Íþróttasamband Fatlaðra hefur það að markmiði að auka
enn frekar samstarf við Sérsambönd ÍSÍ. Ýmis samstarfsverkefni verið þróuð
með góðum árangri en sum verkefni hafa ekki skilað þeim árangri sem stefnt var
að og nýjar greinar ekki náð að festast í sessi. Með nýrri stefnu um skóla án
aðgreiningu og áherslu á að fötluð börn séu með sínum jafnöldrum er mikilvægt að
komið sé til móts við þennan hóp hjá almennum íþróttafélögum. Mikilvægt er
að skapa valkosti og gefa fötluðum börnum tækifæri á að velja greinar sem
ekki eru í boði hjá aðildarfélögum ÍF:
Ný samstarfsverkefni haustið 2008 Í tengslum við þátttöku
Íslands í Alþjóðavetrarleikum Special Olympics 2009 hefur verið óskað samstarfs
við Skautasamband Íslands og aðildarfélög þess. Markmið er að efla
þátttöku fatlaðra í skautaíþróttum. Badmintonsamband Íslands hefur sýnt
áhuga á samstarfi í þeim tilgangi að efla þátttöku fatlaðra í badminton en keppt
er í badminton á alþjóðaleikum Special Olympics. Fyrirhugaður er
fundur frjálsíþróttanefndar ÍF með Frjálsíþróttasambandi Íslands en
nefndin vinnur nú að áætlun um aukna þátttöku fatlaðra í frjálsum íþróttum og
árangurstengd markmið.
Ýmis samstarfsverkefni sem verið hafa í gangi undanfarin
ár Íþróttasamband Fatlaðra hefur undanfarin ár þróað samstarf við
ýmis sérsambönd innan ÍSÍ. Samstarf hefur verið við Fimleikasamband
Íslands í tengslum við starfsemi Special Olympics og fimleikafélagið Gerpla
hefur staðið fyrir fimleikaæfingum fyrir fatlaða í samstarfi við íþróttafélagið
Ösp. Samstarf við Golfsamband Íslands var þróað í þann farveg að
komið var á fót Golfsamtökum fatlaðra á Íslandi en forsvarsmaður er Hörður
Barðdal. Samstarf við Knattspyrnusamband Íslands hefur tengst
Íslandsleikum Special Olympics og Sparkvallaátaki þar sem meginmarkmið er að
efla þátttöku fatlaðra í knattspyrnu. Samstarf við Sundssamband Íslands
hefur falist í ýmsum verkefnum m.s. aðstoð dómara frá SSÍ á Íslandsmótum
ÍF. Samstarf við önnur sérsambönd hefur verið óformlegt en m.a. hefur
Frjálsíþróttasamband Fatlaðra lagt til landsliðsbúninga fyrir fatlað
frjálsíþróttafólk sem keppir erlendis. Samstarf við borðtennissamband Íslands
hefur tengst ráðgjöf og mótahaldi en þjálfarar ÍF hafa tengst starfi BTÍ.
Fyrir nokkrum árum var farið í samstarf við Siglingasamband Íslands þar sem
markmið var að kynna sérhannaða báta fyrir fatlaðra. Samstarf við
Danssamband Íslands var fyrir nokkrum árum þar sem markmið var að kynna
hjólastóladans og samstarf var við Körfuknattleikssamband Íslands vegna
hjólastólakörfubolta. Ýmsar greinar sem kynntar hafa verið í
samstarfi við sérsambönd hafa verið í boði í ákveðinn tíma en ekki náð
fótfestu.
Samstarf hefur einnig verið við erlenda aðila vegna ákveðinna greina s.s.
Challenge Aspen og Winter Park í Colorado vegna vetraríþrótta og samstarf við
aðila í Noregi og Bretlandi vegna þróunarverkefna á sviði reiðmennsku og
reiðþjálfunar fatlaðra.
|