Rúmlega 200 manns frá 15 aðildarfélögum ÍF tóku þátt í Íslandsmótinu í
einliðaleik í boccia sem fram fór í Laugardalshöll. Sú hefð hefur skapast
að aðildarfélög ÍF eru framkvæmdaraðilar þessa Íslandsmóts en tilgangur þess er
m.a. að kynna starfsemi þeirra félaga sem standa að mótinu. Íþróttafélagið
Ösp var framkvæmdaraðili að þessu sinni í samvinnu við Íþróttasamband
fatlaðra. Nemendur frá Fjölbrautskólanum í Breiðholti aðstoðuðu við dómgæslu
og fjölmargir aðstoðuðu íþróttafélagið Ösp við framkvæmd mótsins. Lokahóf
var haldið í Fjörukránni í Hafnarfirði þar sem mikil stemming ríkti í
gærkvöldi. Skipulag og framkvæmd mótsins var íþróttafélaginu Ösp til
mikils sóma og Íþróttasamband Fatlaðra óskar félaginu til hamingju með glæsilegt
Íslandsmót.
Upplýsingar um Íþróttafélagið Ösp www.ospin.is
Íþróttafélagið Ösp var
stofnað 18. maí, 1980 af foreldra- og kennarafélagi Öskjuhlíðarskóla, með
stuðningi frá Íþróttasambandi Fatlaðra. Stofnfundurinn fór fram á Þingvöllum.
Markmið Íþróttafélagsins Aspar er að standa fyrir íþróttastarfi sem
byggir á því að hver og einn iðkandi fái að njóta sín sem best. Í boði eru
fjölbreyttar íþróttagreinar á vegum félagsins og einnig eru fimleikaæfingar í
nafni félagsins í samstarfi við fimleikafélagið Gerplu.
|