Íslandsleikar Íslandsbanka og Special Olympics Íslandi í knattspyrnu

Selfossi, 16. mars 2002, í íþróttahúsinu við Sólvallargötu.

 

Dagana 14. - 21. apríl n.k. standa Special Olympics samtökin í samvinnu við UEFA fyrir “Knattspyrnuviku þroskaheftra” - Special Olympics European football week.  Special Olympics eru alþjóðasamtök þroskaheftra íþróttamanna og er Íþróttasamband fatlaðra fulltrúi samtakanna hér á landi.  Knattspyrnuvikan liður í átaki Special Olympics og UEFA til að auka fjölda þeirra einstaklinga sem knattspyrnu stunda, fatlaðra jafnt sem ófatlaðra. 

 

 

 

Þetta er  í annað sinn sem slík vika er haldin, en á árinu 2001 tóku rúmlega 5 þúsund þroskaheftir knattspyrnumenn þátt í ýmsum knattspyrnuviðburðum tengdum knattspyrnuvikunni. 

Ísland, þ.e. ÍF í samvinnu við KSÍ, “þjófstartar” knattspyrnuvikunni með því að halda Íslandsleika Special Olympics í knattspyrnu þann 16. mars n.k.  

 

Keppt verður í A og B styrkleikaflokki og að lokum eigast við Reykjavík og Landið.  Leikarnir fara fram á Selfossi, í íþróttahúsinu við Sólvallargötu, og hefjast kl. 12:00 með sameiginlegri upphitun knattspyrnuliðanna.  Knattspyrnukeppnin sjálf hefst síðan kl. 12:20 og sjá dómarar KSÍ til þess að lögum og reglum knattspyrnunnar sé framfylgt. 

 

Dagskrá Íslandsleikanna er eftirfarandi:

10:00   Rútuferð frá Íþróttamiðstöðinni í Laugardal

12:00   Sameiginleg upphitun þátttökuliða

12:20   Íslandsleikar í knattspyrnu

15:10   Reykjavík - Landið

15:40   Verðlaunaafhending

 

Talið er að um 25 þúsund þroskaheftir einstaklingar stundi knattspyrnu víðs vegar í Evrópu og markmið með knattspyrnuvikum af þessu tagi er að tvöfalda þann fjölda fyrir árið 2005, fá fleiri þjálfara að þjálfun þessara einstaklinga og síðast en ekki síst að auka þau tækifæri sem þroskaheftum gefast til knattspyrnuiðkunar.

Verkefnið nýtur stuðnings UEFA sem hefur mælst til þess að knattspyrnusambönd hinna ýmsu Evrópulanda styðji við bak þeirra sem fyrir verkefninu standa.  KSÍ hefur tekið virkan þátt í Íslandsleikunum og vonandi verður þess ekki langt að bíða að knattspyrnufélög bjóði í auknum mæli upp á æfingar fyrir þennan hóp. Knattspyrnuæfingar eru á vegum nokkurra aðildarfélaga ÍF en mörg þeirra hafa ekki tök á að bjóða upp á þessa grein í heimahéraði nema í samvinnu við knattspyrnufélagið á staðnum. Slík samvinna er að mati ÍF grundvöllur þess að vakning verði í greininni meðal fatlaðs íþróttafólks.

 

Öll verðlaun á Íslandsleikunum eru gefin af Íslandsbanka sem er aðalstuðningsaðili Special Olympics hér á landi.

 

Tímaáætlun