Íþróttasamband fatlaðra hefur valið Jón Margeir Sverrisson Íþróttamann ársins 2011

Íþróttamaður fatlaðra 2011, Jón Margeir Sverrisson

Jón Margeir er fæddur árið 1992

er nemi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og sundmaður hjá Ösp/Fjölni. Árið 2011 hefur verið afdrifaríkt hjá Jóni þar sem hvert Íslandsmetið hefur fallið af öðru og Jón er okkar fremsti sundmaður í flokki S14 (flokkur þroskahamlaðra).

Þjálfarar Jóns Margeirs frá upphafi eru: Ingi Þór Einarsson, Ingigerður Maggý Stefánsdóttir og Vadim Forafonov.

  • Jón Margeir hóf árið á nýju Íslandsmeti í 400 m. skriðsundi á Reykjavík International Games. Jón synti þá á tímanum 4:36,18 mín. Á sama móti setti Jón svo annað met og þá í 100m. skriðsundi á tímanum 59,05 sek. Á mótinu náði hann A-lágmarki fyrir Ólympíumót fatlaðra í London 2012.
  • Í febrúar keppti Jón á Gullmóti KR og setti þar tvö Íslandsmet, það fyrra í 800 m. skriðsundi á tímanum 9:43,18 mín og svo í 1500 m. skriðsundi á 18:22,09 mín. Á mótinu náði Jón B-lágmarki í 100m. bringusundi fyrir Ólympíumótið í London.
  • Íslandsmót ÍF í sundi fór fram í marsmánuði þar sem Jón var í fantaformi og setti fjögur ný Íslandsmet. Fyrst í 100 m. skriðsundi á 57,82 sek. næst var komið að 50 m. bringusundi en þá var Jón á 35,48 sek. Þriðja metið á mótinu kom í 200 m. skriðsundi er Jón synti á 2:08,29 mín. Í 50 m. skriðsundi kom svo fjórða metið er Jón kom í bakkann á 26,37 sek.
  • Dagana 8.-10. apríl tók Jón Margeir þátt í opna breska meistaramótinu. Þar setti hann nýtt Íslandsmet í 100 m. skriðsundi á tímanum 58,19 sek. Á mótinu náði Jón B-lágmarki í 100m. baksundi fyrir Ólympíumótið í London.
  • Síðar í apríl keppti Jón Margeir á opna þýska meistaramótinu, þar kom nýtt Íslandsmet í undanrásum í 200 m. skriðsundi, 2:05,98 mín. Í úrslitum bætti hann sama met á nýjan leik þegar hann synti á 2:05,92 mín og vann til silfurverðlauna fyrir vikið. Fyrsta heimsmet ársins leit dagsins ljós á mótinu þegar Jón synti á 9:07,25 mín. í 800 m. skriðsundi og þá var millitíminn hans í sundinu einnig nýtt Íslandsmet í 400 m. skriðsundi, 4:32,38 mín. Síðasta metið á þýska meistaramótinu kom í 100 m. skriðsundi þegar Jón synti á 56,97 sek. í úrslitum en í undanrásum sundsins hafði hann einnig synt á nýju meti og bætti það aftur í úrslitum.
  • Vormót Aspar fór fram í maí í 25m. laug þar sem Jón varð stigahæsti sundmaður mótsins og setti tvö ný Íslandsmet, í 50 m. skriðsundi synti hann á 25,76 sek. og í 100 m. skriðsundi synti hann á 56,79 sek.
  • Annað heimsmet ársins setti Jón í Vatnaveröld í Reykjanesbæ á bikarmóti ÍF í 25m. laug. Synti Jón á 2.00,74 mín. í 200 m. skriðsundi. Tvö Íslandsmet voru einnig á dagskránni hjá Jóni þetta mótið, 55,95 sek. í 100 m. skriðsundi og 25,60 sek. í 50 m. skriðsundi.
  • Í júní var Jón Margeir í hópi íþróttamanna sem fóru á vegum ÍF í æfingabúðir í Stoke Mandeville á Englandi en búðirnar voru liður í undirbúningi fyrir Ólympíumót fatlaðra 2012.
  • Í júlí keppti Jón á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi í Berlín. Þar setti hann nýtt Íslandsmet í 100 m. bringusundi og missti af bronsverðlaunum með örfáum sekúndubrotum. Tími Jóns var 1:13,92 og millitíminn á 50 metrunum var einnig nýtt Íslandsmet, 34,70 sek. Á mótinu náði Jón A-lágmarki í 100m. bringusundi fyrir Ólympíumótið í London.
  • Í lok september setti Jón þrjú ný Íslandsmet á Haustmóti Ármanns í 25 m. laug, fyrsta metið var í 400 m. skriðsundi, 4:28,86 mín. Annað metið í 800 m. skriðsundi á 8:59,21 mín. og þriðja met Jóns á mótinu kom í 1500 m. skriðsundi á tímanum 17:01,17 mín.
  • Global Games eða Heimsleikar þroskahamlaðra íþróttamanna fóru fram á Ítalíu í lok september og byrjun október. Í 400 m. skriðsundi setti Jón Íslandsmet í undanrásum og bætti það svo aftur í úrslitum á tímanum 4:24,08 mín. og vann til silfurverðlauna fyrir vikið. Jón vann silfurverðlaun í 100 m. skriðsundi en gullverðlaun og nýtt Íslandsmet litu dagsins ljós í 1500 m. skriðsundi á tímanum 17:28,99 mín.
  • ·Í októberlok setti Jón tvö ný heimsmet á Extra-Stórmóti SH. Jón Margeir keppti þá í 1500m. skriðsundi á tímanum 16:47,98 mín. Þá var millitími Jóns í 800m. skriðsundi einnig nýtt heimsmet. Millitíminn í 400m. skriðsundinu var 4:24,79 mín. og þá var tíminn í 800m. 8:55,89 mín.
  • Íslandsmót ÍF í 25 m. laug fór fram í nóvember þar sem Jón bætti við enn einu Íslandsmetinu og að þessu sinni setti hann nýtt met í 50 m. bringusundi á tímanum 33,17 sek.
  • Í byrjun desember hélt Jón til Hollands á opið lágmarkamót þar sem hann tvíbætti Íslandsmetið í 200 m. skriðsundi. Í undanrásum synti hann á 2:05,54 mín. og í úrslitum synti hann á 2:03,84 og hafnaði í þriðja sæti og komst fyrir vikið í 6. sæti heimslistans.
  • Jón hefur setti 41 Íslandsmet á árinu og fjögur heimsmet!