Eyþór Þrastarson er fæddur árið 1991 og er uppalinn
Reykvíkingur.
Eyþór Þrastarson er nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík.
Hann hefur undanfarið ár tekið miklum framförum í sundlauginni og er nú einn
besti sundmaður í flokki blindra sem Ísland hefur átt. Eyþór er blindur frá
fæðingu og keppir í flokki S11 en hann syndir fyrir Íþróttafélag fatlaðra í
Reykjavík, ÍFR og Sundfélagið Ægi þar sem hann hefur stundað æfingar frá
því er Ólympíumótinu í Peking 2008 lauk. Þjálfarar Eyþórs frá upphafi eru
Erlingur Jóhannsson, Jón Heiðar Jónsson, Halldór Guðbergsson hjá ÍFR og Jacky
Pellerin hjá Ægi.
Árangur Eyþórs á árinu 2009
-
Í mars tók Eyþór þátt í Íslandsmóti ÍF í 50m. laug og vann þar
þrenn gullverðlaun sem og að sigra í 400m. skriðsundi í opnum flokki. Í
nóvember vann Eyþór til fernra gullverðlauna á Íslandsmóti ÍF í 25 m. laug sem
fram fór í Laugardal.
-
Á Ármannsmótinu sem fram fór í aprílmánuði og fatlaðir voru
meðal keppenda bætti Eyþór 12 og 13 ára gamalt Íslandsmet sundkappans Birkis
Rúnars Gunnarssonar í 200 m og 400 m skriðsundi
-
Í maí tók Eyþór þátt á Opna þýska meistaramótinu í sundi þar
sem hann gerði sér lítið fyrir og setti Evrópumet í flokki blindra í 800 m
skriðsundi. Þetta er jafnframt Íslandmet í greininni.
-
Í október sl. tók Eyþór í fyrsta sinn þátt í
Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór hér á landi. Þar var
Eyþór eini Íslendingurinn sem vann til verðlauna er hann hlaut silfurverðlaun
í 400 m skriðsundi. Þá sló hann einnig 13 ára gamalt Íslandsmet Birkis Rúnars
í 50 m skriðsundi auk þess að hafna í 8. sæti í 100 m skriðsundi og 7. sæti í
100 m baksundi.
-
Alls hefur Eyþór nú á árinu sett fjögur Íslandsmet sem öll
voru áður í eigu Birkis Rúnars Gunnarssonar, þess öfluga sundmanns frá árum
áður.
|