Íslandsleikar
Special Olympics í knattspyrnu innanhúss á Akureyri 2. maí.
Sjöundu Íslandsleikar SO í knattspyrnu voru haldnir í Boganum á Akureyri sunnudaginn 2. maí en þessir leikar eru samvinna ÍF og KSÍ en þeir leggja m.a. til dómara í leikina. Þetta voru fjórðu leikarnir sem haldnir eru innanhúss en þrír leikar hafa verið utanhúss en þeir hafa verið haldnir um miðjan september. Innanhúss leikarnir hafa að jafnaði verið haldnir í mars eða byrjun apríl og verið í tengslum við knattspyrnuviku þroskaheftra í Evrópu sem nýtur mikils stuðnings Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA. Í ár var ákveðið að halda þá á Akureyri og þá í tengslum við Hængsmótið, þannig að félögin gætu boðið keppendum á Hængsmótinu einnig að taka þátt í knattspyrnumótinu.
Mótið hófst kl. 10:00 á sunnudagsmorginum með því að Haukur Þorsteinsson formaður Eikar bauð alla keppendur velkomna og setti mótið. Að því loknu hófst sameiginleg upphitun allra en henni var stjórnað af Dean Martin, meistaraflokksmanni KA í knattspyrnu. Hér má geta þess að það var ansi margir frekar þreyttir því kvöldið áður var lokahóf Hængsmótsins og höfðu allir verið mjög duglegir á dansgólfinu.
Það voru 9 lið sem mættu til leiks frá 5 félögum og voru keppendur um 60 talsins. Um kl. 10:30 hófst síðan keppnin og var keppt í tveimur riðlum A og B riðlum. Hver leikur stóð í 10 mínútur og sáu dómarar frá KSÍ til þess að lögum og reglum knattspyrnunnar sé framfylgt. Leikirnir fóru mjög vel farm þó svo hart væri barist í hverjum leik Úrslit á leikunum urðu eftirfarandi.
Eik/Akur – Nes 1-3 Suðri – Ösp 1-3 Þjótur – Eik/Akur 1-0 Ösp – Nes 2-2 Suðri – Þjótur 1-2 Eik/Akur – Ösp 0-1 Nes – Suðri 1-1 Þjótur – Ösp 0-5 Suðri – Eik/Akur 0-1 Nes – Þjótur 2-1 |
Lokaúrslit U J T Mörk Stig Ösp 3 1 0 11-3 10 Nes 2 2 0 8-5 8 Þjótur 2 0 2 4-8 6 Eik 1 0 3 2-5 3 Suðri 0 1 3 3-7 1 |
Nes – Ösp2 2-3 Eik/Akur - Ösp3 0-7 Nes – Eik/Akur 5-1 Ösp 2 – Ösp 3 0-3 Ösp 3 - Nes 3-2 Eik/Akur - Ösp2 0-8 |
Lokaúrslit U J T Mörk Stig Ösp3 3 0 0 13-2 9 Ösp2 2 0 1 11-5 6 Nes 1 0 2 9-7 3 Eik 0 0 3 1-20 0 |
Öll verðlaun á leikunum eru gefin af Íslandsbanka en veitt eru gull- og silfurverðlaun fyrir tvö efstu sætin en aðrir þátttakendur fá bronspening fyrir þátttökuna í leikunum.
Að móti loknu var öllum boðið upp á grillaðar pylsur að hætti norðanmanna með kokteilsósu og tilheyrandi. Það var Haukur formaður sem sá um við annan mann að standa við grillið í norðan nepjunni og snúa pylsum í gríð og erg. Enda voru allir þreyttir og svangir að leik loknum því eins og áður sagði var hart barist í hverjum leik. Ber að þakka sérstaklega Eikar fólki fyrir góðar móttökur og snerpu við að framreiða pylsur því flestum lá á að komast til síns heima að móti loknu. Veður var farið að versna og margir búnir að vera að keppa í þrjá daga.
Þess má geta í lokin að Halldór Ö. Þorsteinsson starfsmaður KSÍ hefur tekið sæti í knattspyrnunefnd ÍF m.a. sem tengiliður við knattspyrnuhreyfinguna en KSÍ hefur alltaf séð um alla dómgæslu á Íslandsleikunum í knattspyrnu undanfarin ár.
Talið er að um 25 þúsund þroskaheftir einstaklingar stundi knattspyrnu víðs vegar í Evrópu og markmið með knattspyrnuvikum af þessu tagi er að tvöfalda þann fjölda fyrir árið 2005, fá fleiri þjálfara að þjálfun þessara einstaklinga og síðast en ekki síst að auka þau tækifæri sem þroskaheftum gefast til knattspyrnuiðkunar.
Verkefnið nýtur stuðnings UEFA sem hefur mælst til þess að knattspyrnusambönd hinna ýmsu Evrópulanda styðji við bak þeirra sem fyrir verkefninu standa. KSÍ hefur tekið virkan þátt í Íslandsleikunum og vonandi verður þess ekki langt að bíða að knattspyrnufélög bjóði í auknum mæli upp á æfingar fyrir þennan hóp. Knattspyrnuæfingar eru á vegum nokkurra aðildarfélaga ÍF en mörg þeirra hafa ekki tök á að bjóða upp á þessa grein í heimahéraði nema í samvinnu við knattspyrnufélagið á staðnum. Slík samvinna er að mati ÍF grundvöllur þess að vakning verði í greininni meðal fatlaðs íþróttafólks.
Kristinn Guðlaugsson.