins með.
 
Síðasti stórviðburðurinn sem ég vil minnast sérstaklega á, er Ólympíumót fatlaðra sem fór fram í Peking, síðastliðið haust.
Að þessu sinni áttum við færri keppendur en að undanförnu og þrátt fyrir góða frammistöðu allra keppenda, náði enginn þeirra á verðlaunapall og er það í fyrsta skipti síðan 1980 er við hófum þátttöku í Ólympíumótum, sem það gerist.  Ég vil alls ekki draga úr frammistöðu okkar keppenda, það er frábært afrek að komast yfir höfuð á Ólympíumót, en það er áhugavert verkefni til að skoða nánar hvort við getum staðið okkur betur í undirbúningi fyrir næsta mót, í þeirri von að ná til verðlauna í London 2012. Mundi það ekki vera verðugt markmið?
Á Ólympíumótinu í Peking vorum við þess heiðurs aðnjótandi að þáverandi félagsmálaráðherra frú Jóhanna Sigurðardóttir og núverandi forsætisráðherra var ásamt góðu föruneyti, heiðursgestur okkar. 

Var mjög ánægulegt að hafa þau með í för, þau sýndu íslensku keppendunum og leikunum í heild mikinn áhuga, heimsóttu íslensku keppendurna í Ólympíuþorpið og studdu við þau í keppni. Var auðfundin sú virðing sem þau báru fyrir íslensku keppendunum og þeirra stolti að vera Íslendingur þegar þau fylgust með þeim á æfingum og í keppni.

En það hefur margt breyst í heiminum og þá sér í lagi á Íslandi síðan þetta gerðist og ég tala ekki um síðan við komum saman á okkar síðasta þingi.

Svo kölluð heimskreppa er skollin á með öllum sínum afleiðingum. Hafa áhrif hennar orðið einna mest hér á landi og kannski skiljanlega þar sem samfélag okkar er svo lítið og við megum við svo litlu. 
Og ekki hjálpar til að önnur lönd eru í lægð þannig að ekki er þangað að leita með atvinnu eða kaup á afurðum.
Hverjar afleiðingar þetta hefur á íslenskt þjóðfélag til lengdar er ekki vitað en við erum þó þegar farin að finna að við getum ekki lifað á sama hátt og við gerðum.
Sumir vilja meina að við hefðum mátt gæta að okkur á þeirri braut sem við vorum á, við höfum verið komin hratt inn í þotuöld, of hratt fyrir okkar hollustu og getu, en á móti kemur að enginn vill að almenningur þurfi að líða á 21. öldinni, það sé ekki þörf á því.

Þegar ég segi að líða fyrir, þá á ég við að margir hafa tapað eignum sem og vinnu og er það skelfileg tilhugsun. Ekkert getur réttlátt það.
En staðan sem við Íslendingar erum í hefur áhrif á heimilin í landinu, hjá því verður ekki komist. En á heimilum eru ekki bara fyrirvinnur. Þar búa oftast börn og unglingar sem ósjálfrátt dragast inní ástandið.  Það er svo erfitt að aðskilja daglegar áhyggjur frá þeim sem eiga ekki að þurfa að þjást. Börnin dragast inni umræðuna og finna fyrir áhyggjum þeirra sem eru fyrirvinnur.
Ástæða þess að ég nefni þetta hér í mínu ávarpi er, að ég er með áhyggjur af því að þeir erfileikar sem við stöndum nú frammi fyrir munu bitna á þeim sem minnst mega sín.
Á ég þar við öðrum fremur, fatlaða einstaklinga sem þurfa svo nauðsynlega á hreyfingu að halda og dreifingu hugans frá ástandinu. Má segja að ef oft var þörf að nú er nauðsyn að fatlaðir geti stundað íþróttir. Margsinnis hefur verið minnst á þá staðreynd að þegar fatlaðir einstaklingar stunda íþróttir þurfi þeir á minni umönnun og lyfjum að halda, því ástundun hreyfingar og ekki síst þátttaka í félagsstarfi eykur þrek og þol.

Því reynir á íþróttafélögin í landinu að geta haldið úti starfsemi sinni, að þau geti aukið starfið og boðið upp á nýja möguleika.
En hvernig eigið þið að geta þetta? Ríkið hefur boðað aðhald og niðurskurð í fjármálum og margir aðilar sem studdu dyggilega við íþróttahreyfinguna eru horfnir á braut eða hafa ekki bolmagn til að halda áfram stuðningi sínum.

Ég vil nota tækifærið hérna til að segja við ykkur að ég hef fulla trú að þetta mun takast. Þið sem hafið unnið fórnfúst starf við uppbyggingu íþrótta fyrir fatlaða, þið farið ekki að láta ástandið nú, eyðileggja ykkar starf. Fyrir þetta vil ég þakka ykkur af heilum hug og með aðdáun. Sem betur fer eruð þið íslensk og við Íslendingar erum ekki þekkt fyrir að gefast upp.
Þegar eitthvað bjátar á, kemur upp samheldni hjá okkur, samheldni sem skilar árangri.  Þannig hefur það verið frá upphafi landsbyggðar og þannig verður það áfram, ekki erum við neinir ættlerar, eða hvað?

Ég get fyrir munn þeirra stjórnarmanna ÍF sem nú eru í stjórn að það er fullur einhugur á að beina þeim tilmælum til þeirra sem veljast til stjórnar á þessu þingi að leggja áherslu á komandi tímum á uppbyggingu á starfinu innanlands en um leið að missa ekki sjónar á þeim hvata sem ávallt þarf að vera til staðar til uppbyggingar íþrótta og þátttöku og frammistöðu á stórmótum.

Ég vil taka það fram hér og eins og kemur fram í ársreikningum okkar sem liggja frammi, að ÍF hafði þá gæfu að tapa ekki sparnaði sínum í hremmingum vetrarins og eigum við fjármagn til að halda áfram starfsemi okkar, þrátt fyrir fyrirhugaðan niðurskurð ríkisvaldsins.

Á nýafstöðnu þingi Ólympíu- og íþróttasambands Íslands, minntist gjaldkeri ÍSÍ á að það væri ákjósanlegt ef til væru í sjóði eignir sem gætu haldið uppi starfseminni í heilt ár án utankomandi fjármagns og erum við svo lánsöm að vera  nánast í sömu stöðu og ÍSÍ hvað það varðar.

Einnig er mér það mikil ánægja að geta sagt ykkur að við höfum nýlega endurnýjað samstarfssamninga okkar við Rúmfatalagerinn og Össur hf, Actavis og Olís, og fleiri endurnýjanir eru á döfinni. Síðan eru nokkrir samningar enn virkir s.s. við Icelandair og Radisson SAS, Hótel Sögu og höfum við fulla trú á að þeir verði endurnýjaðir þegar að því kemur.

En ÍF hefur ekki bara gert samninga á fjárhagslegum grunni. Aukið hefur verið samstarf við önnur sérsambönd og eins hefur ÍF tekið þátt í ýmsum verkefnum sem stuðla óbeint að getu á íþróttalegum grunni s.s. rannsóknarverkefni í samstarfi ÍF og Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum við Háskóla Íslands, - RHÍ.
En sem betur fer eru einnig fram undan spennandi tímar.

Ísland mun senda fjölmarga keppendur á Norrænt barna- og unglingamót sem haldið verður í Svíþjóð í sumar, það verður Evrópumeistaramót í borðtennis á Ítalíu, við sendum sundfólk á Global Games  í Tékklandi, margvísleg Special Olympics mót standa til boða og svo framvegis.

En stærsta verkefni ÍF á þessu ári verður Evrópumeistaramótið í sundi sem haldið verður hér í  Reykjavík í október n.k. og er væntanlegur til landsins stór hópur keppenda eða um 500 keppendur. Evrópumeistaramót í sundi hefur ekki verið haldið í fjölmörg ár og er mjög mikill áhugi fyrir mótinu, og þá ekki síst fyrir að þetta verður í fyrsta sinn síðan árið 2000 í Sydney, sem þroskaheftir taka þátt í móti á vegum IPC. Aðdragandinn að því að mótið er haldið hér er, að Ísland ásamt hinum Norðurlöndum hefur beitt sér fyrir að þroskaheftir verði aftur teknir inn í keppni þar sem ekki væri sanngjarnt að refsa öllum fyrir það sem Spánverjar brutu af sér, og mikið hefur verið rætt um. Því þótti rétt að þegar tillaga okkar um endurkomu þroskaheftra í keppni var samþykkt að við tækjum að okkur að halda fyrsta mótið, Evrópumeistaramótið í sundi.

Mig langar til að þakka þremur konum sérstaklega fyrir þeirra aðstoð og skilning á að þetta skuli vera framkvæmanlegt, en þær eru Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Langar mig í þessu sambandi að breyta orðatiltæki Grettis Ásmundssonar forðum og segja nú: “Ber er hver að baki nema sér konur eigi!”
Á upphafsárum ÍF, fyrir 30 árum var kannski ekki beinlínis markmið hjá þeim sem lögðu af stað með íþróttir fyrir fatlaða að verða heims- og/eða ólympíumeistarar, þó hefur það eflaust verið ofarlega í draumum þeirra og þrám, enda sýndi það sig fljótlega að þetta markmið var ekki óraunhæft, þótt erfitt væri.

Árangur fatlaðra Íslenskra íþróttamanna vakti fljótlega heimsathygli. Frá fyrsta Ólympíumótinu sem við tókum þátt í 1980 í Arnheim í Hollandi sem og Evrópu- og heimsmeistaramótum hafa 40 Íslendingar stigið á verðlaunapall. Margsinnis hefur íslenski þjóðsöngurinn hljómað þegar íslenskum keppanda voru afhent gullverðlaun.

Þessi árangur hefur verið uppörvun fyrir marga unga fatlaða einstaklinga sem dreymir um að feta í fótspor okkar fræknu hetja. Á síðasta þingi hafði ég á orði að ég hefði ekki tíma til að nefna alla þá sem hafa gert garðinn frægan innan okkar raða og að það myndi reyna á þolinmæði fundarstjóra og gesta að telja þá alla upp.
En nú, og þá sérstaklega þar sem við erum að fagna 30 ára starfi okkar, viljum við gera meira en að telja þá upp.
Hefur stjórn ÍF samþykkt að veita viðurkenningu öllum þeim einstaklingum sem hafa gert garðinn frægan fyrir Íslands hönd úr röðum fatlaðra og hafa unnið til verðlaunasætis á Evrópu-, heims- eða Ólympíumóti, sem og öllum þeim sem hafa verið kosnir íþróttamenn og konur ársins.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllu þessu frábæra íþróttafólki fyrir þeirra afrek.
Eins vil ég einnig nota tækifærið hér og þakka fráfarandi stjórn, varastjórn, svo og öllu því góða fólki sem setið hefur í hinum fjölmörgu nefndum, framlag til starfsins, þeirra athugasemdir og innlegg. Án ykkar hefði starfið ekki orðið svona öflugt.
Sérstaklega vil ég þakka Erlingi Þ. Jóhannssyni sem nú dregur sig í hlé frá stjórnarsetu hjá ÍF.   Erlingur hefur í gegnum árin verið einn helsti uppbyggjandinn í sundstarfi hjá fötluðum og hefur sýnt ótrúlega elju og fórnfýsi, svo ég tali ekki um árangur.

Að öðrum ólöstuðum hefur hans starf við uppbyggingu sundsins skilað ótrúlegum árangri og eru íslenskir sundmenn með fleiri viðurkenningar en nokkur önnur þjóð, svo miðað sé við hinn margumtalaða fólksfjölda. En Erlingur hefur ekki látið sér nægja að þjálfa og byggja upp nýtt afreksfólk, hann hefur einnig setið í stjórn og varastjórn ÍF um árabil og leiðbeint okkur þar með sömu víðsýni og þekkingu, talandi ekki um þolinmæði. Vil ég fyrir hönd stjórnar og ekki síður persónulega, þakka honum fyrir allt hans starf og þó hann ætli að hætta að leiðbeina stjórnarmönnum, veit ég að hann er ekki hættur með framtíðar heimsmeistara.

Einnig vil ég þakka Kristjáni Svanbergssyni, fráfarandi gjaldkera ÍF sem ekki gefur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Þó hann hafi einungis starfað eitt kjörtímabil að þessu sinni en hann var gjaldkeri áður, hefur starf hans verið árangursríkt. Vil ég því færa honum bestu þakkir.

En það er ekki eingöngu stjórn sem kemur að máli. Við höfum verið lánsöm að hafa samheldið starfsfólk sem hefur starfað lengri og skemmri tíma á skrifstofu ÍF. Þeirra þekking og trúmennska verður seint fullþökkuð. Vil ég því fyrir hönd stjórnar færa þeim okkar bestu þakkir fyrir þeirra störf.

Sem ritstjóri Hvata, tímarits okkar, vil ég minnast aðeins á útkomu blaðsins.
Við höfum ekki farið varhluta af ástandinu sem ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar hvað við kemur útgáfu Hvata, en útgáfan hefur verið fjármögnuð með auglýsingum og styrktarlínum.  Seinna tölublað síðasta árs kom út sem aukablað með Fréttablaðinu og vildum við með því, minna á okkur þó með minna sniði en venja er til. Það er von okkar sem að útgáfunni vinnum, að okkur takist að koma út hefðbundnu blaði núna á afmælisárinu, en róðurinn er þungur.

Að loknu þessu þingi mun ný stjórn taka við og vinna að málefnum íþrótta fatlaðra næstu tvö árin. Hennar bíða ærin verkefni, því eins og þið sjáið á þinggögnum og fjárhagsáætlun, liggja margvísleg málefni sem og tillögur fyrir þessu þingi. 
Vonandi verða þær sambandinu til góðs enda tilgangurinn að efla starfið og færa það nær starfsháttum ÍSÍ.
Góðir gestir, þingfulltrúar, ég óska ykkur farsæls og árangursríks þings og lýsi 14. sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra sett.