Fyrsta ráðstefna Special Olympics á Íslandi - Raddir hagsmunahópa

Knattspyrnukapparnir Jakob og Sæþór ásamt velferðarráðherra Hr. Guðbjarti Hannessyni. Fyrsta Special Olympics ráðstefnan á Íslandi var haldin laugardaginn 25. febrúar 2012 á Hótel Sögu.

Raddir hagsmunahópa hljómuðu og ítrekað kom fram að þátttaka í íþróttastarfi þar sem einstaklingur nýtur hæfileika sinna og þarf að takast á við margvíslegar áskoranir getur haft jákvæð áhrif og aukið lífsgæði.Ráðstefnustjórar úr hópi iðkenda stýrðu dagskrá af röggsemi en það voru þau Inga Hanna Jóhannesdóttir, Jón Þórarinsson og Ólafur Þormar. Meginþema ráðstefnunnar voru reynslusögur keppenda, þjálfara og aðstandenda sem verið hafa á alþjóðaleikum Special Olympics.Sveinn Áki Lúðvíksson, forseti Special Olympics á Íslandi bauð fólk velkomið og setti ráðstefnuna og þá tók við ávarp Velferðarráðherra, hr. Guðbjarts Hannessonar. Hann var viðstaddur alla ráðstefnuna ásamt Þór Þórarinssyni frá Velferðarráðuneytinu og það kunnu ráðstefnugestir vel að meta.Í kjölfar ávarps ráðherra kynnti Anna Karólína Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi dagskrá og markmið ráðstefnunnar.Einnig var kynntur bæklingur sem nemendur sérdeildar FB höfðu unnið um þátttöku Íslands á alþjóðaleikum Special Olympics. Þá tóku við erindi frá iðkendum, aðstandendum og þjálfurum sem sögðu frá eigin upplifun og reynslu.Sæþór Jensson og Jakob Alexander Aðils, knattspyrnumenn og Elva Gunnarsdóttir og Helgi Magnússon, fimleikafólk sögðu frá sinni upplifun. Öll voru þau sammála því að í gegnum íþróttastarfið hefðu skapast ný tækifæri, þau hefðu eignast þar góða vini og félaga, öðlast aukið sjálfstraust, tekist á við margvísleg ný verkefni og ekki síst fengið tækfæri til ævintýralegra ferðalaga á alþjóðaleika Special Olympics.

Aðstandendur sem hafa verið viðstaddir alþjóðaleika, Sigrún Birgisdóttir, Bryndís Sumarliðadóttir, Guðmundur Sigurðsson, Karen ÁstaFriðjónsdóttir, Halla Björg Baldursdóttir og Ásta Friðjónsdóttir voru með mjög athyglisverð erindi á ráðstefnunni. Í máli þeirra allra kom fram að þátttaka í íþróttastarfinu hafði haft margvísleg jákvæð áhrif og m.a. stuðlað að auknu sjálfstrausti og lífsgleði, sterkari sjálfsmynd og félagsfærni og færni til að takast á við ný verkefni. Áhersla var einnig lögð á gildi þess að áskoranir væru til staðar og að allir gætu átt kost á að velja umhverfi þar sem hæfileikar fá að njóta sín.

Allir sem fluttu erindi á ráðstefnunni lögðu mikinn metnað í sitt framlag og ráðstefnugestir virtust mjög ánægðir með framsetningu og dagskrá ráðstefnunnar.Skemmtiatriði Sigurðar Vals Valssonar sló í gegn og fólk veltist um af hlátri þegar hann steig á svið og hermdi eftir þekktum persónum með miklum stæl.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson bauð ráðstefnugestum í síðdegishóf kl. 18.00 á Bessastöðum. Þar var vel tekið á móti hópnum og fólki boðið að skoða Bessastaði en margir höfðu ekki komið þar áður.

Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi þakkar öllum þeim

sem lögðu lið við að undirbúning og skipulag ráðstefnunnar

 Innlegg keppenda, þjálfara og aðstandenda verða aðgengileg á heimasíðu ÍF / Special Olympics www2.ifsport.is