Kolbrún Alda er fædd árið 1997
er nemandi við Lækjarskóla í Hafnarfirði og hefur æft sund með Íþróttafélaginu Firði. Hún hóf ferilinn hjá Ólafi Þórarinssyni þjálfara, þegar hún var lengra komin þá fór hún til Helenu Hrundar Ingimundardóttur þjálfara sem hefur náð einstökum árangri með Kolbrúnu Öldu. Kolbrún er í flokki S14 (flokkur þroskahamlaðra). Í október síðastliðinn skipti Kolbrún Alda um sundfélag innan bæjarmarkanna í Hafnarfirði og æfir nú með SH en keppir fyrir Fjörð. Þjálfari Kolbrúnar Öldu hjá SH er Mladen Tepavcevic.
-
Í janúar 2011 varð Kolbrún Alda handhafi sjómannabikarsins eftirsótta þegar hún vann besta afrekið á Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga. Kolbrún Alda fékk þá 594 stig fyrir 50m. skriðsund er hún kom í bakkann á tímanum 34,44 sek.
- Á RIG 2011 vann Kolbrún Alda besta afrek kvenna á mótinu.
- Kolbrún Alda hlaut afreksstyrk úr sjóði ungra og framúrskarandi íþróttamanna í janúarmánuði.
- Í maí setti Kolbrún Alda sitt fyrsta Íslandsmet á Landsbankamóti ÍRB og sló þá 19 ára gamalt met í 200m. baksundi á tímanum 3.11,97mín.
- Kolbrún Alda var í sigurliði Fjarðar sem varð bikarmeistari ÍF í sundi 2011.
- Annað Íslandsmet Kolbrúnar Öldu var í 200 m. skriðsundi í 25m laug á tímanum 2:33,05 mín. á Akranesleikunum sem haldnir voru 10.-12. júní.
-
Á Fjarðarmótinu bætti Kolbrún Alda þriðja Íslandsmetinu við og um leið sitt eigið met í 200 m. skrið er hún synti á tímanum 2:28,92mín.
-
Dagana 24. september til 4. október keppti Kolbrún Alda á Global Games á Ítalíu í 50m útilaug. Kolbrún Alda setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 200m. skriðsundi á tímanum 2:30,83 mín. Kolbrún keppti svo í úrslitum í 200m. skriðsundi þar sem hún hafnaði í 6. sæti. Kolbrún setti Íslandsmet í undanrásum í 400m. skriðsundi er hún synti á 5:20,99mín. og bætti það svo aftur í úrslitum þegar hún hafnaði í 5. sæti á tímanum 5:16,31 sek. Hún bætti því Íslandsmetið sem hún setti í undanrásum um 4,6 sekúndur.
-
Í október setti Kolbrún Alda nýtt Íslandsmet í 100m. skriðsundi á tímanum 1:10,21mín. á Extra-Stórmóti SH í 25m. laug.
-
Dagana 19.-20. nóvember fór Íslandsmót ÍF fram í 25m. laug þar sem Kolbrún Alda setti þrjú ný Íslandsmet. Fyrst í 100m. skriðsundi á 1:09,92mín. Annað metið var í 50m. skriðsundi á tímanum 31,86 sek og þriðja metið kom í 400m. skriðsundi er Kolbrún synti á 5:10,25mín.
-
Kolbrún Alda er handhafi 10 Íslandsmeta í 7 greinum, bikarmeistari og margfaldur Íslandsmeistari árið 2011. |