KAJAK– OG KANÓRÓÐUR SEM ÞJÁLFUN OG LÍFSNAUTN HJÁ FÖTLUÐUM
Fátt skapar meiri tilfinningu fyrir frjálsræði, friðsemd og fegurð en að líða hljóðlaust og átakalítið á vatnsfletinum á kajak eða kanó. Það er friðsælt kvöld í fögru umhverfi.
Kajak- og kanósport ( hér eftir nefnt kajaksport) nýtur sívaxandi vinsælda hér á landi eftir að hafa lagst af að miklu leiti í mörg ár eða áratugi. Ein af ástæðum þess að vinsældir aukast er eflaust sú að allur búnaður fer batnandi og hentar betur íslenskum aðstæðum en áður var.
Erlendis hefur íþrótt þessi verið mikið stunduð þar sem þannig háttar, bæði sem keppnisíþrótt en þó fyrst og fremst sem útilífssport og leið til að njóta náttúrunnar, svipað og fjallgöngur, skíðamennska og hjólreiðar. Hún er í hæsta máta vistvæn, veldur hvorki loft- né hljóðmengun né skilur eftir sig merki í náttúrunni (ef undan eru skildar gárur á vatnsborðinu).
Búnaður sem þarf er tiltölulega einfaldur, auðmeðfarinn og viðhalds- og rekstrarkostnaður er hverfandi. Þá er auðvelt að flytja búnaðinn með sér á ferðum um landið. Stofnkostnaður er hins vegar talsverður.
Kajaksportið hentar mörgum fötluðum mjög vel. Má þar sérstaklega nefna mænuskaddaða og aðra þá sem eiga bágt með gang en hafa sæmilegt afl og stjórn í höndum og handleggjum. Í kajaknum veldur fötlunin lítilli truflun og möguleikar til frjálsræðis eru nánast óskertir og oft miklu meiri en á þurru. Kajakróður er jafnframt mjög góð leið til þjálfunar, með því að hann bætir styrk í handleggja- og bolvöðvum, samhæfingu hreyfinga og jafnvægi. Þetta sport er því vel til þess fallið að bæta lífsgæði fatlaðra á margan hátt.
Víða erlendis hefur kajaksport verið talsvert mikið notað meðal fatlaðra. Mér vitanlega er ekki keppt í því heldur meira notað til hreyfingar og ánægju. Fyrir kappsama ætti hins vegar ekkert að hindra möguleika á að keppa í greininni.
Talsvert hefur verið unnið í því að aðlaga kajaka þörfum þeirra sem ekki geta notast við venjulegan búnað. Þar má nefna aðlöguð sæti og búnð kringum fætur, búnað til að bæta jafnvægi í kajaknum, að auðvelda grip og beitingu árarinnar o. fl.
Hér á landi hefur kajaksportið lítið verið notað meðal fatlaðra. Reykjalundur hefur þó til fjölda ára haft aðstöðu við Hafravatn með nokkrum kajökum og kanóum, sem vistmenn þar og í Reykjadal hafa nýtt sér á sumrin. Hefur þetta mælst vel fyrir og verið vinsælt.
Á síðastliðnu sumri efndi Reykjalundur til kynningarátaks fyrir kajaksportinu með því að fá til landsins sænskan kajakkappa, Tord Sahlén, fyrrum Svíþjóðarmeistara til margra ára og sem hlaut m.a. silfurverðlaun á ólympíuleikum, auk þess sem hann hefur þjálfað sænska landsliðið. Tord er sjálfur fatlaður eftir mænsótt æsku og er með lömun í fótlegg, sem er rýr og styttur eftir. Þrátt fyrir fötlun sína hefur hann náð árangri á heimsmælikvarða meðal ófatlaðra. Segir þetta ýmislegt bæði um Tord og ekki síður um það hve vel íþróttin hentar margs konar fötlun.
Haft var samband við ýmis samtök fatlaðra og þeim boðið að vera með. SEM félagar og MS félag þekktust boðið. Tord hafði námskeið á Hafravatni í 1 viku í lok júlí fyrir ofannefnda tvo hópa auk Reykjalundar og Reykjadals. Veður var hagstætt allan tímann og námskeiðið gekk mjög vel. Þátttakendur lýstu ánægju með það og margir hafa lýst yfir áhuga á að framhald verði á þessu. Tord er tilbúinn til þess að koma aftur og þá jafnvel í lengri tíma, t.d. tvær vikur. Með lítilsháttar lagfæringum við Hafravatn mætti bæta aðstöðu þar til muna.
Æskilegt væri að mynda hóp áhugafólks til að vinna að framgangi kajaksports fyrir fatlaða sem er svo vel fallið til þjálfunar og bættra lífsgæða. Einnig væri það málefninu til framdráttar að íþróttasamband fatlaðra sæi sér fært að veita stuðning og vinna þar með að aukinni fjölbreytni í möguleikum fatlaðra til útilífs og íþróttaiðkunar.