Íslenski hópurinn hóf æfingar í dag

Íslenska keppnishópnum var ekki til setunnar boðið í dag og hóf æfingar í og við keppnisstaði sína á Ólympíumótinu í Peking en keppni hefst þann 7. september næstkomandi. Fyrst í röðinni er Sonja Sigurðardóttir sem syndir í 50m baksundi þann 8. september.

Ingi Þór Einarsson annar tveggja sundþjálfara Íslands í ferðinni var með sundfólkinu við æfingar í Vatnsteningnum í dag og bar hann sundhöllinni góða söguna;

,,Sundliðið æfði í vatnsteningnum. Höllin er svakaleg, einu orði sagt, auðvitað er laugin bara 25*50 m og hún er full af vatni, en það er svo margt annað í kring, sem spilar inni í. Það væri hægt að æfa fallhlífarstökk úr loftinu og skíðastökk úr stúkunni. Eyþóri og Sonju fannst svakalega gott að synda í lauginni og fundu sig mjög vel, þrátt fyrir að vera ennþá með ferðaþreytu. Við erum öll spennt fyrir framhaldinu,'' sagði Ingi en sundhópurinn æfir aftur í keppnislauginni í hádeginu á morgun.

Kári Jónsson er þjálfari frjálsíþróttamanna Íslands í ferðinni en þeir Baldur Ævar Baldursson, langstökk, og Jón Oddur Halldórsson 100m spretthlaup æfðu við Fuglshreiðrið í dag. Frá og með morgundeginum mega þeir hefja æfingar á leikvanginum sjálfum. Leikvangurinn er gríðarstór og tekur 91 þúsund manns í sæti.

Arnar Már Jónsson er lyftingaþjálfari Þorsteins Magnúsar Sölvasonar í ferðinni og þeir félagar gerðu sér ferð á keppnissvæðið í lyftingunum. Þorsteinn sagði aðstöðuna eina þá bestu sem hann hefið augum barið og átti vart orð til að lýsa keppnisstaðnum. Þorsteinn keppir í bekkpressu þann 14. september í -75 kg flokki.

Gullkorn dagsins eru í boði Inga Þórs sundþjálfara: Getur verið að minnsta eining af Kínverjum sé 1000, það eru allavega aldrei færri saman en það?

Spakmæli dagsins: Whoever said, 'It's not whether you win or lose that counts,' probably lost.
Martina Navratilova, American Tennis Player

Mynd: Ingi Þór Einarsson sundþjálfari ásamt Eyþóri Þrastarsyni sundmanni. Kapparnir standa framan við byggingu C8 í Ólympíuþorpinu en þar hefur íslenski hópurinn aðsetur.